12.01.1950
Efri deild: 29. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

82. mál, síldarsoð

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til, að ríkið láti reisa stöð til hagnýtingar efna úr síldarsoði við síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði og að ríkisstj. heimilist að taka lán innanlands eða utan fyrir hönd ríkissjóðs, að fjárhæð allt að 4 millj. kr., og að öðru leyti fari stofnun og rekstur slíkrar vinnslustöðvar eftir l. um síldarverksmiðjur ríkisins frá 5. jan. 1938. Í fylgiskjali I. og Il, sem fylgja þessu máli, er gerð nægileg grein fyrir því, hvernig það hefur að borið og hvers vænta má af slíkri vinnslustöð fyrir síldarsoð. Það er um þetta eins og margt annað, sem komið hefur í ljós á seinni árum, að hagnýting úrgangsefna á sumum sviðum er svo þýðingarmikil, að sannast að segja höfum við ekki efni á að láta þessi úrgangsefni fara forgörðum. Fylgiskjal I. er bréf frá síldarverksmiðjum ríkisins til atvmrh., og skilst mér, að þar sé ágreiningslaust lagt til af stjórn síldarverksmiðjanna, að í þetta fyrirtæki sé ráðizt, og hugsunin er að reyna að koma því í verk, svo fljótt sem verða má, með aðstoð Marshallhjálparinnar. Fylgiskjal II. er grg. um framleiðslu soðkrafts hjá síldarverksmiðjum ríkisins. Ég ætla, að hv. dm. hafi kynnt sér þessi skjöl. — Af sérstökum ástæðum þarf ég að víkja úr þessari hv. d. og sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta mál nú. Ég vil mælast til þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.