17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að deila við hv. 2. þm. Reykv. nú um frjálsræði í þjóðfélaginu. Og það mun líklega fleirum fara svo, en mér í þessari hv. d., að menn fái óbragð í munninn, þegar þessi hv. þm. talar um verzlunarfrelsi. Það kveður venjulega við annan tón hjá honum, þegar hann talar um, að það eigi allt að keyra í viðjar ríkisvaldsins og að það eigi enginn maður að hafa leyfi til að gera helzt neitt sjálfrátt, en einstaklingurinn eigi að vera þjónn ríkisvaldsins og ríkisvaldið eigi að hafa á hendi allar framkvæmdir og þar á meðal í verzluninni. Í þessu efni hefur þessi hv. þm. tvær tungur og talar sitt með hvorri, eftir því, hvað hentar honum, eftir því, hvaða stefnu hann óskar að taka í því og því máli, hvort sem það passar vel við hans grundvallarkenningar eða ekki. Hans þjóðfélagsfyrirmynd er, eins og allir vita, Rússland. Er þar frjáls verzlun? Nei. Þar fær enginn að hafa frjálsa verzlun með neitt, nema með gamlar bækur og eigin handavinnu. En það er þetta, sem hv. 2. þm. Reykv. kallar frjálsa verzlun. Það er þetta, sem hann álítur, að eigi að vera fyrirmynd í þjóðskipulaginu. En nú stendur hann upp, af því að það passar honum. og heldur hjartnæma ræðu yfir því, hversu Íslendingar séu fjötraðir í verzlunaránauð og að hann komi nú eins og frelsandi engill með sínar till. í sambandi við þetta frv., til þess að frelsa Íslendinga undan einokun. En samt mænir þessi hv. þm. til þess lands, sem ég áðan nefndi, þar sem enginn hefur verzlunarfrelsi, nema til þess að selja gamlar bækur og eigin handavinnu. — Hvernig á að taka slíkan mann alvarlega?