27.02.1950
Neðri deild: 55. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum og settist á þá rökstóla, sem hún er nú að yfirgefa, var því heitið, að það mundu verða gerðar ráðstafanir til þess að koma bátaflotanum af stað, og enn fremur yrðu lagðar fram till. til varanlegrar úrlausnar fyrst og fremst á vandamálum þeim, sem bátaútvegurinn hefur átt við að stríða árum saman og hafa átt sinn stóra þátt í því að koma útvegsmönnum á kné. Fiskábyrgðarlög voru hér fyrst samþ. á þinginu 1946. Og það hefur nú komið í mitt hlutskipti, síðan farið var út á þá braut, að standa áveðurs í þeim efnum að hafa með að gera höfuðframkvæmd á fiskábyrgðarlögunum, og lengst af líka að skipa sæti fjmrh. á þeim tíma. Ég hef því fundið ákaflega vel, hvaða þungi hefur lagzt á ríkissjóðinn og fyrirsvarsmenn ríkisins í sambandi við þessa aðferð, að halda bátunum gangandi með ábyrgð frá ríkinu. Hæstv. fjmrh. lýsti því í sinni ræðu, hve undanfarið hefur farið mikið í það að standa undir þessum ábyrgðum: 1947 24,2 millj. kr., 1948 25 millj. kr. og 1949 37 millj. kr. Og áætlað er, miðað við sama áframhald í þessu efni, að ef fiskábyrgðin ætti að standa til 15. maí, þótt ekki væri lengur, og gert væri ráð fyrir meðalveiði, þá yrði það allt upp í 45 millj. kr., sem af hendi þyrfti að inna upp í fiskábyrgðina, en ef um allt árið væri að ræða, þarf varla að gera ráð fyrir minnu á yfirstandandi ári í þessu skyni en 70 millj. kr. — Í sambandi við allt þetta hefur svo öðrum þræði verið varið mörgum tugum milljóna til þess að reyna að standa á móti verðbólgunni með því að greiða niður nauðsynjavörur innanlands. — Og nú býsnast allir yfir því, hvað afkoma ríkissjóðs hefur orðið bágborin. En þegar sú hliðin er rædd, þá seilast sumir til þess að bera þeim á brýn þessa afkomu, sem fyrir atburðanna rás hafa orðið að standa í framkvæmdunum, en gleyma, eða vilja loka augunum fyrir ábyrgð þeirrar stofnunar, sem hefur staðið fyrir þessu, sem er hæstv. Alþ. sjálft. — Ríkisstj. hefur leitazt við að inna af hendi þau verk, sem hún batt sig við að framkvæma.

Ég hafði ekki hugsað mér að hafa mig mikið í frammi við afgreiðslu þessa máls, sem hér liggur fyrir. En ég hafði mest á hendi að halda uppi málsvörn fyrir ríkisstj., þegar fiskábyrgðarlögin voru sett hér í vetur. Og mér er það vel í minni, að þegar ríkisstj. vildi viðhafa þá varúð að gera ráð fyrir því, að það gæti svo farið, að ráðstafanir, aðrar en bein ábyrgð á fiskverði og greiðsla úr ríkissjóði vegna ábyrgðarlaganna, næðu ekki lögfestingu — þegar ríkisstj. vildi gera ráð fyrir þessum möguleika og til varúðar fór fram á það við hv. alþm., að þeir samþ. fjáröflun í því skyni, þá var það algerlega fordæmt, og mest af þeim hv. þm., sumum hverjum, sem nú fordæma það bjargráð, sem felst í því frv., sem nú er verið að ræða. Það er að vísu gott að segja sem svo, að það væri heppilegra — eins og sá hv. þm. sagði, er síðast talaði hér — að halda ríkisábyrgðunum og sleppa þessari leið, sem hér er í frv. lagt til að leggja út á. En til þess að vera sjálfum sér samkvæmur, hefði þá sá hv. þm. ekki átt að vera