15.03.1950
Neðri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Fyrr á þessum fundi lét ég falla fáein orð út af skiptingu á því fé, sem fengist vegna ákvæðisins um eignarskattinn skv. frv. þessu, ef að l. verður, og rynni til byggingarsjóða, og eins skiptingu á gengishagnaðarsjóði Landsbankans. Hér hefur mér þótt gæta nokkurs misræmis á milli kaupstaðanna annars vegar og sveita hins vegar. Ég hef talið rétt, að þetta væri leiðrétt, og leyfi mér að leggja hér fram tvær skriflegar brtt., með leyfi hæstv. forseta. Þessar till. eru báðar brtt. við brtt. á þskj. 431 og eru svo hljóðandi:

„1. Við 1. brtt.

a. Í stað „Einn þriðji“ í tölulið 1 komi: Helmingur.

b. Í stað „Einn þriðji“ í tölul. 2 komi: Einn fjórði.

c. Í stað „Einn þriðji“ í tölul. 3 komi: Einn fjórði.

d. Í stað „4%“ í næstsíðustu málsgr. komi: 2%.

2. Við 3. brtt. Í stað „til helminga ... lögum nr. 44/1946“ í síðustu málsgr. komi: á milli byggingarsjóðs samkv. lögum nr. 35/1946 og byggingarsjóðs samkv. lögum nr. 44/1946 í sama hlutfalli og eignarskatturinn nemur á þeim svæðum, er lögin um byggingarsjóðina ná til.“

Mér finnst rétt, að því fé, sem til fellur á þeim svæðum, sem lögin um verkamannabústaði ná til, verði skipt í sama hlutfalli og eignarskatturinn nemur á þeim svæðum. Þetta þarf ekki að skýra nánar, því að þessu vék ég ýtarlega í fyrri ræðu minni, en leyfi mér að afhenda hæstv. forseta þessar skriflegu brtt. mínar.