17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það hefði verið viðkunnanlegra fyrir hæstv. viðskmrh. að svara þessu ofurlítið fyrr og svara því alveg, sem ég beindi til hans um afstöðu til þeirra brtt., sem ég flyt hér fram. Ég gerði alveg greinilega grein fyrir því, hvernig á brtt. stendur. Það er nú búið að fella till. um að taka fiskábyrgðina inn. Það er búið að kippa burt því fyrirkomulagi í þessu efni, sem verið hefur hér undanfarin ár, sem hefur verið það að banna útgerðinni réttinn til þess að flytja út, en tryggja henni í staðinn öryggi um ákveðið verð fyrir sínar vörur. Ég sagði hæstv. viðskmrh., að fyrst sú stefna væri fallin, fyrst það öryggi, sem fiskimönnum var gefið með fiskábyrgðarlöggjöfinni, væri afnumið, þá yrði að koma í staðinn frelsi þeim til handa. Og ég sagði við hann — og mér heyrðist hann vera sammála því — að það versta þjóðfélag, sem hægt væri að hugsa sér, væri þar, sem hvorki væri öryggi né frelsi. Menn velja venjulega milli þessa tvenns á verzlunarsviðinu og atvinnusviðinu. Og hæstv. ráðh. þarf ekki að snúa út úr því. Fyrst stefna hans hefur sigrað hvað það snertir að afnema öryggi íslenzkra fiskimanna, sem þeir hafa haft fram að þessu um verð fyrir sína vöru, þá verður hann að þora að framkvæma sína eigin stefnu, frjálsa verzlun. Ef hann þorir ekki, eftir að hafa drepið fiskábyrgðina, að framkvæma sína eigin stefnu, frjálsa verzlun, þá sýnir sig, að annað vakir fyrir honum en frjáls verzlun, sem sé það að koma hér á lögbundinni einokun tíu til tuttugu aðila á verzlun landsins. — Þessi hæstv. ráðh. talaði um það, að ég vildi, að ríkisvaldið keyrði allt í viðjar. Hvað er ríkisvaldið á Íslandi í verzlunarmálunum? Ég skal segja honum það. Það er klíka tíu til tuttugu manna hér í Reykjavík, sem skiptir á millí sín innflutnings- og gjaldeyrisleyfunum. Það eru menn, sem sumir eru úr Sjálfstfl., en aðrir úr Framsfl., sem semja sín á milli um skiptingu á gjaldeyris- og innflutningsleyfunum á Íslandi, og skipta þessu á milli sín eins og peningum, því að innflutnings- og gjaldeyrisleyfi á vörum, sem fluttar eru til Íslands, eru sama sem peningar nú. Þegar Alþ., með því fyrirkomulagi, sem það hefur samþ., gefur þessum tíu til tuttugu aðilum, sem eru heildsalar og S.Í.S., þannig valdið yfir innflutningsverzluninni, en bannar öllum öðrum Íslendingum verzlunarfrelsi, þá virðist mega álykta svo, að þessir aðilar taki sér til fyrirmyndar orð Lúðvíks XlV., sem sagði: „Ríkið, það er ég.“ — Framsfl. felldi, að neytendur fengju ofurlítið frelsi um innflutninginn til landsins. Sjálfstfl. ætlar auðsjáanlega að fella þessa brtt. um að lina eitthvað á verzlunarhöftunum. Hvorugur þessara flokka ætlar að standa við fyrri yfirlýsingar í þessum efnum. Það er ekki ég, sem snýst í þessum efnum. Ég vil aðeins láta flokka hæstv. ríkisstj. standa við orð sín. En það er ekki að sjá, að Sjálfstfl. ætli að þora að standa við sín orð fremur en Framsfl. Ég hefði nú heldur kosið, að það hefði verið samþ., sem ég kom með í gær um skömmtunarseðlana. Og þetta, sem ég kem með nú í brtt., að rýmkað verði ofurlítið á verzluninni, það er svo kölluð hugsjón Sjálfstfl., sem þeir sjálfir eru að drepa með því að fella þessa till. Það er fórn á altari heildsalanna, sem hér er um að ræða.