17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég hefði viljað óska, að einhver hæstv. ráðh. hefði verið viðstaddur þessa umr. Mér finnst satt að segja, að þessar umr. hafi að mörgu, leyti farið þannig fram, að það sé varla sæmandi hæstv. ríkisstj. að láta hvorki sjá sig né heyra í þeim umr., sem hér hafa átt sér stað. Ég hef ekki orðið var við það, að einn eða neinn af andmælendum frv. hafi gert neina tilraun til þess að draga umr. úr hófi fram, heldur miklu frekar hefur afgreiðsla málsins tafizt við að bíða eftir till. frá stjórnarflokkunum og hæstv. ríkisstj. Nokkrum fyrirspurnum hefur verið beint til ríkisstj., og hún hefur verið beðin um ýmsar upplýsingar, en hefur alveg vikizt undan að svara. Ég vil því fara fram á það við hæstv. forseta, að hann hlutist til um, að einhver hæstv. ráðh. yrði viðstaddur. Hefði ég einkum viljað tala við hæstv. sjútvmrh. Vildi ég því óska þess, að hæstv. forseti geti haft áhrif á, að hér yrði einhver forsvarsmaður hæstv. stj. viðstaddur. Ég hefði þurft að fá nokkrar upplýsingar í sambandi við till., sem ég ber fram, og kann illa við, ef enginn er hér, sem er líklegur til svara.