17.03.1950
Efri deild: 75. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Frv. þetta, sem lagt var fyrir hæstv. Alþ. af fyrrv. ríkisstj., hefur sætt meðferð í hv. Nd. og verið þar allýtarlega rætt. Það væri að sjálfsögðu að fara að bera í bakkafullan lækinn, ef ég færi nú að ræða málið hér í þessari hv. þd. eins og hv. þdm. væri það með öllu ókunnugt. En samt sem áður þykir við eiga, að því sé fylgt úr hlaði hér með nokkrum orðum. — Það hefur orðið að samkomulagi, að ég gerði það að þessu sinni, og þá kannske ekki vegna þess embættis, sem ég nú hef, heldur sem forsrh. í þeirri ríkisstj., sem undirbjó málið.

Varðandi afstöðu fyrrv. ríkisstj. um þetta mál vil ég leyfa mér að vísa til hinnar ýtarlegu ræðu, sem hæstv. fyrrv. fjmrh., núverandi hæstv. viðskmrh., flutti við 1. umr. málsins í Nd. Og ég vil einnig leyfa mér að vísa í þessu sambandi til umsagnar um málið í ræðu þeirri, sem hæstv. utanrrh. flutti í sambandi við umr. um vantraust á fyrrv. ríkisstj. Báðar þessar ræður segja í veigamestu efnum það, sem vakti fyrir fyrrv. ríkisstj. með flutningi málsins.

Meginefni þessa frv. er, eins og öllum er kunnugt um, gengisfellingin. Það er áreiðanlega sameiginleg skoðun allra, sem sæti eiga í núverandi ríkisstj., að gengisfellingin sé út af fyrir sig neyðarúrræði. Að samt sem áður er borin fram till. um, að gengi ísl. kr. verði fellt, og hún studd af miklum meiri hluta Alþ., stafar af því, að þessi meiri hluti þingsins er sammála um það, að það sé engu öðru fram að tefla, sem líklegra sé til þess að bægja frá dyrum þjóðarinnar þeim voða, sem ella eru taldar líkur til, að muni steðja að.

Það yrði of langt mál að rekja ræturnar, sem liggja að þessari till., sem hér er fram borin. Ég geri ráð fyrir því, að sanngjarnir menn nú, og þeir, sem síðar dæma um þetta, muni allir viðurkenna, að ræturnar sé fyrst og fremst að rekja til þess ölduróts í öllu atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar, sem skapaðist hér á öndverðu ófriðartímabili síðustu heimsstyrjaldar og stöðugt fór vaxandi, eftir því sem á ófriðinn leið. Á vegi okkar Íslendinga urðu þá mörg fjármálafyrirbrigði, sem ég hygg, að þeim, sem meira vit hafa og reynslu. í þessum efnum heldur en við, hefði einnig orðið hált á. Afleiðingin varð þá líka sú, að um leið og þjóðin efnaðist mjög verulega, þá hefur hún að sama skapi meira og meira orðið að kenna á verðbólgunni, sem loks hefur færzt svo í aukana, að öllum hugsandi mönnum hrýs hugur við, enda er svo komið, að það er ekki lengur hægt að loka augunum fyrir því, að hættan, sem af verðbólgunni stafar, vofir alvarlega yfir okkur.

Þeir menn, sem fastast stóðu með þeirri ríkisstj., sem kölluð var nýsköpunarstjórnin, töldu hana hafa allt sér til ágætis unnið og ekkert til miska. Þeir aftur á móti, sem stóðu gegn henni, töldu að hún hefði lítið sér til sóma gert, en því fleira til vansæmdar, og veittu henni oft allhart aðkast fyrir óvarfærni í fjármálum, sem þeir töldu hana seka um, og fyrir að hafa eytt fjármunum ríkisins án nægilegrar varfærni. — Ég er ekki rétti maðurinn til þess að skera úr málum í þeim deilum. En ég mundi segja það sama í dag eins og hreyfði sér í mínu hjarta oft og einatt, meðan sú ríkisstj. sat að völdum, að báðir þessir aðilar þeir, sem segja, að hún hafi margt vel gert og forðað frá mörgum vanda með sínum framkvæmdum, og hinir, sem segja, að hún hafi ekki haft næga forsjálni í fjármálunum í öllum efnum — ég hygg, að báðir þessir aðilar hafi nokkuð til síns máls.

Það er eins um þá ríkisstj., sem tók við, þegar nýsköpunarstjórnin svokallaða lét af völdum, 1947. Á verk þeirrar stjórnar, eins og annarra ríkisstjórna, hefur verið bent, og sumir halda fram, að hún hafi náð miklum og góðum árangri og verði ekki um neitt sökuð, er miður fari. Aðrir segja, að þeirri stjórn hafi fatazt tökin í ýmsum og verulegum efnum, þannig að þær vonir, sem við hana voru tengdar, hafi ekki rætzt. — Ég hygg, að um þessa dóma megi segja hið sama og um hina fyrri, er ég nefndi, að báðir hafi nokkuð til síns máls.

