27.02.1950
Neðri deild: 55. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Landbrh. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Ég hef nú ekki tafið tíma þessa Alþ. með umr. um lagafrv. Og á undanförnum Alþ. hefur afstaða mín á Alþ. og til hæstv. ríkisstj. verið slík, að mér hefur þótt bezt við eiga að taka sem minnstan þátt í umr., eins og sakir hafa staðið. En þar sem hér liggur fyrir eitt hið stærsta mál, sem legið hefur fyrir hv. Alþ., og meðfram út af þeim ræðum, sem hér hafa verið haldnar, þykir mér ástæða til að fara nokkrum orðum um þetta mál í heild og segja um það mína skoðun. Meðfram þykir mér ástæða til að gera þetta vegna þess, að hér er um að ræða það mál, sem Sjálfstfl. stendur allur að og er sammála um.

Hæstv. 1. þm. S-M. talaði hér í dag eins og hann hefði aldrei verið í ríkisstjórn. En það vill nú svo til, að þessi hv. þm. hefur verið í ríkisstjórn lengur en nokkur annar maður, sem nú á sæti á þingi. Hann talaði nokkuð út frá flokkslegu sjónarmiði. Og sömuleiðis hafa þeir talað út frá flokkslegu sjónarmiði, sem talað hafa á eftir honum hér við þessa umr. En þetta mál er ekki fallið til að gera það að flokkaþrætumáli. Þetta er alþjóðarmál, sem ræða verður án allrar flokkaþrætu. Ég mun því leitast við að ræða það án þess að koma inn á það svið. Við vitum það allir, að á undanförnum árum og áratugum hefur verið unnið að því af Alþ. og þjóðinni í heild að koma málum okkar í sem bezt horf, bæta samgöngur, auka ræktun og nýbyggingu, efla iðnaðinn o.s.frv., og ég tel það, hve vel hefur miðað í þessum efnum, okkar mestu hamingju, og að skilyrðin hafi aldrei verið eins góð til að þjóðinni liði vel og aðstæður aldrei eins góðar og nú til að nytja gæði þau, sem land og sjór hafa að bjóða, en samt sem áður er ástandið eins og það er nú í fjármálum þjóðarinnar. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir í dag, að ríkissjóður væri raunar gjaldþrota, þar sem hallinn á rekstri hans undanfarin 3 ár næmi 175 millj. kr., lánsfé þrotið og atvinnuvegirnir bera sig ekki lengur, en er haldið uppi með fé úr ríkissjóði. Hvernig stendur á þessu? Hvað veldur þessu ósamræmi? Til þess liggja eflaust margar ástæður, en ég tel ekki að það stafi af of miklum framförum og nýsköpun, og hefur sú ranga túlkun komið hér fram í áliti hagfræðinganna, að þeir telji svo vera. Þeir skipta tímabilinu frá stríðsbyrjun í tvennt og telja, að mismunandi ástæður hafi legið til aukningar dýrtíðarinnar á þessum tímabilum. Á fyrra tímabilinu var orsökin fyrst og fremst stríðið. Þá hækkuðu afurðir landsmanna og erlendur her dvaldi í landinu og bauð hærra kaup en áður hafði þekkzt, og var þetta grundvallarorsök dýrtíðarinnar, og svo það, að 1940 voru samþ. lög á Alþ. um vísitölu og verðlagsuppbót, sem orsökuðu það, að dýrtíðarskrúfan byrjaði að snúast. Mér blöskraði, þegar þessi l. voru samþ. og þar með stefnt að hruni, því að það þolir engin þjóð, að vísitala sé reiknuð út mánaðarlega og öll hækkun borguð 100%, enda held ég, að slíkt þekkist hvergi nema hjá okkur, og hefur það verið viðurkennt af þeim, sem að lögunum stóðu, að þetta hafi verið röng leið, og ég held, að ekki komist lag á fjármálin hjá okkur fyrr, en því er hætt. En hér koma einnig til fleiri ástæður, og þá ef til vill ekki sízt það, að þjóðin lifði um efni fram og eyddi meiru en framleiðslan þoldi. Í þriðja lagi er svo sú orsökin, sem rökstudd er hjá hagfræðingunum, en það eru verzlunarhöftin, sem hér hafa verið nú undanfarið. Þeir hafa sýnt og sannað, að slíkt ástand geti ekki endað öðruvísi en illa, svo sem með gengisfalli eða hruni. Og auk þess er svo sú ástæða, sem ýmsir ræðumenn hafa nefnt, að útgjöld ríkisins hafa verið meiri en nokkurt vit er í og það hafi íþyngt skattgreiðendum meira en þeir gætu staðið undir.

