15.03.1950
Neðri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. lítur svo á, að till. hennar séu óverjandi, en það virðist svo, þar sem allmargar fsp. hafa verið bornar fram, og hún fæst ekki til að svara. Það er þó það minnsta, sem hæstv. ríkisstj. ætti að geta gert, að upplýsa, hvað felst í þeim till., sem hún flytur. Fyrst þegar slíkar upplýsingar liggja fyrir, er hægt að dæma um frv., ef ekki er ætlazt til þess, að þm. hlýði í blindni fyrirmælum hæstv. stj. Ég vil þess vegna eindregið óska þess, að hæstv. ríkisstj. gefi þær upplýsingar, sem óskað hefur verið eftir. Það mundi flýta fyrir afgreiðslu málsins, nema svo færi, að þær yrðu, til þess, að fylgjendur stj. snerust gegn frv. Í þessu sambandi vildi ég beina þeirri fsp. til einhvers ráðh., t.d. hæstv. viðskmrh., hvernig verður með þann gengishagnað, sem af þessu leiðir, og hvort ríkisstj. reiknar með því að þurfa að greiða hærra framlag til gjaldeyrissjóðsins en áður, ef frv. verður samþ. Enn fremur hvort það sé rétt, að gjaldeyrissjóðurinn hafi krafizt 800 þús. dollara, sem samkvæmt þessu frv. eigi að greiðast 7–8 kr. hærra fyrir hvern dollara, en það mundi þýða, að ríkissjóður yrði að borga 7–8 millj. kr. meira en annars. Það væri gott að fá þetta upplýst, það er eitt af þeim mörgu atriðum, sem upplýsingar vantar um. Eins er með skuldir erlendis, hvað mikið þær vaxa í íslenzkum kr. við gengislækkunina. Vitanlega er það meiningin að leggja það á fólkið með auknum tollum. Enn fremur vildi ég spyrja, hvort meiningin er, að í gildi verði áfram þau innflutningsleyfagjöld frá 75–100%, sem greidd eru fyrir leyfi vissrar tegundar, t.d. ferðalög, kvikmyndir o.fl. Þegar þau l. voru sett, var sagt, að um lækkun krónunnar væri að ræða og hækkun á verði erlends gjaldeyris. Ef sú gengislækkun helzt áfram og þetta frv. verður samþ., þýðir það 74% hækkun á verði erlends gjaldeyris ofan á 75% og sumpart 100% hækkun, sem áður var ákveðin. Samkvæmt l. nú gildir þetta til 1. apríl, og ef engin ákvæði eru um þetta sett í frv., gildir það því út þennan mánuð. Það væri æskilegt að fá nánari upplýsingar um þetta.

