03.05.1950
Sameinað þing: 43. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég mundi hafa boðið hæstv. ráðh. velkominn hingað í þingið með handabandi, ef ekki væri svo langt á milli okkar. Það er mjög ánægjulegt að sjá hæstv. ráðh. hér og vita, að hann hefur orðið að svo miklu gagni, eins og hann hefur nú sagt. Ástæðan fyrir kvörtun minni var sú, að ég held, að síðan hæstv. núv. ríkisstj. tók við völdum, höfum við lítið séð hér í þinginu annað, en landbúnaðarmál. Það hafa verið hér til afgreiðslu ekki færri, en þrjú mikilvæg mál fyrir landbúnaðinn á sama tíma, sem mál, er varða sjávarútveginn, liggja hér óafgreidd, en ekki stafar þetta aðgerðaleysi í þessum málum af því, að þau liggi í sjútvn., því að engin slík mál eru nú þar, sem hún getur afgr. Fiskimálasjóður var hér til umr. í gær og hefur fengið meðmæli n., en málið er komið til 2. umr. án þess, að hæstv. ráðh. hafi verið þar viðstaddur eða látið í ljós álit sitt. Gert er ráð fyrir, að Fiskimálasjóður verði nokkuð aukinn og nokkru fé verði úr honum varið í því skyni, sem honum var upphaflega ætlað að vinna að, en ekki verði öllu fénu varið til lánveitinga. En sjóðurinn hefur ekkert unnið að tilraunum með nýjar veiðiaðferðir og öflun nýrra markaða. Ég ásamt tveim hv. þm. úr Sjálfstfl. stend að því, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Ed. Ég kann því illa, að á meðan verið er að afgreiða landbúnaðarmál unnvörpum, þá liggi sjávarútvegsmál óafgreidd, og gat ég þess í gær við hæstv. forseta.

Þá er það frv. um breyt. á l. um stofnlánadeildina, sem var flutt af hæstv. fyrrv. ríkisstj. og hefur legið hjá fjhn. síðan skömmu eftir að þing var sett í haust, og skilanefndin hefur af þeim ástæðum verið starfslaus. Ég tel, að þessi dráttur muni vera samkvæmt beiðni hæstv. ríkisstj., og vona ég, að hæstv. ráðh. upplýsi það nú á eftir. Samkvæmt lögum, sem sett voru eftir síldarvertíðina, þá er síldarsjómönnum meinað að ná kaupi sínu með sjóveðsrétti og þar með tekinn af þeim réttur, sem þeim ber, og hefur Alþ. með þessu móti fyrirbyggt, að þeir gætu notfært sér þennan löghelga rétt sinn. Þegar við hv. þm. Borgf. vildum heimila 1½ millj. kr. til að aflétta þessu ranglæti gegn atkv. hæstv. sjútvmrh., þá er málið látið liggja mánuð eftir mánuð, og það er fyrst nú, sem ég heyri, að hæstv. ráðh. hafi áhuga á að leysa það. Nú er komið nærri nýrri síldarvertíð, og á annað hundrað skip bíða eftir afgreiðslu skilan., svo að afgreiða verður þessi mál strax. Og sökum hins mikla dugnaðar, sem hæstv. ráðh. hefur, þegar hann vill, undrast ég mjög, hve mál þetta hefur dregizt. Ég hreyfði þessum málum ekki af persónulegri óvild til hæstv. ráðh., en ég er fulltrúi útvegsbæjar, svo að ég veit, hve þörfin til að leysa þetta er brýn, og ég vona, að svo verði. Ég sé af ummælum hæstv. ráðh., að þetta mál mun nú bráðum leysast, enda ekki vanþörf á því eftir öll þau vonbrigði, sem bjargráðaráðstafanir hæstv. ríkisstj. hafa valdið. Ég geri mér því beztu vonir, að úr þessu muni brátt rætast, úr því að hæstv. ráðh. hefur nú tekið rögg á sig og ætlar að fara að tala við skilanefndina.