25.02.1950
Neðri deild: 52. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

123. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Um leið og l. um bráðabirgðaaðstoð handa bátaútveginum voru samþ. hér á Alþ., þá var tekjuöflun, sem til þess átti að renna og heyrir til dýrtíðarl. frá 1948, framlengd til 1. marz. Nú er sýnilegt, að aðrar ráðstafanir verða ekki komnar, sem geti tekið við af lögunum um aðstoðina við útveginn, fyrir þann tíma. Þess vegna er nú farið fram á, að heimildin verði enn framlengd á meðan svo stendur á, að ekki hafa verið gerðar aðrar eða varanlegar ráðstafanir. Það hefur verið álitamál, hvort þessarar heimildar þyrfti að afla, samkvæmt orðalagi l. En það er enginn vafi á því, að það vakti fyrir Alþ., að heimildin skyldi ekki gilda nema til 1. marz, og þess vegna taldi ríkisstj. sjálfsagt, að þessarar heimildar skyldi leitað.

Eins og hv. þm. er kunnugt, eru þessir liðir, sem hér um ræðir, samkvæmt 30. gr. dýrtíðarl., um innflutningsgjöld af kvikmyndum, gjöld af ferðaeyri og gjöld af innflutningsleyfum fyrir bifreiðar. Sömuleiðis, samkv. 31. gr., 20% gjald af matsverði bifreiða, sem ganga kaupum og sölum. Í þessari gr. er einnig söluskatturinn, og mundi hann falla niður, ef þessi kafli l. yrði ekki framlengdur. Þá er einnig í þessum kafla heimildin um gjaldið, sem fjárhagsráð tekur af útgefnum innflutningsleyfum og á að standa undir kostnaði við þá stofnun. Það verður því varla séð, að hægt verði að komast hjá því að framlengja þetta enn um sinn, þangað til endanlegar ákvarðanir verða um það teknar, hvort þessa tekjuliði þarf að nota eða ekki. Frv. fer fram á, að þessi tekjuöflunarákvæði verði látin gilda til 1. apríl, svo að aðeins er hér um einn mánuð að ræða, í því trausti, að áður en sá tími er liðinn verði bundinn endir á þetta mál.