Það er rétt, sem vikið hefur verið að hér og raunar ætti að vera öllum hv. þm. ljóst, að allar þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið undanfarin ár í því skyni að hamla gegn dýrtíðinni, hafa verið ófullkomnar og aukið frekar á dýrtíðina en lækkað, og er því full þörf úrbóta og það meiri en smávægilegra, þó að sumir vilji svo vera láta, að þess sé ekki þörf og áhætt að láta allt reka áfram á reiðanum í þessum efnum.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur verið undirbúið rækilega og óvenju vel. Ríkisstj. hefur haft sér til stuðnings og aðstoðar tvo af okkar færustu hagfræðingum og auk þess tvo hæstaréttardómara. Frv. hefur verið í undirbúningi í margar vikur, og hvert og eitt einasta atriði hefur verið athugað gaumgæfilega, og mér er óhætt að fullyrða, að við samningu þess hafa ekki ráðið flokkssjónarmið, heldur það, hvað álitið var heppilegast til lausnar þessum málum. Þeir þrír flokksformenn, sem hér hafa talað, virðast vera sammála um það, að það hafi verið ábyrgðarleysi af ríkisstj. að leggja þetta frv. fram í þinginu, án þess að hafa áður verið búin að tryggja því meiri hluta, Ég er þeirrar skoðunar, að það hefði verið ábyrgðarleysi af ríkisstj., ef hún hefði ekki lagt frv. fram. Í ræðum þessara manna hefur glytt á þann hugsunarhátt, sem hefur farið verst með Alþ. og orsakað hefur það, að Alþ. er að verða að viðundri hjá þjóðinni fyrir slóðahátt. Það er raunalegt að verða að viðurkenna þetta, en það er satt. Orsökin er sú, að stórmál eru ekki látin koma fyrir þingið, fyrr en búið er að makka um þau tímunum saman, utan þingsalanna. Nú hefur það unnizt við það, að ríkisstj. lét frv. ganga til tveggja flokkanna, og þeir hafa athugað það í 3 vikur, að þeir eru betur undir það búnir að taka fljótt afstöðu um það, hvort þeir ætla að fylgja frv. eða ekki. Það er að vísu ólík afstaða, sem þessir flokkar hafa til frv., þar sem annar þeirra lýsti andstöðu gegn þessari leið í kosningunum í haust, en hinn ekki, og virðist nú mega ganga út frá því, að málið hafi meirihlutafylgi í þinginu, eða ekki var annað hægt að skilja á öðrum aðalformanni Framsfl. í dag. En mál þetta á ekki og má ekki verða braskmál milli flokkanna og er ekki til þess fallið að hnýta inn í það öðrum flokkaþrætumálum, en það virtist hafa verið tilgangurinn hjá sumum þeim ræðumönnum, sem hér hafa talað, svo sem húsnæðis-, verzlunar- og iðnaðarmálum. Þau á að afgreiða sér, en ekki vefja þau inn í þetta frv. til að tefja það.

