17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm.. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Hæstv. viðskmrh. sagði, að verið væri að reyna að gera þetta frv. tortryggilegt. Með frv., eins og það er nú, er kjararýrnun hjá launþegum 18–19%. Ef tekjur launþega eru áætlaðar 600 millj. kr. á ári, nemur því kjararýrnunin um 100 millj. kr. á ári, og samsvarar það þeirri tilfærslu, sem hagfræðingarnir reikna með. Hverju fórnar svo auðstéttin samkvæmt 12. gr.? Um það eru ekki upplýsingar fyrir hendi, en í hæsta lagi má ætla að skatturinn nemi 50 –60 millj. kr., og ég geri ekki ráð fyrir, að það verði meira en 40 millj. kr. Þessar 40 millj. á svo auðstéttin að borga á 20 árum. Auðmannastéttin á því að borga 2 millj. kr. á ári, en frá launþegum eru teknar 100 millj. kr. á ári, og þó er það kunnugt, að bara samkvæmt skattskýrslum eiga 200 fjölskyldur 600–700 millj. kr. í skuldlausum eignum. Það er því augljóst mál, að frv. er vægðarlaus árás á launþega. Hv. 3. landsk. hefur reiknað út, og því hefur ekki verið mótmælt, að sá hagnaður, sem runnið hefur til verzlunar og iðnaðar, nemi 100 millj. kr. Við þeim gróða er ekki snert, en af eignum eru teknar 2 millj. kr. Þannig er hlutfallið milli fórna auðmannastéttarinnar og launastéttanna. Svo er sagt, að þetta sé gert fyrir fiskimenn, svo að þeir geti haft vinnu.

En það er verið að lækka fiskverðið. Á þskj. 445 flyt ég brtt. um að heimila ríkisstj. að ákveða lágmarksverð á fiski til hraðfrystihúsa og til söltunar, lægst 93 aura fyrir kíló, og ábyrgjast bátaútveginum greiðslu þess verðs, ef þörf krefur. Þetta er í samræmi við álit hagfræðinganna á bls. 42. En það kemur í ljós, að stj. trúir því ekki, að útvegsmenn muni fá þetta verð, og þess vegna er hætt við, að till. mín verði felld. Það hefur líka komið í ljós, að eigendur hraðfrystihúsanna halda, að ekki verði einu sinni hægt að borga 75 aura fyrir kílóið. Það eru því teknar 100 millj. kr. af launþegum, til þess að níðast á þeim, sem framleiða fiskinn, og lækka fiskverðið. Hæstv. viðskmrh. sagði, að þessar till. ættu að bjarga útgerðinni út úr feni ríkisstyrkjanna. En hingað til hefur útgerðin gengið með styrkjunum, og hæstv. viðskmrh. hefur ekki sýnt fram á, að svo verði, ef sú leið, sem frv. gerir ráð fyrir, verður farin. Það er eftir að sjá, hvort útgerðin ekki stöðvast, ef þessi leið er farin. Mér er nær að halda það. — Það hefur einnig komið í ljós, að því fer víðs fjarri, að lina eigi á höftunum. Í gær flutti ég till. þess efnis, að þeim, sem ekki eiga íbúð, skyldi heimilt án fjárfestingarleyfis að byggja íbúðarhús fyrir sjálfa sig, ef íbúðin væri ekki stærri, en ákveðið er um verkamannabústaði. Þessi till. mín var felld. Það er vitanlegt, að margir menn eru atvinnulausir úti á landi, en þessir menn mega ekki byggja yfir sig, þó að þeir séu atvinnulausir, og þó að þeir gætu fengið efni, ef þeir fá ekki fjárfestingarleyfi. Skrifstofuvaldið hér í Reykjavík á að fá að banna mönnum að bjarga sér, og þetta bann setja þeir, sem mest tala um hagsmuni hinna dreifðu byggða. Hálaunuð n. í Reykjavík á að hafa vald til þess að banna atvinnulausum mönnum að byggja yfir sig, þótt þeir annars hefðu tækifæri til þess. Ég þekki dæmi utan af landi um menn, sem hafa verið hindraðir í tvö til þrjú ár að byggja yfir sig Og svo er verið að tala um frjálsa verzlun. Á meðan Danir réðu á Íslandi og einokuðu hér alla verzlun, var Íslendingum að minnsta kosti ekki bannað að byggja hús yfir sig, en nú taka Sjálfstfl. og Framsfl. höndum saman, til þess að hindra þetta. — Ég skal ekki frekar ræða 12. gr., en hún er tilkomin á þann hátt, að ríkustu félögin í Reykjavík, eins og Eimskipafélag Íslands og S.Í.S., hafa samið um að vera skattfrjáls. Og þeir, sem mest hafa misnotað hlutafélagslöggjöfina með stofnun fjölskylduhlutafélaga, sleppa billegast, en þeir verða harðast úti, sem ekki hafa breytt sér í hlutafélög til þess að svíkjast undan skatti. Ákvæði 12. gr. fela því ekki í sér neinar fórnir eða uppgjör, frekar en eignakönnunarsvindlið. Frv. er hrein kúgunarlög gegn launþegum og hjálpar ekki sjávarútveginum.