á móti því, að ríkissjóði væri gert fært að standa við skuldbindingar sínar í því efni. Og hann er ekki einn um það. Það var yfir höfuð algerlega komið í veg fyrir það í vetur, að hægt væri að halda áfram ríkisábyrgðinni, og það var gert með því að fella till. ríkisstj. um fjáröflun til þess að standa við hana. Sé bátaútveginum, eins og hv. 2. landsk. þm. vildi reyna að sýna fram á, ekki næg hjálp í þeirri gengisbreyt., sem hér er fitjað upp á, þá verð ég að segja það, að bátaútveginum er heldur minni hjálp, og næsta lítil hjálp í því að búa við ríkisábyrgð, sem engar líkur eru til, að ríkið gæti staðið við. Við höfum á undanförnum árum reynt að fara þessa leið, að halda uppi útveginum með beinum gjöldum úr ríkissjóði, til þess að standa undir mismuninum á milli framleiðsluverðs og söluverðs. Ég veit bezt, hve mikið það hefur kostað af umhyggju og erfiði hjá fiskábyrgðarnefnd, hjá Sölumiðstöðinni, hjá Samþ. ísl. fiskframleiðenda og loks hjá sjútvmrn. að streitast við að koma framleiðslunni á markað við verði, sem krefðist sem minnstra fórna úr ríkissjóði. Ég held, að ég geti rauplaust sagt, að í því efni hafi verið gert allt, sem hægt var að krefjast af þeim, sem fyrir þessu stóðu. Þrátt fyrir þetta horfum við á það, að mörgum tugum milljóna hefur orðið að fórna á hverju ári úr ríkissjóði til þess að uppfylla skuldbindingar gagnvart útvegsmönnum og hraðfrystihúsunum o.s.frv. Og þegar hæstv. Alþ. er komið á það stig, eins og í vetur, að neita ríkisstj. blátt áfram um tekjuöflun til þess að standa undir ríkisábyrgðinni, þá finnst mér það vera harla óskynsamlegt að vera að gera því skóna, að hún gæti haldið áfram á þeirri braut. Sjálfir vitum við vel, að sú leið hefur verið farin eins lengi og nokkur von hefur verið til og lengur heldur en fært hefur verið. Það er þess vegna og hefur verið aðkallandi og brýn nauðsyn að gera aðrar ráðstafanir, til þess að halda framleiðslunni gangandi, heldur en að leggja enn þannig fram fé úr ríkissjóði. — Sú leið, sem hér er lagt til, að farin verði, gengisbreytingarleiðin, hún er ekki neitt, sem alveg hafi komið yfir menn eins og skúr úr heiðskíru lofti. Það er lengi búið að liggja í loftinu að, að þessu ráði yrði að hverfa. Það hefur verið rætt í blöðum, á fundum og jafnvel verið um það talað við sjálfar alþingiskosningarnar á s.l. hausti, og þetta var ein sú leiðin, sem mjög kom til álita þá. Það er þess vegna alls ekki rétt að halda því fram, að hér sé verið að koma með eitthvað verkalýðssamtökunum og launastéttasamtökunum nýtt mál eða þeim að óvörum. Það er fjarri því. Þetta frv. er mjög vandlega íhugað, og mikil vinna hefur verið í það lögð. Og það hafa sannarlega verið til þess kvaddir hinir beztu menn, fyrir atbeina ríkisstj., bæði til þess að finna út ráðin, sem frv. bendir á, og semja grg. frv. og til þess að semja frv. sjálft. Þar að auki hafa vikum saman staðið fundarhöld með þessum mönnum og hver einstakur liður frv. verið ræddur. Þrátt fyrir þetta er svo að skilja, sérstaklega á hv. 2. landsk. þm. (LJós), að það hafi verið ætlazt til, að inn í þetta mál væri fléttað