10.03.1950
Neðri deild: 63. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er aðeins viðvíkjandi þeirri röksemd, sem hæstv. forsrh. kom með um það, hvort nauðsyn væri á að fresta þessu máli, þ.e.2. umr. þess, fram yfir helgi. Það er ekki spursmálið um skilning á frv., sem fyrir liggur, heldur hitt, að setja nál. svo fram, að meiri hl. hv. þm. geti skilið eitthvað af því, hvað þetta frv. er vitlaust, fái að vita í sem stytztu máli um vitleysurnar, sem í frv. koma fram. Þegar búið er að hrúga saman í mörgum liðum meira og minna vitlausri álitsgerð, sem fylgir þessu frv., þá tekur það nokkurn tíma að safna gögnum og meiri tíma en að setja á eftir saman álitsgerð. Og hæstv. forsrh. veit sjálfur, hversu langan tíma það hefur tekið að setja saman þá álitsgerð, sem hér liggur fyrir með frv., þannig að honum mætti vel vera það ljóst, að ef það verk væri ekki unnið eins vel og skyldi, þá þurfi lengri tíma til þess að setja nauðsynlegar upplýsingar og álitsgerð fram í því formi, að fyrir hv. þm. almennt sé það svo aðgengilegt, að þeir geti sett sig inn í það. Ég held því, að það sé rétt, að gengið sé út frá því, að þetta mál fái venjulega þinglega meðferð. Og mér sýnist, satt að segja ekki, að það hafi verið höfð þau vinnubrögð af hálfu hæstv. ríkisstj. í undirbúningi þessa máls í samstarfi við þingið, a.m.k. hvað okkar flokk snertir, að hún geti ætlazt til þess, að við séum búnir að athuga þetta mál nægilega. Hins vegar hef ég enga löngun til þess að tefja fyrir þessu máli. En til hins hef ég löngun, að e.t.v. væri hægt, þó að í stuttu máli væri, að reyna að gera í nál. hv. þm. sæmilega grein fyrir, hvað í þessu frv. felst, því að ég hygg, að það sé ákaflega fjarri, að þeir menn, sem undirbúið hafa þetta frv. að undirlagi hæstv. ríkisstj., hafi gert sér grein fyrir sjálfum vandamálunum. Og er þá mikið sagt um þá hagfræðinga, sem undirbúið hafa þetta frv. hér. Einn þeirra hagfræðinga kom á fund í fjhn., og þar var komið fram með rök, sem rifu niður alla álitsgerðina, — og hann gat ekki sagt neitt við því.