25.02.1950
Neðri deild: 52. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

123. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þegar frv., sem gekk í sömu átt og þetta frv., sem hér liggur fyrir, síðast lá fyrir Alþ., lýsti ríkisstj. því yfir, — og það var raunar að nokkru leyti gengið frá því í orðalagi gr., þar sem miðað er við febrúarlok, — að fyrir febrúarlok mundu hafa verið gerðar úrslitatilraunir um að ná samkomulagi og skapa meiri hl. fyrir öðrum tekjuöflunum, en hér væri farið fram á. Það hefur almennt verið búizt við, að eitthvað mundi frá ríkisstj. heyrast um slíkar till. og um það, hvað hún hefði gert í því efni. En það er lítið að minnsta kosti, sem fram hefur komið um það mál hér á Alþ., og hefur ekki annað heyrzt en það, sem öðru hvoru hefur verið birt í dagblöðunum. Ég verð þess vegna að segja það, að mér finnst það nokkuð seint, nú 25. febrúar, að koma fram með frv. um að framlengja þessar dýrtíðarráðstafanir og ætlast til þess, að það sé samþ. í skyndi hér á Alþ. Að vísu er lagt fram um leið frv., sem vitað er að ekki mun vera samkomulag um enn sem komið er hér á Alþ. Mér finnst þetta ákaflega einkennileg vinnubrögð af hálfu hæstv. ríkisstj. Ég held, að það hefði verið full ástæða til þess, ef ríkisstj. sá fram á, að svona erfiðlega mundi ganga, að hún hefði komið fyrr til Alþ. með þetta mál og gefið þingheimi tækifæri til að taka málið til rækilegrar umræðu. Það hefur satt að segja verið beðið eftir því hér á Alþ.,ríkisstj. legði fram sínar till. í þessu máli, en Alþ. hefur bókstaflega engar skýrslur fengið frá henni um það, hvernig viðhorfið er, ekki aðeins í þessu máli. sem snertir dýrtíðina, heldur líka viðkomandi markaðsöflun fyrir okkur, og lítur nú helzt út fyrir, að halda eigi áfram með augnabliksleiðir, framlengja þær einn og einn mánuð í einu, eins og greiðslurnar á fjárl., meðan ekkert er gert á neinu sviði af því, sem þarf að gera til þess að undirbyggja efnahagsafkomu landsins.

Ég vildi aðeins segja þetta um leið og frv. kemur fram. Ég sé það á öllu, að ríkisstj. mun — fyrst þetta er orðið svona seint á annað borð — freista þess á einn eða annan hátt að fá frv. gegnum Alþ., og er það ekki nema skiljanlegt, úr því sem komið er, af hennar hálfu. Ég hef áður lýst því yfir, að við sósíalistar álítum, að gerbreyta þurfi um stefnu í efnahagsmálum okkar og taka þær tekjur, sem ríkið þarf, með öðrum aðferðum, en þeim að íþyngja stöðugt almenningi og auka sífellt dýrtíðina í landinu. Um það hefur ekki fengizt samkomulag á Alþ. né fengizt meiri hl. til að taka þessar tekjur fyrst og fremst hjá þeim, sem bezt gætu borið þær. Það er deilumál, sem svo oft er komið inn á hér á Alþ., og ég mun ekki orðlengja um það né tefja fyrir framgangi þessa máls nú. Ég býst við, að ríkisstj. segi, að það þýði lítið að framlengja fjárl., ef hún fær ekki þá tekjuöflun, sem hún þarf. Ég held nú satt að segja, að þar sem ríkisstj. er búin að horfa upp á þessar aðfarir og búin að sjá frv. sín felld eða stórbreytt, svo að sjálfur fjmrh. sagði, að það væri alveg óviðunandi, þegar þau voru til umr. í vetur, og þar sem hún er búin að standa í samningum við einhverja flokka, án þess að það hafi borið nokkurn árangur, og þar sem hún kemur enn að fá augnabliksráðstafanirnar samþ. eina í einu, — þá held ég, að eðlilegast hefði verið fyrir slíka stj. að segja af sér. Ég mun sem sagt ekki tefja fyrir málinu, en við sósíalistar erum allir andstæðir þeirri tekjuöflun, sem þarna er lagt til að viðhöfð sé.