öllum mögulegum atriðum. Þetta er ekki í frv., sagði hv. þm. Og hitt er ekki í frv., sagði hann líka. Og hvað þýðir að koma með frv., sem þetta vantar í og hitt? — o.s.frv. Svona útúrdúrar eru næsta broslegir í þessu máli. Og það mætti æra óstöðugan, held ég, í sambandi við flestöll stórmál, ef alltaf ætti að benda á, að það ætti að grípa inn á þessu sviðinu og hinu sviðinu o.s.frv. Í frv. er, að mínum dómi, farið inn á þau nauðsynlegu svið, sem þarna er unz að ræða, gengisbreytinguna og að draga úr áhrifum hennar á sjálfa dýrtíðina, eftir því sem unnt er, t.d. með því að byrja á að lækka tolla, eins og hér er lagt til. — Þá er í frv. eitt atriðið sú merkilega viðleitni að reyna að finna leið til þess, að launastéttirnar beri ekki svo skarðan hlut frá borði, að þær geti ekki við unað. Á það hefur verið bent undir umr., að hin mikla þjóð, Bretar, sem gerðu gengisbreyt. á sinni mynt fyrir skemmstu, hafi ekki farið út í þá sálma að tryggja verkamönnum og launþegum uppbætur til að minnka kjaraskerðingu gengisbreytingarinnar, heldur hafi þeir beinlínis bannað kauphækkanir í sambandi við sína gengisbreyt. Hér er lagt til alveg það gagnstæða, að bæta mönnum þessa kjaraskerðingu, sem þessi löggjöf kann að leggja á herðar þeim. — Þá er enn fremur lagt til að bæta sparifjáreigendum þeirra tjón að einhverju talsverðu leyti með framlagi á 10 millj. kr. Og verður það þó ávallt talsvert spursmál, hvernig það tjón skal meta, ekki sízt þegar þess er gætt, að í raun og veru er þessi gengisbreyting eða skerðing krónunnar fyrir löngu byrjuð og komin mjög langt á veg, svo að það er, eins og hæstv. landbrh. sagði, þannig, að hér er í raun og veru með þessu frv., hvað skerðingu krónunnar áhrærir, ekki gert annað en að viðurkenna þá staðreynd, sem nú liggur fyrir. Ég held líka, að það ætti að falla mönnum ákaflega vel í geð, sem þetta mál sjá og heyra og eru allajafna að finna að því, að ekki séu nógu háir skattar lagðir á þá, sem eitthvað eiga, að hér er einmitt farið út á þá braut að láta þá, sem sýnilega geta auðgazt við þessa gengisbreyt., þó að það sé ekki nema á pappírnum, fasteignaeigendur, líka bera sinn hluta af byrðunum. Það er því langt frá því, að hér sé verið blátt áfram með skerðingu krónunnar og ekkert annað, eins og nú var síðast haldið hér fram.

Það er dálítið einkenni, finnst mér oft, sem ber á, þegar eitthvað á að gera hjá okkur Íslendingum, að menn vilja gjarnan gera allt í einu og finnst lítið til koma, ef ekki er hægt að grípa yfir og grípa inn á öll möguleg svið svo að segja í einu lagi. Og þetta hefur líka, í gagnrýninni á þetta frv., komið í ljós. Einn einasti af andmælendum frv. hefur bent á aðra leið, sem hann teldi, að hann, og að mér skildist jafnvel hans flokkur — það var hv. 8. landsk. þm. — vildi fara. Og það var að þjóðnýta útflutnings- og innflutningsverzlunina. Ég ætla ekki að fara að leggja neinn dóm á, hvernig afleiðingin af því yrði. En ég bendi bara á, að undir þessari gagnrýni hefur aðeins verið bent á þetta eina úrræði, en önnur úrræði hafa hér ekki verið talin, svo að ég hafi eftir tekið.