Hv. 1. þm. S-M. sagði á þá leið, að ríkisstj. hefði átt að biðjast lausnar og afhenda Alþ. umboð sitt. Hún hefði átt að biðjast lausnar, þegar hún hafði undirbúið lausn á þýðingarmesta málinu, sem nú er uppi með þjóðinni. Núverandi ríkisstj. er minnihlutastjórn og var sett á stofn vegna þess, að Alþ. gat ekki komið sér saman um meirihlutastjórn, en hún fer frá, hvort heldur sem er með vantrausti eða ef vissa er fyrir, að hægt sé að mynda meirihlutastjórn innan þingsins, sem getur tekið við þessum málum, en það hefur ríkisstj. ekki enn fengið vissu um, og því hefur hún ekki viljað stofna til stjórnleysis, og sízt í sambandi við þetta mál. Viðtökur þær, sem ríkisstj. fékk, þegar hún tók við, var ekki hægt að skilja á annan veg en hv. þm. vildu heldur utanþingsstjórn, en þessa stjórn, sem nú situr. Og úr því að ekki var hægt að setja á laggirnar ríkisstj., sem styddist við meiri hluta, þá var spurningin, hvort væri betra að hafa utanþingsstjórn eða stjórn, sem styddist við um 28 þús. kjósendur. Utanþingsstjórn hefur starfað hér áður, en ekki gefizt vel. Það er eðlilegt, að ríkisstj. fari frá, ef meiri hluti hv. þm. vill það, en hún ætti ekki að fara frá vegna þessa máls, fyrr en sýnt er, hve mikið fylgi það hefur í Alþ.

