28.02.1950
Neðri deild: 56. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

82. mál, síldarsoð

Frsm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. N. hefur afgreitt þetta mál einróma. Það er mikilsvert mál fyrir sjávarútveginn, því að mikið af föstu efni hefur farið og fer nú forgörðum eins og vinnslu er háttað, enda þótt vinnsluaðferðir hafi tekið stakkaskiptum til bóta með því að sía föstu efnin frá soðinu. Það hefur borið góðan árangur og þannig náðst meira mjöl, en engar tölur liggja fyrir um það, hve mikið af föstu efni hefur farið forgörðum.

Fyrir nokkrum árum var byrjað að eima soðið og ná þannig úr því soðkrafti. Í hverju síldarmáli eru 95 kílógrömm af soði. Með eimingu fást 15 kíló af soðkrafti úr hverju máli, og með núverandi verði nemur það 14 króna verðaukningu á hvert mál. Þegar athugað er verð á síldarafurðum s.l. sumar, mun láta nærri, að reikna megi með 66 krónum á hvert mál, og yrði þá hægt að nýta bræðslusíldina um 20% betur, ef þessi stöð kæmist upp. Það gæti gert miklar breytingar. Það gæti ráðið úrslitum um það, hvort það borgar sig að vinna síld, þegar verðið fer að lækka á markaðinum.

Stjórn SR hefur athugað ýmsar leiðir til betri hagnýtingar á undanförnum árum, en þegar soðkrafturinn kom til sögunnar, þótti sýnt, að sú vinnsla mundi heppilegasta leiðin til að auka verðmæti framleiðslunnar og hagnýta hana til fulls. Dr. Þórður Þorbjarnarson rannsakaði þetta mál og kynnti sér og Páll Ólafsson efnafræðingur ríkisverksmiðjanna, og Vilhjálmur Guðmundsson framkvæmdastjóri fór til Ameríku og kynnti sér þessa vinnslu rækilega. Eftir áætlun Vilhjálms að dæma yrði mjög hagkvæmt að stofnsetja þessa verksmiðju, þar sem útflutningsverðmæti hvers síldarmáls mundi aukast um 14 krónur, en annars hefði allt það verðmæti runnið í hafið.

Nú hefur verið síldarleysi undanfarin ár, og sökum þess hefur stjórn síldarverksmiðjanna aðeins viljað leggja til, að byrjað yrði í mjög smáum stíl, eða sem svarar 5.000 mála vinnslu á sólarhring, en eins og kunnugt er samsvarar það ekki nema litlu einu af vinnslugetu verksmiðjanna á Siglufirði. Gert er ráð fyrir, að gjaldeyrir til stöðvarinnar fengist borgaður aftur með tveggja ára vinnslu og stöðin skili öllu fé, sem í hana verður lagt, aftur á fimm árum.

N. leggur einróma til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt eins og það kemur frá hv. Ed.