Bátaútvegsmenn hafa árum saman átt við erfiðleika að stríða. Við erum búnir að lýsa því. Og við erum búnir að horfa á það. Við höfum setið á Landssambandsþingi og rætt það þar. Og við höfum rætt það á Alþ. Allir telja sig fúsa til þess — og eru víst, hver eftir sínu viti — að vilja létta þá erfiðleika. Og þess vegna fór þingið á sínum tíma út á ríkisábyrgðarbrautina. Ég hef þráfaldlega bent á það, sem allir vita, að á undanförnum árum hafi bátaútvegsmönnum verið mismunað stórlega í því, að þeirra gjaldeyrir hefur verið af þeim tekinn við of lágu verði og hann afhentur öðrum aðilum, sem hafa haft vissa hagnaðarvon fyrir hverja krónu af gjaldeyrinum, sem þeir hafa fengið keyptan, og að þarna hefur legið ein höfuðmeinsemd bátaútvegsmanna, atvinnulega séð. Og það er kominn fyllilega tími til þess að fara að viðurkenna það með breyt. á genginu, hversu rangt hefur verið farið að við þessa stétt manna í landinu. — Það getur vel verið, að það verði fleiri en hv. 2. landsk. þm., sem síðast talaði hér nú, sem segja það með honum, að þeir vildu heldur hafa ríkisábyrgðina heldur en gengisbreytingu. — Ástæðan er ekki einvörðungu sú, að reikningslega geti þetta komið svipað út. Hún er miklu fremur sú, því miður, að við ríkisábyrgðina hefur smám saman dofnað ábyrgðartilfinning útgerðarmanna. Við erum komnir langt á leið með að ala þá og hraðfrystihúsaeigendur og saltfiskseigendur upp í þeirri trú, að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að koma vörum sínum í verð, það verði fyrir því séð af Alþingi að láta báða enda mætast. Mér liggur við að segja, að milljónirnar, sem ríkissjóður hefur varið eða landsmenn hafa varið á undanförnum árum til að feta þessa leið, þessa uppbótarleið, þær séu smámunir einir samanborið við þann skaða, sem sá hugsunarháttur veldur hjá framleiðendum í landinu, að þeir þurfi sjálfir ekki að sjá fyrir sínum hagsmunum. Sá hugsunarháttur er eitthvað það alvirkasta til þess að koma af stað stórkostlegri hnignun í þeim atvinnuvegi, sem við tengjum mestar vonir við og gjaldeyrisöflun okkar er að mestu leyti eða nærri því að öllu leyti á að byggja.

Það er svo sem auðvitað mál, að frv. eins og þetta, sem hér liggur fyrir, er ekki svo fullkomið, þó að það sé af lærðum mönnum undirbúið og vel til þess vandað, að ekki megi segja, að eitthvað geti verið öðruvísi, en í því stendur, og ég skal t.d. viðurkenna þá gagnrýni, sem hér kom fram, að ekki sé séð fyrir því eins og skyldi í þessu frv., að skipting tekna á togurunum sé í réttu hlutfalli, ef gengisbreytingin verður samþ. En þetta hefur komið til tals, og það hefur verið talað um, að það væri vel til athugunar, þegar málið kæmi í n., að gera breyt. þar á, þannig að það mætti betur fara.

Það er svo t.d. með markaðsmöguleika og því um líkt, að þeir, markaðsmöguleikarnir í útlöndum fyrir íslenzkar sjávarafurðir, þeir taka ávallt breytingum. Þeir hafa tekið breytingum, og þeir munu halda áfram að gera það. Ég skal fyllilega kannast við það, að nú sem stendur eru markaðsmöguleikarnir slæmir, það er mjög alvarlegt útlit víða, þar sem við höfum áður selt afurðir okkar, mjög alvarlegt útlit. En þetta útlit og þessir örðugleikar eru allajafna til staðar, þó að engin gengisbreyting ætti sér hér stað. En að því leyti sem þessir örðugleikar stafa af því, að við erum ekki samkeppnisfærir með verð, þá stöndum við vitaskuld miklu betur að vígi, ef þetta frv. yrði samþ., ég segi, að svo miklu leyti sem örðugleikarnir stafa af því, að við erum ekki samkeppnisfærir enn. En um markaðsmöguleikana er það að segja, að þar stöndum við nú gagnvart því sama sem átti sér stað, þegar ófriðurinn 1914–18 tók enda. Þá kom, að vísu ekki strax, en nokkru síðar, ákaflega mikið á markaðinn frá öllum þeim löndum, sem framleiddu matvöru. Þetta ástand hélzt svo, að vísu nokkuð breytt, en var þó alltaf erfitt viðfangs, allt þar til ófriðurinn hófst 1939. Ástæðan er sú, að matvöruframleiðslan í heiminum eykst á friðartímum, og þar af leiðandi er meira framboð á markaði af ýmsum fæðutegundum, en þegar þjóðirnar eru aðþrengdar. Þetta er hlutur, sem, hvernig sem allt veltist, verður að horfast í augu við, og það hefur ekki verið gerð nein tilraun af hálfu þeirra, sem hafa mælt fyrir þessu frv., að draga neina fjöður yfir þetta, né heldur því haldið fram, að slíkir markaðsörðugleikar séu ekki fyrir hendi, þó að gengisfelling væri gerð á íslenzkri krónu.