Svo vildi ég segja örfá orð um brtt. mína við 2. gr., um að síðari málsgr. falli niður. Samkvæmt því ákvæði, sem hér er um að ræða, á að nota gengislækkanir til þess að svipta launþegastéttirnar þeim árangri, sem þær kunna að ná í baráttu sinni fyrir bættum kjörum. Þetta nær ekki nokkurri átt. Það er óframkvæmanlegt fyrir bankann og ógnun gegn launastéttunum. Svo ber ég fram brtt. við 5. gr., um að Hagstofa Íslands skuli einnig reikna vísitölu, sem sýni þá breyt., er orðið hefur á þjóðartekjunum frá því árið 1939. Þá er hægt að sjá, hvaða hlutfall er á milli kaupgjalds og þjóðartekna. Varðandi 7. gr. legg ég til í till. mínum á þskj. 445, að síðasta málsgr. falli niður. Annars flyt ég á öðru þskj. brtt. við þessa gr. Við 10. gr. hef ég gert þá brtt., að í stað 45% komi 25%, svo að verðtollurinn hækki ekki, heldur lækki. Með þessu er stefnt að því að draga úr dýrtíðinni í stað þess að auka hana. Varðandi 11. gr. legg ég til, að framleiðslugjald sé lagt á ísfisk nýju togaranna, 25% af aflaverðmæti því, sem er umfram £ 8.500 brúttó af meðalsölu ársins, eftir að útflutningsgjald, tollur og löndunar- og sölukostnaður er frá dregið. Þá er till. um, að á eftir 11. gr. komi ný grein á þá leið, að ríkisstj. heimilist að ákveða lágmarksverð á fiski til hraðfrystihúsa og söltunar, 93 aura á kíló, og ábyrgjast bátaútveginum greiðslu þessa, ef þörf krefur. — Enn fremur er till. um það, að vextir bankanna af lánum til sjávarútvegsins, að meðtöldum hraðfrystihúsunum, skuli ekki vera hærri en 4%.

