27.04.1950
Neðri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Emil Jónsson:

Mér þykir rétt að minna á annað mál, sem líkt er ástatt um, þ. e. frv. til l. um öryggisráðstafanir á vinnustöðum. Það var borið fram í upphafi þings og er, að því er ég ætla, 5. eða 6. mál þingsins. Því var vísað til iðnn. í nóvembermánuði s. l. og hefur nú verið þar í 5 mánuði til afgreiðslu. Nú hef ég átt sæti í n., og var það afgr. þaðan fyrir þrem vikum og þannig, að nm. voru sammála um að leggja til, að frv. yrði samþ. En nál. hefur gufað upp. Nm. höfðu ætlað að gera einhverjar breyt. á frv., en þær hafa ekki sézt. En af því að hér er um mikilsvert mál að ræða, þá vil ég eindregið mælast til þess við hæstv. forseta, að hann annaðhvort innti form. n. eftir því, að hann skilaði nál. og þeim brtt. frá einstökum nm., sem þeir kunna að gera, eða hann að öðrum kosti taki málið þegar á dagskrá, — því að vissulega er þetta óhæf afgreiðsla á máli.