Ég skal nú víkja að sjálfu. frv. Það viðurkenna flestir, að nauðsyn sé að gera eitthvað í þeim vandamálum, sem nú steðja að þjóðinni. Og þá er fyrst: Hvað er gengislækkun? Gengislækkun er aldrei neinn fagnaðaratburður, hún er ekkert nema neyðarúrræði, en þegar ástandið er eins og það er nú, þýðir ekkert annað en neyðarúrræði, og Sjálfstfl. telur hana að svo komnum málum það bezta, sem völ er á. Hún er ekkert annað, en viðurkenning á staðreyndum. Ef helmingurinn af þessu húsi væri hruninn, þýðir ekki að halda því fram, að það sé heilt, og sannleikurinn er sá, að það er búið að verðfella krónuna með verzlunarhöftum og hækkun á verðlagi og launum, og gengislækkun er því, eins og málum er komið, ekkert annað en viðurkenning á staðreyndum. Það er ekki hægt að taka gjaldeyri af sjómönnum fyrir 26 kr. pundið og selja það svo rétt við hliðina á þeim fyrir 50–60 kr. og ekki hægt að halda áfram útflutningsverzlun án þess að viðurkenna þetta. Þeir hagfræðingar, sem sömdu skýrsluna, — ég skal taka það fram, að ég get ekki undirskrifað allt, sem þeir segja, þó að ég sé þeim í flestu sammála, — halda því fram, að samræmið milli launa og verðlags og gengis verði að haldast eða það hljóti að enda með gengislækkun, ef launahækkanir eru þá ekki byggðar á fullkomnari tækni í atvinnulífinu og eins er því háttað með verzlunarhöft; þau hljóta að leiða til gengislækkunar. Nú má spyrja, hvort gengislækkun kæmi að fullu gagni hér. En slíkt fer eftir öðrum aðgerðum, sem gerðar verða í þessu sambandi. Þá vil ég segja það í sambandi við síðustu ræðu, að enginn ræður við verðlag eða markaði erlendis, en eftir því sem gengi er líkara gengi sölulandsins, eru meiri líkur til, að útflutningsverzlunin beri sig. Í sambandi við launa- og kjaraskerðingu þá, sem þetta kynni að valda, vil ég varpa fram þeirri spurningu, hvort menn hafi gert sér ljóst, hverjar eru launastéttirnar. Það er nú svo komið, að 80–90% þjóðarinnar eru launastéttir eða búa við svipuð kjör og þær, svo að ekki er um smáhóp að ræða, heldur meiri hluta þjóðarinnar. Vegna þess, hvernig hefur verið búið að framleiðslunni í stríðinu og í lok þess, þá hafa atvinnuvegirnir tekið upp nauðvörn, landbúnaðurinn 6 manna nefndina og sjávarútvegurinn fiskábyrgðina. Þetta er nauðvörn framleiðslu, sem smám saman er verið að murka úr lífið, vegna þess að þeir, sem framleiðslu stunda, hafa ekki getað staðizt samkeppni við aðra um vinnuafl. En þegar við tölum um launastéttir, er um tvennt ólíkt að ræða, þar sem eru fastlaunamenn og verkalýður. Ég skal taka það fram að, að svo miklu leyti sem ég starfa sem stéttafulltrúi, þá starfa ég sem fulltrúi bænda og verkamanna og hef mikinn áhuga á því, að verkamönnum líði sem bezt, en mér er ljóst, að það er ekki nægilegt, að verkamenn hafi sem hæst kaup, ef ekki er atvinna. Hún er aðalatriðið, og ég met það meira fyrir þá verkamenn, sem ég er fulltrúi fyrir, að þeir hafi atvinnu, heldur en þótt þeir hefðu sem svaraði 5 kr. hærra kaup á dag. Og ykkur, fulltrúa launþega, bið ég að athuga það, hvað verður um þessa aðila, ef atvinnuvegirnir stöðvast, sem lítur út fyrir, ef ekkert verður að gert. Hvað á þá að gera til að tryggja, að menn geti haft atvinnu og atvinnuvegirnir haldið áfram að ganga? Skal ég nú víkja að því, sem skýrt er í grg., hvaða munur sé á gengislækkun og verðhjöðnun fyrir verkamenn, því að aðra hvora þá leið verður að fara, því að uppbótaleiðin er óframkvæmanleg fyrir gjaldþrota ríkissjóð. Ef færa ætti kaupgjaldið niður með l. þyrftu launin að lækka 25% meira, en afurðaverð. Þetta er sannað í grg. Hver getur látið sér detta í hug, að slíkt sé framkvæmanlegt, þegar ekki hefur tekizt að halda laununum kyrrum, eins og þau hafa verið undanfarið? Gengislækkunarleiðin mundi hins vegar aðeins hafa í för með sér hækkun framfærslukostnaðar um 10%. Það er því sýnilegt, og gefur auga leið, að hér er um mikinn mun að ræða. Jafnvel þótt laun séu bætt upp, eins og gert er ráð fyrir í frv., er gengislækkunarleiðin fær, þó að hin leiðin sé ófær. Ég vil minna á það, að þegar gengið var fellt 1939, sem afleiðing haftastefnunnar frá 1931, þá var kaupgjald sett fast og launahækkunum stakkur skorinn. Ég man ekki betur en að hv. 8. landsk. væri því þá samþykkur, þó að hann telji nú, að í þessu frv. felist óhófleg kjaraskerðing. Varðandi vísitöluútreikninginn vildi ég segja það, að ég vildi helzt burt úr heiminum allar vísitölu- og verðuppbætur, því að þær eru undirrót skrúfunnar. Hér er lagt til að leggja nýjan grundvöll að vísitölunni, en uppbætur eiga að haldast í 15 mánuði, þá verður þeim hætt. Þetta er frestur, en það er mikill höfuðkostur, að gengið er inn á að höggva á hnútinn, og fyrir launastéttirnar er þetta vægilegra, en ráðstafanir þær, sem gerðar voru árið 1939.

Eins og ég tók fram áðan, álít ég, að ekki eigi að vefja húsaleigumálinu, þó að það sé stórkostlegt mál, inn í þetta mál. Sama gildir um þrætur þær, sem verið hafa um verzlunarmálin.