Þá vil ég drepa á það, sem ég hef áður sagt, og tveir aðrir hv. þm. hafa líka komið inn á, að í viðbót við það að vera árás á bátaútveginn er frv. einnig — það kemur betur og betur í ljós — hættulegt fyrir stóran hluta togaraútgerðarinnar. Ég vil vekja eftirtekt þeirra þm., sem hugsa um hagsmuni fólksins úti á landi, á ákvæðum 11. gr. frv. Ég vil vekja eftirtekt þeirra á því, að sá skattur, sem leggja á, á togarana samkvæmt þessum ákvæðum, getur orðið frá 300–500 þús. kr. á togara á ári. Hafi togarinn kostað 3 millj. kr., nemur því þessi skattur 10% af verðmæti hans og getur jafnvel komizt upp í rúmlega 16%. Þennan skatt á að leggja á bæjarfélögin og einstaklinga úti á landi, sem ekki geta komið sér undan honum, eins og auðmennirnir í Reykjavík, með því að skipta sér upp. Þegar verið var að fá togarana út á land, kostaði það harða baráttu að fá lán gegn 21/2% vöxtum í stað 7–8%, en ef þessar álögur verða samþ., nema þær 10–16% á ári af kaupverðinu. Með öðrum orðum, með þessu er að meira eða minna leyti verið að eyðileggja þá viðleitni að beina fjármagninu út á landsbyggðina og dreifa atvinnutækjunum. Það er beinlínis verið að reyna að eyðileggja togaraútgerðina úti á landi. Framsfl., sem þykist berjast fyrir því, að fjármagninu sé veitt út á land, ætlar nú um leið og hann tekur sæti í stj. að níðast á bæjarfélögunum úti á landi á þennan hátt. Og þetta á að gera þegar gjaldþrot vofir yfir flestum þessum bæjarfélögum. Þau sex bæjarfélög, sem reka einn eða tvo togara, eiga að greiða 300–600 þús. kr. eða 600 þús. til 1 millj. kr. í skatt á ári, án þess að tillit sé tekið til þess, hvernig gengur. Með þessu móti á að draga fjármagnið til Reykjavíkur. Þegar ákveðið var, að 10 nýsköpunartogarar skyldu fara út á land, voru vissir menn, sem sögðu: „Þið skuluð sjá til, togararnir munu koma hingað til Reykjavikur aftur.“ Með 11. gr. ætlar auðvaldið að eyðileggja bæjarútgerðina úti á landi. Bæjarfélögin urðu að fá 85–100% lán til togarakaupanna, því að þau áttu ekkert, og berjast nú í bökkum. Þar var ekki um auðfélög að ræða með stóra nýbyggingarsjóði, og þess vegna standa þau varnarlaus. Sjálfstfl. og Framsfl. taka nú höndum saman, til þess að beina fjármagninu aftur til Reykjavíkur og eyðileggja nýsköpunarstarfið. Öllum þm., sem kunnugir eru úti á landi, hlýtur að vera þetta ljóst. Togararnir hafa líka meira að segja verið auglýstir til sölu í Lögbirtingi. Þess vegna á að fella 11. gr., hún er að öllu leyti ranglát. — Það er hart, að það skuli eiga að leggja 12–16 millj. kr. skatt á nýsköpunartogarana á ári, samtímis því sem eignastéttinni er hlíft. Það er rétt að bera saman álögurnar á nýsköpunartogara úti á landi og fjölskylduhlutafélag hér í Reykjavík. Ef um fimm manna fjölskyldu er að ræða, mann, konu og þrjú börn, er henni gert leyfilegt að skipta eigninni á milli sín, svo að fjölskyldan verður fimm skattaðilar. Hver þeirra um sig fær að hafa 300 þús. kr. skattfrjálsar og fjölskyldan því alls 11/2 millj. kr. skattfrjálsar. Komist hins vegar eignin upp í 21/2 millj. kr. alls, þá nemur skatturinn 150 þús. kr. á ári. Með öðrum orðum, þó að eignir einnar fjölskyldu nemi 11/2 millj. kr., þá á hún engu að fórna. En á nýsköpunartogara, t.d. Ísafjarðar eða Seyðisfjarðar, er lagður 300 þús. kr. skattur á ári, þótt þeir eigi ekki neitt. Og þetta er kallað að bjarga útgerðinni. — Þá er það auðséð, að hlífa á öllum ríkustu fyrirtækjum landsins. Og Landsbankann má ekki skattleggja, þótt eignir hans nemi 100 millj. kr. og hann græði 70 millj. kr. á ári. Eimskipafélagið, eitt ríkasta fyrirtæki á landinu, á að verða algerlega skattfrjálst; og auðmannafjölskyldurnar, sem skipta sér haganlega í hlutafélög, eiga að fá skattfrelsi fyrir eignir, sem nema 11/2 millj. Það á að hlífa því, sem ríkast er, og níðast á því, sem fátækast er. Okri menn eða fyrirtæki á vöxtum eða taki ofsagróða af verzlun, skal þeim hlíft. — Fari þeir út í framleiðslu eða brjótist í útgerð af litlum efnum, eins og mörg bæjarfélögin, þá skal þeim hegnt. Ég leyfi mér að vænta þess, að hæstv. ríkisstj. gefi deildinni upplýsingar um það, hvað hún gengur út frá, að auðmannastéttirnar samkvæmt 12. gr. frv. gefi miklar tekjur í ríkissjóð. — Ég skal minna á það í þessu sambandi, að það hafa áður verið samþykkt hér falleg lög um fórnir eignastéttarinnar, þar sem var II. kafli laganna frá 1947, um dýrtíðarráðstafanir, þar sem stighækkandi eignaraukaskatt átti að leggja á eign umfram 100 þús. kr., og allt upp í 30% á eign, sem færi yfir eina milljón króna. Þá var rænt með III. kafla sömu laga um 50 milljónum frá alþýðustéttum landsins, og þetta átti að vera fórn auðmannastéttarinnar, en það hefur bara ekki verið haft fyrir að rukka þetta inn enn þá, og núna á að gefa auðmannastéttinni þetta eftir — og leggja á hana nýjar fórnir. En hvað eru þær miklar? Fást hlutaðeigandi aðilar alls ekki til að gefa það upp? Eru þær máske ekki meiri en svo, að ekki þyki rétt að flagga þar mikið með ákveðnum tölum? Er það máske eins og mann gæti grunað, að höfuðatriðið í samkomulagi Framsóknar- og Sjálfstæðisfl. hafi verið það, að ríkustu fyrirtækin skuli sleppa við skattinn, og Framsókn hafi fengið því framgengt á hinn bóginn, að eitthvað af því fé, sem ríkissjóður fær samkvæmt þessu frv., færi þá til sveitanna? — Ef þetta skyldi nú vera inntakið í samkomulaginu, þá væri a.m.k. viðkunnanlegra að fá það upplýst, og eins hitt, hvað mikið fé er búizt við að komi inn samkvæmt 12. gr. Það vantar ekki, að þar sé gert ráð fyrir miklum útreikningum. En halda menn nú, að það borgi sig að vera nokkuð að reikna? Er ekki betra að segja bara hreint og beint, að S.Í.S., kaupfélögin og samvinnufélögin skuli vera skattfrjáls, heldur en að reikna og reikna elns og hér er gert ráð fyrir.

