27.02.1950
Neðri deild: 55. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. var enn að reyna að klóra í bakkann út af því, að hæstv. ríkisstj. hefði átt að sitja áfram, og sagði, að þetta hjá mér væri af því, að ég vildi gera öll mál að pólitískum braskmálum. Ég segi nú bara: Heyr á endemi! og ég leyfi mér að draga stórlega í efa, að hæstv. ráðh. tali hér fyrir hönd ríkisstj., en það er nú kannske af því, að engir af hæstv. meðráðh. hans eru hér til að gæta hans, og út af þessu vil ég benda á, að það var ekki ég, sem átti upptökin að því, að þetta mál var í athugun í nær 3 vikur. Það var að tilhlutan hæstv. ríkisstj. sjálfrar, og ef ekkert annað var rétt og heiðarlegt en skella þessu frv. inn í þingið án þess að tryggja því fylgi fyrir fram, eins og mér skildist á hæstv. landbrh., að rétt hefði verið, hvers vegna var það þá ekki gert strax, án þess að biðja um þessa athugun? Ég held, að þetta sé eitthvað farið að skekkjast í höfðinu á hæstv. ráðh., þótt varla sé ástæða til þess, þó að klukkan sé lítið eitt yfir miðnætti. Þá talaði hæstv. ráðh. um þá tilhneigingu mína og annarra vondra manna, að vilja hnýta inn í þetta frv. pólitískum deilumálum. Já, það er nú svo. Hvað er pólitískt deilumál? Hefur t.d. gengislækkun ekki verið talið pólitískt deilumál? Hvað á þetta gaspur og gambur hjá hæstv. ráðh. að þýða? Ef einhverjum dettur eitthvert atriði í hug, sem hann telur nauðsynlegt að gert sé samhliða gengislækkun, þá á það að vera að ófyrirsynju og hnýtt inn í frv. af stráksskap, þetta frv., sem hæstv. ráðherra finnst svo fullkomið, að þar megi engu við bæta, af því að hann sjálfur hefur átt þátt í að finna það upp. Þetta minnir mig á útvarpsfrétt, sem ég heyrði í dag, þar sem sagt var frá ræðu, sem Tito hafði flutt, er hann hélt því fram, að það væri ástæðulaust fyrir þá þar suður í Júgóslavíu að hafa aðra frambjóðendur en fulltrúa stjórnarflokksins, því að í honum væru hvort sem er allir, sem eitthvað vissu og gætu, en hinir væru bara aumingjar og hérvillingar, sem af fólsku sinni vildu bara hnýta einhverri vitleysu inn í gerðir stjórnarflokksins. Þeir ættu því hvergi nærri að koma. Þetta er eins með hæstv. landbrh. Hugsunarhátturinn er svona: Þetta er ekki pólitískt deilumál, af því að ég fann það upp. En ef einhverjum dettur í hug eitthvert nauðsynjamál til viðbótar, þá er það pólitískt deilumál, sem alls ekki kemur málinu við. — Þetta minnir mig á Tito, og skal ég ekki fara lengra út í það.