17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ræðu hæstv. viðskmrh., og hefði ég viljað, að hæstv. ráðh. heyrði mál mitt. — Ég vil þakka hæstv. viðskmrh. þær upplýsingar, sem hann gaf varðandi skattamálin. Mér skilst, að af þeim megi draga þá ályktun, að hvorki hæstv. ríkisstj. né aðrir hafi haft aðstöðu til þess að gera sér grein fyrir, hvaða munur er á þessum skattatill. og þeim ákvæðum, sem eru í l. um eignaraukaskatt. Það er því aðeins ágizkun, að þessi skattur muni gefa meira fé, en eignaraukaskatturinn. Hæstv. ráðh. upplýsti, að búið væri að reikna út tekjur af helming eignaaukans í Reykjavík, og upplýsti, að ekkert hefði komið frá útgerðinni. Það kemur ekki á óvart, því að vitað er, að það er ekki útgerðin, sem fyrst og fremst hefur hagnazt á veltuárum stríðsins, heldur fyrirtæki, sem ekki hafa stundað útgerð. Ég á þar við mörg afætufyrirtæki, sem étið hafa upp stríðsgróðann, með þeim afleiðingum, að aðalatvinnuvegurinn, sjávarútvegurinn, er á flæðiskeri staddur. Ég fann að því, að hæstv. stj. hefur ekki tekið skuldamál útgerðarinnar til úrlausnar í frv. Ég efa ekki vilja hæstv. ráðh. til að greiða sjóveðsskuldirnar frá sumrinu 1949, eins og lofað var, hitt vissi ég einnig, að getan var lítil, og er því undrandi yfir því, að ekki er reynt að fá fé til þessa, þar sem hæstv. ráðh. hefur lýst yfir því, að hann hafi áhuga á, að þetta verði greitt. Í stað þess leggur stj. til, að gengishagnaðinum verði varið til annarra hluta, útgerðinni óviðkomandi. Alls engin tilraun er gerð til þess að leysa skuldamál útgerðarinnar, heldur eru loforð um lausn þeirra mála svikin. — Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en víkja nokkuð að öðru atriði. Í l. frá 1947 og 1949 er hlutatryggingasjóði ætlaður helmingur af eignaraukaskattinum, lágmark 5 millj. kr. Nú leggur stj. til, að hámarkið verði 5 millj. kr. Ef hæstv. viðskmrh. vill slá upp í l. nr. 128/1947, 2. gr., og l. nr. 48/1949, 8. gr., mun hann sjá, að í báðum þessum l. er greinilega fram tekið, að hlutatryggingasjóður eigi að fá helming eignaraukaskattsins. Hæstv. viðskmrh. sagði, að hann áliti, að ekki væri gengið á rétt hlutatryggingasjóðsins með þessum till. En þá verður hann að færa líkur fyrir því, að eignaraukaskatturinn hefði ekki orðið meiri en 10 millj. kr. Í öðru lagi verður hann að sýna fram á, að hlutatryggingasjóður fái þetta jafnsnemma og fé það, sem honum var ætlað af eignaraukaskattinum, en það er mjög vafasamt. Mín till. er aðeins um tilfærslu og breytir engu um úthlutunina. Ég hygg, að frv. sé nógu óvinsælt meðal þjóðarinnar, svo að ástæða sé til þess fyrir hæstv. stj. að sníða af því ágalla, sem ekki fara í bága við stefnu frv. Með það sjónarmið fyrir augum vildi ég beina því til stj., að hún athugaði, hvort ekki væri rétt að gera nýja samninga milli Framsfl. og Sjálfstfl. og hvort Framsfl. fæst ekki til að fallast á brtt. mína.