Þá er að síðustu brtt. á þskj. 439, sem ég tók aftur í gær til 3. umr. Hún er nokkuð annars eðlis, en hinar. Þar er farið fram á það, að úr því að nú á að taka upp annað princip varðandi ábyrgð ríkisins gagnvart sölu íslenzkra afurða, þá verði þó farið ofurlítið inn á það að gefa verzlunina með þær vörur frjálsar. — Með því skipulagi, sem verið hefur undanfarið, hefur verið stefnt að því að skapa visst öryggi fyrir menn í atvinnugreinunum, en frelsi á hinn bóginn takmarkað. Nú er talað um, að menn vilji fórna þessu öryggi gegn aneira frelsi, og einn höfuðtilgangur með þessu frv. á að vera frjáls verzlun, að því er látið er í veðri vaka. — Um það þarf nú vitaskuld ekki neinum blöðum að fletta, að það versta af öllu fyrirkomulagi, sem hugsanlegt er, er það, þar sem hvorki er öryggi né frelsi. Nú er það svo, að með afnámi fiskábyrgðarlaganna er kippt burtu öryggi því, sem sjávarútvegurinn hefur í krafti þeirra notíð, og ættu þá þeir framleiðendur að njóta nokkurs frelsis í staðinn. Sú till. mín, sem hér um ræðir, er árangur af allmiklum heilabrotum um þetta efni, og þykist ég hafa hugsað þetta mál talsvert gaumgæfilega. Ég legg til, að numin verði úr gildi lögin frá 12. febr. 1940, um sölu og útflutning á vörum, en í þeirra stað séu sett ákvæði um það, að frjálst sé að selja vöru úr landi, með þeim takmörkunum einum, sem fyrir mælir í öðrum lögum og viðbótarákvæðum í minni tillgr. á þá lund, að ef ríkisstj. hefur gert sölusamninga við ákveðin ríki, þá geti hún sett bann við sölu þangað á þeim vörutegundum, er hún hefur sjálf samið um sölu á, eða sett um það þau skilyrði, er henni sýnist. Hefur hún þannig fullt „kontrol“ með útflutningnum. — Hins vegar, ef útflytjandi selur ekki vöru sina gegn frjálsum gjaldeyri né upp í viðskiptasamninga almennt, þá sé honum heimilt að kaupa í skiptum vörur til innflutnings, eftir nánari ákvæðum; en þannig er nú ástatt í mörgum löndum, að ekki er þægilegt að selja þangað nema með því móti að taka vörur í staðinn. Fjárhagsráði er þá gert skylt að veita innflutningsleyfi fyrir þessum vörum, og verðleggur verðlagsstjóri þær eftir venjulegum reglum. Sá kostur, sem í þessu felst, er sá, að félögum og einstaklingum er gefið frelsi til áð reyna að afla markaða og selja þá vöru, sem ríkinu hefur ekki tekizt að selja, og sú vara, sem þannig seldist, yrði hrein viðbót við framleiðslu þá í landinu, sem ella yrði flutt út. T.d. er nú talað um, að sala muni stöðvast á hraðfrysta fiskinum við 15 þús. tonn, og þá þýðir þessi gr., að eigendur hraðfrystihúsanna gætu nú reynt að selja eitthvað af þeim fiski, sem þau liggja þá með, hvar sem þeir gætu aflað markaða fyrir hann, og aflað þannig nýrra tekna til þjóðarbúsins. Nú er hugsanlegt, að þeir, sem vöruna seldu, gætu keypt á móti óþarfavörur, en við þessu er séð með því að heimila ríkisstj. að banna innflutning á slíkum vörum, t.d. lúxusbílum. Hún gæfi út lista yfir slíkar bannvörur í byrjun hvers árs, er gilti allt árið, þannig að sá aðili, sem leitar fyrir sér um innflutning á vörum til landsins, hefur vissu fyrir því, hvaða vörur má flytja þannig inn og hverjar ekki. Þetta þýðir sem sagt, að öllum Íslendingum er heimílt að selja sínar vörur út úr landinu og kaupa ákveðnar vörur inn í staðinn. Og verði menn sviptir því öryggi, sem ábyrgðarlögin sköpuðu, verður þetta að koma í staðinn. Eitt af tvennu verður ríkisstj. að gera: að selja allt fyrir útflytjendurna og standa ábyrg fyrir þeirri sölu, eða þá að gefa þeim frelsi til að selja sína vöru sjálfir. Ég fer þó ekki einu sinni svo langt með till. minni, en með henni er þó a.m.k. stigið ákveðið spor í þá átt. En ríkisstj. getur ekki bæði kippt örygginu undan sölu afurðanna og svipt menn jafnframt frelsi til að skapa sér það öryggi sjálfir. Og verði þetta gert, er verið að koma á einokun allrar framleiðslu landsins undir einni lítilli skrifstofu- og verzlunarklíku hér í Rvík. Ef menn meina nokkuð með talinu um frjálsa verzlun, þá geta menn ekki haft á móti því að gera í því efni þá litlu glufu, sem þessi till. gerir ráð fyrir. Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að till. verði tekin til alvarlegrar athugunar, ekki sízt þar sem svo er ástatt, að ríkisstj. getur aðeins selt helminginn af þeim fiski, sem framleiddur er í landinu.