Í sambandi við ákvæði þessarar gr. um verðmæti skipanna vil ég ítreka, hve óréttmætt það er að miða það við vátryggingarverðið. Ef um vélar er að ræða, sem fara í verksmiðjur á landi, þá er skattlagt eftir bókfærðu verði vélanna; skatturinn fer eftir því, hvernig vélarnar eru uppfærðar í bókhaldi viðkomandi fyrirtækis, og með það sleppa menn. En ef vélar eru keyptar í skip, þá á að borga skatt af þeim eftir vátryggingarverðinu, en það ætti að vera lögskylda, að vátryggingin væri í pundum eða dollurum, svo að stöðugt mætti endurnýja flotann, ef illa fer. Hér er um að ræða beina árás á sjávarútveginn, miðað við það, sem gildir um fyrirtæki á landi — t.d. vörulager, eftir því sem ég veit bezt, og er þetta mjög óréttmætt ákvæði.

Þá vildi ég fara nokkrum orðum um brtt. þær, sem ég hef gert við þetta frv., og þá fyrst brtt. við 11. gr. á þskj. 436. Þar er um að ræða smábreytingu á lögunum um fjárhagsráð. Þarf ég ekki að fara um hana mörgum orðum. Hún er hv. deildarmönnum vel kunn, þar sem hún er tekin orðrétt upp úr frv. hv. þm. V-Húnv., er hann flutti í fyrra. E.t.v. hefur það aðeins gleymzt hjá Framsfl. að koma nokkuð inn á verzlunarmálin að þessu sinni, en honum var mikil alvara með þetta mál í fyrra, og þetta var þá eitt af því, sem olli stjórnarslitum. En ég þykist mega vænta fylgis Framsfl. við þessa till. Það má ekki minna vera en samvinnufélögin fái þennan snefil af verzlunarfrelsi, sem í þessari till. felst, úr því að rýmkun á verzlunarhöftunum á að vera einn aðaltilgangur þessa frv.

Þá ætla ég að leyfa mér að flytja brtt. við brtt. meiri hl. n. á þskj. 431, og er hún við tillögulið um breyt. á 12. gr., um það, hvernig skatturinn skuli skiptast. Þar er lagt til, að skatturinn skiptist í tvennt, og fari annar helmingurinn til greiðslu á lausaskuldum ríkissjóðs og hinn helmingurinn að jöfnu til byggingarsjóðs verkamanna og byggingarsjóðs í sveitum. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa brtt. mína um þetta. Hún er við 3. tölulið. Síðasta málsgrein orðist svo:

„Að öðru leyti skal skattinum skipt í þrjá jafna hluta. Skal einn hlutinn renna til byggingarsjóðs samkvæmt lögum nr. 35/1946, annar renni til byggingarsjóðs samkv. 1. kafla laga nr. 44/1946, og þriðji skal renna til ríkissjóðs og varið til greiðslu á framlögum ríkissjóðs til íbúðarbygginga yfir fólk, sem býr í heilsuspillandi íbúðum, samkvæmt 3. kafla laga nr. 44/1946.“