Þegar svo menn hefja þennan söng, þennan barlómssöng yfir afleiðingum slíkrar gengisbreytingar sem hér er, afleiðingunum af henni fyrir launastéttirnar, sem kallað er, og eftir því sem hér var upplýst við umr., — þá ná þær yfir allmikinn fjölda landsmanna, þá vil ég bara segja það, að ef þrengt væri mjög að kosti launastéttanna með þessu frv. eða þeirra hagsmunir stæðu í mikilli hættu, í hvaða hættu álíta menn þá að þessum hagsmunum sé stofnað, ef framleiðsla landsmanna til sjávar fer í kalda kol? Og hún er á hraðri leið að gera það að óbreyttum aðstæðum. Hvaða atvinnu mundu þá launastéttirnar hafa, þegar til lengdar lætur?

Hæstv. landbrh. sagði réttilega, að þetta mál væri ekki til þess að gera að flokksmáli eða stéttarígsmáli. Ég er þar alveg sömu skoðunar. Málið á að vera hafið yfir allan slíkan ágreining, því að hér er um það að ræða, hvort þingið vill hafa hreinskilni og djörfung til að horfast í augu við það ástand, sem nú er í atvinnumálunum, og vill leggja sitt lið til að forðast atvinnuleysi og örbirgð hjá þjóðinni. Það er ekki tímabært að vera að sendast á um það kveðjum og hnútum, hvort hér sé um skerðingu, kjaraskerðingu eða einhverja skerðingu að ræða. Það, sem hér er um að ræða, er að gera það, sem nauðsynlegt er til að halda atvinnulífinu gangandi, eða láta það ógert og láta atvinnuna sofna út af. Menn horfa á, að það er búið að binda marga af gömlu togurunum. Menn vita, að líklegt er, að hver einasti af nýsköpunartogurunum er rekinn með tapi. Hvað halda menn, að slíkt geti gengið lengi? Ég talaði í síðustu. viku við ýmsa togaraeigendur, sem sögðu, að þeir vissu ekki, hvort þeir kæmu skipinu út þennan túrinn eða hinn. Það er þakkarvert, að við höfum ekki orðið enn þá fyrir meiri áföllum af dýrtíðinni í landinu, en orðið er. Við höfum borið gæfu til þess að halda atvinnulífinu nokkurn veginn við. Þrátt fyrir allan áróður á þær ríkisstj., sem setið hafa að undanförnu, þá hefur þetta þó gengið þannig til, að enn þá höfum við þó getað forðazt atvinnuleysi, að vísu með stórum fórnum. En við getum ekki fórnað hvað eftir annað sömu fjárhæðunum. Það er komið að því, að ríkissjóður getur ekki staðið við ábyrgðarskuldbindingar gagnvart bátaútveginum nema með því að skattpína miklu meira, en hingað til hefur orðið að gera, gjaldendur í þjóðfélaginu. Og þegar svo er komið, þá verður að fara að leita að annarri leið. Sú leið liggur hér fyrir. Hún er ekki allsherjar lækning á öllum meinum, og hún sér ekki við hverju einu sem fyrir getur komið, en hún er að beztu yfirsýn þeirra manna, sem hafa fjallað um þetta mál, og hún er í vitund margra manna, sem sökum fyrri fullyrðinga sinna þora ekki að fylgja henni hér á þingi eða öðrum opinberum vettvangi, nú skásta leiðin út úr ógöngunum. Það er enginn, sem mælir fyrir þessu máli, að tala um, að hér sé verið að flytja eitthvert fagnaðarerindi. Það vita allir, að við erum með neyðarráðstöfun, og neyðarráðstafanirnar geta verið fleiri en ein og fleiri en tvær. En það hafa verið athugaðar þær leiðir, sem menn hafa álitið að helzt kæmu til greina í þessu efni. Niðurstöður af þeim athugunum liggja hér fyrir, og er þetta talin einasta færa leiðin, eins og stendur. Enginn, sem hefur mælt á móti frv., hefur getað afsannað þetta með neinum rökum. Ég held þess vegna, að það sé nauðsyn fyrir Alþingi að horfast í augu við það, að við eigum ekki að velja milli annars en hruns og atvinnuleysis eða þá bjargráða, sem geta leitt okkur á leið út úr ógöngum, þó að eitthvað megi að þeim leiðum finna og að einhverju leyti þurfi að breyta því frv., sem hér liggur fyrir, — þó ekki í neinum meginatriðum.