16.02.1950
Efri deild: 56. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

82. mál, síldarsoð

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil nú leyfa mér að þakka hv. sjútvn. fyrir afgreiðslu málsins, og það gleður mig, að hún er þeirrar skoðunar, að stuðla beri að því, að hægt verði að hagnýta framvegis að einhverju leyti þann úrgang, sem kallaður er síldarsoð og hingað til hefur farið forgörðum.

Eins og vænta má og fskj. bera með sér, hefur málið verið lagt fyrir ráðuneytið af stjórn SR. og er frv. samið eftir till., sem þannig lágu fyrir. En hins vegar get ég vel fallizt á þá brtt., sem n. leggur til að samþykkt sé og gengur út á það, að í stað þess að beint sé lagt fyrir ríkisstj. að láta reisa þessa stöð, þá sé það aðeins heimilað og haldið opinni leið um það, hvort hana skuli heldur reisa á Siglufirði eða annars staðar. Persónulega er ég þeirrar skoðunar, að Siglufjörður verði fyrir valinu, en athugun sú, sem fram hefur farið, er e.t.v. ekki nógu tæmandi, og enn gætu óþekkt atvik leitt til þess, að athuga þyrfti staðsetninguna betur. Þess ber líka að gæta hvað heimildina snertir, að óvíst er, hvernig þetta verður kleift fjárhagslega, en framkvæmdir verða að fara eftir því, hver efni standa til, — og styður það till. n.

Ég er ánægður með afgreiðslu n. á frv. og vona, að það fái greiða afgreiðslu í þessari deild og á Alþ. í heild.