Þetta þýðir með öðrum orðum, að 1/3 fer í hvern stað og 1/3 fer til að styrkja bæina til þess að byggja yfir fólk, sem þar býr í heilsuspillandi íbúðum. Með þessu móti hygg ég að fé því, er hér ræðir um, sé betur varið. Með því er að vísu sleppt þeim pósti, sem á að fara til að greiða skuld ríkisins við Landsbankann, en honum ætti líka að vera óhætt að sleppa, og þar sem tilgangurinn á að vera sá, að tryggja íbúðarhúsabyggingar í landinu, þá vil ég leyfa mér að vænta, að samkomulag verði um að haga þessu eins og gert er ráð fyrir.

Þá hef ég enn lagt hér fram brtt., sem ég gekk að vísu út frá, að ekki kæmi til fyrr en við 3. umr., og mun ég taka hana aftur til 3., en hún hnígur annars að því að skapa einhvern ofurlitinn snefil af verzlunarfrelsi hér á Íslandi, og virðist það ekki vera út í hött, úr því það á að vera einn höfuðtilgangur þessa frv., eins og mjög er látið í veðri vaka.

Þá langaði mig til að beina nokkrum orðum til hv. 3. landsk. þm., en hann er nú líklega farinn burt aftur. En ég vildi þó a.m.k. skjóta því inn, að þegar hann sagði, að 100 millj. kr. hefðu runnið til verzlunarstéttarinnar með álösunarverðu móti, þá hefði hann mátt minnast þess, að það var hans samflokksmaður, sem þá fór með embætti viðskiptamálaráðherra. Annars var gott að fá þetta staðfest, þótt seint sé. — Um orsök erfiðleikanna get ég hins vegar ekki verið sammála hagfræðingunum, fremur en margt annað, en það yrði of langt mál að fara út i. Höfuðatriðið er, að það er reynt að fara með öllu móti fram hjá markaðsmálunum, en einblína sífellt á gengismálið sem leið út úr ógöngunum; en það er fullkomnari tækni, betri organisation og öflun nýrra markaða, sem mestu mundi valda til bóta.

Þá vil ég leyfa mér að leiðrétta það, sem hv. þm. sagði um það, að verkalýðsráðstefnan, sem nú situr, hefði gert samþykkt í anda þeirrar brtt., sem hann flytur um vísitöluákvæði frv. Ráðstefnan hefur enga slíka samþykkt gert. Hún samþ. þvert á móti að krefjast þess, að uppbót á laun yrði alveg í samræmi við dýrtíðina, og er það samkvæmt mínum höfuðtillögum, þar sem ég legg til, að 4.–8. gr. frv. séu felldar niður og gamla vísitalan sé látin gilda, — það er fyrsta brtt. mín á þskj. 423. En samþykkt verkalýðsráðstefnunnar um þetta efni, sem nú hefur verið birt í Alþýðublaðinu, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „ . . . felur ráðstefnan sambandsstjórn að beita sér fyrir því . . . að dýrtíðarvísitalan verði ákveðin mánaðarlega í réttu hlutfalli við dýrtíðarvísitöluna 100 1939, og að fullar launauppbætur verði greiddar mánaðarlega samkvæmt réttri vísitölu án tillits til grunnkaupsbreytinga.“

Skýr samþykkt ráðstefnunnar stendur þannig á bak við mína tillögu. Vildi ég taka þetta fram, svo að það kæmi greinilega í ljós og Alþingi þyrfti ekki að efast um þetta. — Hv. þm. Ísaf. tók það greinilega fram áðan, að verkalýðurinn mundi ekki sætta sig við þessar ráðstafanir, sem nú ætti að gera, þar sem þær væru í senn ranglátar og ópraktískar gagnvart útveginum, sem þær ættu þó sérstaklega að styðja. Gagnvart launþegunum væru þær svo harðvítugar, að með þeim væri beinlínis verið að stofna til vandræða í okkar landi, ef þær verða samþ. óbreyttar. — Ég held ég hafi þá mælt fyrir mínum brtt. og læt að sinni máli mínu lokið.