15.03.1950
Neðri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. bar fram nokkrar fyrirspurnir til mín, sem ég tel rétt að svara. Hann spurði varðandi alþjóðagjaldeyrissjóðinn, hvort ekki mundi koma þar til útgjalda fyrir ríkið í sambandi við gengislækkunina. Það er vitaskuld rétt, að sjóðurinn verður að færast í samræmi við gengisbreytinguna. Landsbankinn færir þennan sjóð í íslenzkum krónum. Enn hefur ekki komið til að nota hann neitt, og hefur verið litið á hann af okkur að mestu leyti sem formsatriði. — Þá spurði hv. þm., hvort erlendar skuldir mundu ekki hækka, og því er til að svara, að erlendar skuldir ríkisins hækka vitaskuld að sama skapi og gengið breytist þannig. — Enn fremur spurði hann, hvort leyfisgjöldin yrðu ekki afnumin. Þessi leyfisgjöld, sem gilda til 1. apríl, verða ekki afnumin með þessu frv. Sú ákvörðun, hvort þau beri að afnema, verður tekin eftir að þetta frv. hefur verið samþykkt. Þá spurði hv. þm. þess í fjórða lagi, hvaða fórnir væri hér um að ræða í sambandi við skattinn. Getur hv. þm. sjálfur reiknað það út, hve mikið er tekið af eignum hvers einstaklings, en heildarupphæðina fær hann að vita, er skatturinn hefur verið reiknaður út.