17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 3. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Í framhaldi af því, sem ég sagði í ræðu minni í eftirmiðdag um eina af brtt. mínum á þskj. 444, 6. till. þar, sem varðar fyrirkomulag á bótagreiðslum til sparifjáreigenda, vildi ég aðeins bæta við nokkrum orðum. Mér var þá ekki kunnugt um, að hv. fjhn. hafði borizt bréf frá Landsbankanum varðandi þessar uppbótagreiðslur, en ég hygg, að það sé full ástæða til þess að kynna hv. þdm. það sjónarmið, sem þar kemur fram, og með leyfi hæstv. forseta vildi ég leyfa mér að lesa upp þetta bréf, sem er svo hljóðandi:

„Reykjavík, 16. marz 1950.

Í framhaldi af bréfi voru 1. þ. m. til hv. fjárhagsnefndar Nd. Alþingis, þar sem meðal annars voru bornar fram og rökstuddar till. til breytinga á fyrirkomulagi og framkvæmd sparifjárbótanna skv. 3. gr. frv. um gengisskráningu o.fl., leyfum vér oss að taka þetta fram:

Vér hörmum það mjög, að fjárhagsnefnd Nd. hefur ekki tekið neitt tillit til tillagna vorra um breytingar á 3. gr. frv., sem voru fyrst og fremst miðaðar við það að gera framkvæmd bótagreiðslnanna viðráðanlega og ekki of kostnaðarsama.

Sérstök áherzla var á það lögð af vorri hálfu, að komizt yrði hjá því, að hver innistæðueigandi yrði að senda frá sér umsókn um bætur, og var í því sambandi vísað til hinna miklu framkvæmdarörðugleika og óhóflegs kostnaðar, sem leiða mundi af slíkri tilhögun bótagreiðslnanna. Skv. tillögu fjárhagsnefndar Nd., sem nú hefur verið samþ. við 2. umr. um frv. í deildinni, á það nú að vera skilyrði bóta, að innstæða hafi verið talin fram til skatts. Þó að vér út af fyrir sig teljum þetta ákvæði eðlilegt, fylgir því sá mikli annmarki, að hver innstæðueigandi mundi verða að leggja fram sérstaka umsókn um bætur, þannig að framkvæmd málsins verður litt viðráðanleg og kostnaðurinn ekki í neinu samræmi við upphæð bótanna.

Vér viljum því taka það fram, að með þessari breytingu á tilhögun sparifjárbótanna teljum vér oss ekki hafa aðstöðu til að hafa á hendi framkvæmd þeirra. Lægi nær að vorum dómi að fela hana skattyfirvöldunum.

Virðingarfyllst

Landsbanki Íslands.“

(Undirskrift bankastjórnar).

Allt það, sem fram kemur í þessu bréfi, er í samræmi við það, sem ég hélt fram í ræðu minni í dag, það er að segja, að breytingar nefndarinnar væru sízt til bóta og að brýna nauðsyn bæri til þess að samþ. 6. brtt. mína á þskj. 444. Það er dálítið spaugilegt, að andstæðingar ríkisstj. skuli þurfa að gera ítrekaðar tilraunir til þess að fá hana til að fallast á till. þjóðbankans um atriði eins og það, sem hér er um að ræða, þegar auk þess er hægt að leiða hin einföldustu rök að því, að till. eru miklu skynsamlegri og kostnaðarminni, en leið sú, sem meiri hl. fjhn. leggur til að verði farin.

Fyrst ég er staðinn upp, þá ætla ég að bæta nokkrum orðum við í sambandi við svarræðu hæstv. viðskmrh.

Það vakti strax athygli mína, að hæstv. viðskmrh. andmælti ekki gagnrýni minni á ákvæðum frv. um að veita gengishagnaðinum til lánveitinga í sérstöku skyni, en ég hélt því fram, að með því væri verið að halda áfram þeirri stefnu, sem bæði núverandi fjmrh. og viðskmrh. hafa fordæmt. Ég leiddi að því ljós rök, að með þessu væri verið að halda áfram á braut dýrtíðar og verðbólgu. Ég lít svo á, að úr því að hæstv. viðskmrh. andmælti mér ekki, þá sé hann mér sammála og honum sé það ljóst, hver hætta stafar af óeðlilegri lánsfjárþenslu. Ýmis ummæli hans, bæði fyrr og síðar, hafa sýnt, að hann hefur skilning á þessum málum, og það væri eðlilegt, að hann væri ekki ánægður með þessa stefnu. En á hvers ábyrgð er þá þessi stefna tekin, ef það er hvorki á ábyrgð hæstv. viðskmrh. né hæstv. fjmrh.?

Ég beindi 5 spurningum til hæstv. viðskmrh., hann hefur nú svarað þremur þeirra. Hins vegar hefur hann ekki svarað því, hvern skilning hæstv. ríkisstj. leggur í ákvæði 9. gr. Hann hefur ekki svarað því, hvort sá skilningur sé réttur, að ákvæðið taki til landbúnaðarafurða, eins og sumir hv. þm. virðast gera, eða hvort skilningur minn sé réttur, að ákvæðið taki aðeins til innlendrar iðnaðarvöru og landbúnaðarafurðir megi ekki hækka, fyrr en í september í haust.

Þá hefur hæstv. ráðh. ekki svarað þeirri spurningu, hvort ríkisstj. sé sammála þeirri kenningu. hagfræðinganna, Benjamíns Eiríkssonar og Ólafs Björnssonar, að verzlunar- og iðnaðargróðinn hafi verið svo mikill, að það hafi veruleg áhrif á kjör launþega, ef hann fellur þeim í skaut vegna bættra verzlunarhátta. Ég vona, að ég geti skilið þögnina um þetta af hendi hæstv. ráðh. sem samþykki hans á þessum skoðunum.