15.03.1950
Neðri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er aðeins smáaths. hér, sem ég vona, að saki ekki, þó að ég komi fram með nú. Að vísu er ekki búið að útbýta brtt., sem mig langar til að minnast á. En það er eitt atriði í brtt. okkar á þskj. 431, sem við vorum ekki alls kostar sammála um, þessir þrír þm., sem fluttum hana, þ.e.1. undirliður í 3. tölulið brtt., þar sem um er að ræða, að fasteignir skuli metnar samkv. fasteignamati margfölduðu með tölunni 6, eins og við settum það þar. En hv. þm. V-Húnv. hefur nú flutt brtt., eins og hann gerði grein fyrir, á þskj. 434, um, að í staðinn fyrir „tölunni 6“ komi „tölunni 7“. En við hv. þm. Snæf. fluttum aðra brtt. um, að fasteignamatið verði í þessum tilfellum margfaldað með tölunni 5, í stað tölunnar 6, eins og segir í sameiginlegu. brtt. okkar. Ég geri ráð fyrir, að þessari brtt. verði bráðum útbýtt.

Þá vil ég einnig gera grein fyrir því, að við hv. þm. Snæf. höfum í nál. okkar tekið fram, að við mundum flytja brtt. við 7. gr. frv., varðandi laun og hluti og aðrar greiðslur til skipverja á togurum og fiskflutningaskipum, sem miðaðar eru við hundraðshluta af afla. Leggjum við til, að það komi sérstakt ákvæði um það, eins og ég gerði grein fyrir í framsöguræðu minni fyrir nál. Þessari brtt. hefur ekki verið útbýtt enn þá. En hún verður þá væntanlega flutt við 3. umr. og kemur ekki til atkv. við þessa umr. málsins. Ég held hins vegar, eftir því sem mér hefur skilizt, a.m.k. á fulltrúum flokkanna í fjhn., að um þetta ætti ekki að verða mikill ágreiningur innan hv. þd.

Það er svo lítið, sem ég vil segja á þessu stigi málsins, annað en um það, sem hv. 2. þm. Reykv. minntist á um sparifjárbæturnar, að Landsbankinn lagði til, að þær bætur, sem greiða á, á sparifé manna, væru miðaðar við óbreyttar innstæður fram til miðs ársins 1946, og rökstuddi þá till. með ástæðum, sem hv. 2. þm. Reykv. vék einnig að. Um þetta er nokkurt álitamál. Í brtt. okkar á þskj. 431 er miðað við árið 1949. Það er æskilegt, ef hægt væri að taka tillit til þess, sem fram kemur í rökstuðningi Landsbankans viðkomandi því að miða þetta við, að innstæður hafi staðið til miðs ársins 1946. En um mitt árið 1946 hefur orðið töluverð hreyfing á sparifjárinneignum manna, er menn hafa tekið út innstæður sínar til þess að kaupa fyrir stofnlánadeildarbréf sjávarútvegsins, eins og fram hefur komið hér. Hins vegar er það líka svo, að úttekt á sparifjárinnstæðum eftir þennan tíma hefur farið fram í öðrum tilgangi, en til þess að verja þeim til slíkra skuldabréfakaupa, sem örvað hefur verið til af hálfu þess opinbera. Og þessi úttekt hefur verið allt annars eðlis, þar sem innstæðunum hefur verið varið til þess að eyða í ýmsan óþarfa. Það er erfitt að segja um, hvar þarna eigi að setja mörkin, og það getur verið nokkurt álitamál. Og við, sem stöndum að brtt. á þskj. 431, ræddum allmikið um þetta atriði, og hin mismunandi sjónarmið komu þar til greina okkar á milli. Og ég vil segja, að það sé varla til fulls úr því skorið í mínum huga enn þá, hvort tímatakmarkið sé réttara í þessu efni, þó að ég standi að þessari brtt., þar sem miðað er við árið 1949. — Á þessu stigi málsins sé ég ekki ástæðu til að taka fleira fram.