Um till. þær, sem hér liggja fyrir varðandi uppbætur á sparifé, er það að segja, að þær eru lagðar fram vegna þess, að engir verða harðar úti, en sparifjáreigendur, vegna verðhækkunarinnar. Það má segja, að þær séu ekki fullnægjandi, en þær eru viðleitni í þá átt að rétta þeim hjálparhönd í sambandi við tjón það, er þeir bíða af þessum ráðstöfunum.

Ég get tekið undir það, sem sagt var hér áðan, að þörf er á bættri aðstöðu fyrir íslenzkan landbúnað. Hann er eini atvinnuvegurinn, sem er undir gerðardómi, og hefur, eins og kunnugt er, alltaf verið að tapa uppvaxandi fólki, því að aðrir atvinnuvegir hafa boðið meiri þægindi, en landbúnaðurinn hefur getað veitt. Sannleikurinn er sá, að sjávarútvegurinn og iðnaðurinn eru betur settir, og hafa því mest skilyrði til að taka við þeirri fólksfjölgun, er verður í þjóðfélaginu.

Það má segja, að í frv. séu engin ákvæði um að takmarka útlán bankanna eða rekstrarhalla ríkissjóðs, en getan verður þar að vera mælikvarðinn, og ekki er hægt að vona, að fullnægt verði öllum óskum og hugsjónum.

Það var vikið að því hér í ræðu áðan, að það hefði gengið svo undanfarið, að of lítið hefði komið í hlut sjávarútvegsins og of mikið í hlut annarra aðila. Það má einnig segja, að of lítið hafi komið í hlut landbúnaðarins, ef tryggja á framleiðslu landbúnaðarvara. Afleiðingin er sú, að fjöldi hins uppvaxandi fólks óskar eftir að komast inn í fastlaunastéttirnar bæði hjá ríki og verzlun. Það bendir ekki til þess, að illa hafi verið farið með þær stéttir undanfarið.

Varðandi þær till., sem liggja fyrir um stóreignaskatt, getur það verið álitamál, hvernig því skuli hagað, og skal ég ekki fara frekar út í það.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að engin grein væri í frv. um frjálsa verzlun, en það er ekki hægt að lögbjóða frjálsa verzlun. Grundvöllurinn verður að vera fyrir hendi, og það er einn höfuðtilgangurinn með þessum ráðstöfunum, eins og tekið er fram í grg., að skapa þann grundvöll. Það er augljóst mál, að ekki verður við því búizt, að öll vandkvæði okkar þjóðfélags verði leyst með frv., og ég tel það grundvallarskilyrði fyrir happasælli lausn, að ekki verði vafið inn í þetta fleiri deilumálum, en þörf er á. Ég endurtek það, að þó að þessar ráðstafanir séu ekki geðfelldar, eru þær óhjákvæmilegt skref til þess að bæta úr því ástandi, sem nú er. Það þarf því að flýta afgreiðslu málsins, enda hafa tveir andstöðuflokkanna haft tækifæri til að athuga frv. í þrjár vikur og ættu því ekki að þurfa langan tíma til að koma fram með þær athugasemdir, sem þeir telja þörf á.

Ég skal ekki tala um þá löngu ræðu, sem hér var haldin um markaðsmál og afurðasölu, en vil að lokum skora á hv. þm. að líta á þetta mál með alþjóðarheill fyrir augum, eins og frjálsir, heiðarlegir alþm., en ekki sem flokksmenn eða stéttafulltrúar, er láti sérhagsmuni og klíkusjónarmið sitja í fyrirrúmi. Það verður ekki hjá því komizt að taka þessi mál föstum tökum. Það er eina ráðið, ef bjarga á frá vandræðum og atvinnuleysi.

Ég læt svo þessi orð nægja. Sjálfsagt fæ ég síðar tækifæri til að marka afstöðu mína í einstökum greinum.