27.02.1950
Neðri deild: 55. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Landbrh. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Mér þykir nú rétt, þótt hér séu orðnir fáir við og býsna framorðið, að segja fáein orð út af þessari síðustu ræðu hv. 1. þm. S-M. Hann minntist á það, að ekki væri viðeigandi af mér og hæstv. atvmrh. að minnast á, að það væri óviðeigandi að hnýta inn í þetta frv. heitum þrætumálum til að tefja fyrir framgangi þess, en þetta er einmitt það, sem virðist vaka fyrir þessum hv. þm., sem er einn þeirra manna hér á þingi, sem eru einna gjarnastir á það að vilja gera kaupskap um mál. Það er út af fyrir sig rétt, að í þessu frv. eru engan veginn allar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegt er að gera í þessu landi. Því fer ákaflega fjarri, enda þarf enginn að gera ráð fyrir því, þó að lagðar séu fram till. til þýðingarmikillar úrlausnar á vandamálum þjóðfélagsins, að inn í þær séu sett ákvæði um öll þau deilumál, sem fyrir liggja. En sízt af öllu er það viðeigandi að vilja hnýta inn í slíkt frv. málum, sem mest hefur verið deilt um undanfarið, eins og hugmyndin virðist vera hjá hv. 1. þm. S-M., en það mundi tefja mjög afgreiðslu og framgang málsins. Viðvíkjandi orðum hans um afstöðu núverandi ríkisstj. skal ég taka þetta fram: Hann heldur því fram, hv. þm., að ríkisstj. hefði átt að segja af sér, einmitt á þeim tíma, sem hún hafði komið sér saman um till. til úrlausnar á stærsta vandamáli þjóðarinnar og þorði að standa við þær og fylgja þeim eftir og þorir þannig það, sem aðrir hafa ekki þorað, því að svo róttækar úrbótatill. hljóta alltaf að hafa einhverjar óvinsældir í för með sér. En það hefði sannarlega verið að fara aftan að siðunum, ef ríkisstj. hefði þá sagt af sér, eða eins og hv. 1. þm. S-M. orðar það, afhent umboð sitt Alþingi. Nú er það svo, að ríkisstj. hefur alls ekkert umboð frá Alþingi, því að hún er minnihlutastjórn, þ.e.a.s. hún er framkvæmdastjórn en ekki valdstjórn og situr fyrst og fremst til þess að sinna daglegum afgreiðslum og til þess að leggja þær till. fyrir Alþingi, sem hún telur réttastar og sanngjarnastar og hún álítur að ábyrgir menn innan Alþingis muni standa með. En það er nú svo með hv. 1. þm. S-M., að hann vill gera hvert mál að pólitísku braskmáli. Hann sagði áðan, að hér ríkti stjórnleysi, og má lengi deila um, hvenær það er og hvenær ekki. Það má t.d. segja, að um mörg undanfarin ár hafi ríkt hér stjórnleysi, þar sem orðið hefur að makka og semja um hvert einasta vandamál bak við tjöldin vikum og mánuðum saman, og oftast hefur það farið svo, að allir hafa haft ástæðu til þess að vera óánægðir með árangurinn, og svona verður þetta meðan ekki fæst starfhæfur meiri hluti á Alþingi. En nú er ástandið svo á Alþingi, eins og raunar var, er þessi ríkisstj. tók við, að menn hafa um það að velja, hvort þeir vilja heldur framkvæmdastjórn frá stærsta flokknum, sem hefur 28 þús. kjósendur á bak við sig, eða utanþingsstjórn með engan kjósanda á bak við sig. Annars kemur þetta frekar til umr., þegar rædd verður vantrauststill., sem hv. 1. þm. S-M. hefur flutt ásamt formanni síns flokks.