03.05.1950
Sameinað þing: 43. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mér finnst mér skylt að segja nokkur orð út af ræðu hv. þm. Ísaf. Hann sagði, að það væri mér að kenna, að skilanefndin hefði ekki getað starfað, en ég hef aðeins setið nokkrar vikur í þessu embætti og sá, sem sat í því á undan mér, er sá maður, sem lengst og bezt hefur unnið að þessum málum, en um skilanefndina er það að segja, að hún er búin að sitja lengi, og sennilega ræður hún ekki við verkefnið. Ég veit ekki heldur, hvort heppilegt hefði verið að vera búið að hafa skuldaskil, því að þá hefði nú þurft að hafa önnur skuldaskil. Ég veit, að hv. þm. Ísaf. vill mér vel, en það er hægt að hafa aðgang að mér á annan hátt en þann að halda um mig skammarræðu eða skrifa um mig í blöðin. Hv. þm. sagði, að landbúnaðarmálin hefðu verið mikið rædd nú að undanförnu, og er það eflaust rétt, en það er nú svo í pottinn búið, að ákveða þarf, hvað gera skuli viðvíkjandi þeim 15 millj. kr., sem útgerðarmönnum hafa verið veittar á undanförnum síldarleysisvertíðum. Þá eru ýmsar fjárveitingar í þessu skyni og auk þess svo 1½ millj. kr., sem ríkisstj. hefur heimild til að greiða til að leysa sjóveð samkv. l., sem samþ. voru um síðustu áramót, og hæstv. fjmrh. ætlar að taka upp á fjárl. Það er satt, að ég greiddi ekki atkv. með þessu og vildi ekki greiða atkv. með meiru, en útgerðarmenn fóru fram á. Þetta nemur því allt um 19 millj. kr., og verður samið um þetta á næstunni. Það verður að athuga, hvort nauðsynlegt sé að stofna til skuldaskila eða hvort bezt sé að gefa þetta allt eftir. Og þykir mér illt að sitja undir ámælum frá hv. þm. Ísaf. af þessum ástæðum. Það er mikill vilji innan ríkisstj. að ráða fram úr þessu á sem beztan hátt, en það er ekki hægt að bera fram endanlegar till., nema athuga þetta allt vel. Ég varð var við það í blaði hv. þm. Ísaf., að það taldi, að ríkisstj. væri í þessum efnum undir utanaðkomandi áhrifum, en skiljanlegt er, að komast þurfi að samkomulagi við lánastofnanir, en þessu þingi mun ekki ljúka svo, að frá þessu verði ekki gengið. — Ég mun ekki ræða um Fiskimálasjóðinn, enda mun hæstv. fjmrh. gera það, en ríkisstj. mun koma inn á það, sem hv. þm. Ísaf. ræddi hér. Ég vil svo þakka hæstv. forseta fyrir þolinmæðina.

Finnur Jónsson: Herra forseti. Út af því, hver hafi hafið umr., vil ég geta þess, að fyrirspurn mín var borin fram í minni deild um mál, sem þar voru, en hæstv. ráðh. svarar þeim hér, þar sem þær voru ekki bornar fram. Ég held ekki, að hæstv. ráðh. hafi eins miklar áhyggjur út af þessu og hann sagði. Ég held, að þær 17½ millj., sem búið er að veita, svífi ekki allar í lausu lofti, þar sem nokkuð af því hefur verið tekið á fjárl., en nokkuð svífur enn í lausu lofti, og getur hæstv. ráðh. haft áhyggjur af því. Ég sé ekki, að Alþ. geti nema einu sinni svipt sjómenn sjóveðsréttinum án þess að bæta það. Nú er nærri liðið ár, og aðeins 1½ millj. hefur verið tekin til að bæta sjómönnum tapið, og munu nú sjómenn fara að efast um gildi sjóveða.