En hvernig svo sem menn vilja um þetta deila, þá held ég, að allir — allir — séu sammála um það, að eins og nú er komið sökum, hverjum sem um er að kenna — og menn hafa að mínu viti varið allt of miklum tíma til vísindalegra rannsókna á því —, þá sé það höfuðmarkmiðið, sem keppa þurfi að, að finna hina farsællegustu lausn vandamálanna, sem að þjóðinni steðja. Ég tel, að allt of miklum tíma og erfiði hafi verið varið í það að reyna að finna út, hverjum sé um það að kenna, sem miður hefur farið, sem þeir, sem það hafa fundið, hafa svo neitað að viðurkenna opinberlega, heldur hafa menn sagt, að það væri þeim aðilanum að kenna, sem þeim hentaði pólitískt bezt. En ég tel, að allt of litlum tíma hafi verið í það varið að ná samkomulagi um farsællegustu lausn málanna á hverjum tíma. Ég vil að mínum hluta ekki færast undan minni ábyrgð í þessu efni. Og ég vil segja sem aðalatriði í þeim efnum, að ég tel, að það sé sameiginlegt mark á okkur, sem á Alþ. höfum verið síðasta áratuginn, að enginn okkar hafi séð og enn siður sagt, hvað væri hin eina rétta lausn í þessu máli. Sannleikurinn er sá, að okkur hefur skort yfirsýn yfir málið. Við höfum ekki haft nægilega menntun og reynslu til þess að geta gert okkur glögga heildargrein fyrir allri aðstöðunni. Þetta er mín skoðun í málinu, og hygg ég, að hún sé ekki fjarri sanni.

Það varð hlutskipti ríkisstjórnar Sjálfstfl., sem sat að völdum í tæpa þrjá mánuði, að bera fram till. í þessum efnum. Og það eru þær till., sem fram eru bornar í þessu frv., sem hér liggur fyrir til umr. Þessar till. hafa sætt allmikilli gagnrýni. Ég held, að ég hafi lög að mæla, þegar ég staðhæfi, að sú gagnrýni á í meginatriðum ekki við rök að styðjast. Ríkisstj. hefur fremur litlu svarað til þessari gagnrýni. Það stafar fyrst og fremst af því, að málið er í aðalefnum ákveðið með samningum á milli stjórnarflokkanna. Það hefur verið sagt um þetta mál m.a., að það hafi verið illa undirbúið. Ég get með engu móti viðurkennt það, því að ég hygg, að fá mál hafi verið betur undirbúin á síðari árum en þetta mál. Ég get í þeim efnum sérstaklega vísað til þess, sem hæstv. utanrrh. sagði í ræðu þeirri, sem ég áður gat um, er hann flutti í sambandi við vantrauststill. Þar skýrði hann frá því, að stjórn lýðræðisflokkanna, sem sat að völdum 1947–1949, undirbjó þetta mál að því leyti, að samkv. upplýsingum hæstv. utanrrh., eftir að hann hafði átt viðræður við dr. Benjamín Eiríksson í Ameríku, þá var hann hingað kvaddur, þeirri ríkisstj. til ráðuneytis, og samdi hann um málið í heild mjög merkilegt álit, þar sem menn öðluðust miklu meiri yfirsýn yfir málið í heild en menn áður höfðu haft. Og ég hygg, að það sé ekki of mælt, að allir ráðherrarnir í fyrrv. ríkisstj. voru nær daglega að einhverjum störfum í sambandi við lausn þessa máls. Að því er mig snertir, held ég, að ég hafi varið í þessa þrjá mánuði, sem ég fór með stjórnarforustuna nú síðast, meiru en helmingi af mínum vinnudegi að jafnaði, annaðhvort með hagfræðingum, sem fjölluðu um málið, eða með hæstaréttardómurum, sem klæddu frv. í búning. Ég held þess vegna, að það sé ómaklegt að segja, að málið sé illa undirbúið. Og flokkur fyrrv. ríkisstj., Sjálfstfl., hefur eins gert sitt til þess að tryggja málinu framgang, með því að taka höndum saman við þann flokk, sem vitað var, að stóð skoðanalega næst okkur í þessu máli. Og ég býst við, að það megi segja um báða núverandi stjórnarflokka, að þeir hafi viljað sýna og sanna hug sinn í þessum efnum, lýsa þeirri skoðun sinni, að það sé þörf róttækra aðgerða, og lýsa þeirri skoðun sinni, að engar róttækar aðgerðir komi að haldi aðrar en þær, sem bornar eru fram í frv. fyrrv. ríkisstj., —þetta hafi þeir viljað sýna og sanna með því að hefja stjórnarsamstarf, til þess að tryggja þessum till. framgang.

Um efni frv., gagnrýnina á því og breyt. að öðru leyti skal ég segja þetta: Það er af öllum viðurkennt, að hér er aðgerða þörf. Það er af öllum viðurkennt, að í raun og veru sé aðeins um þrjár leiðir að ræða. Það er í raun og veru af öllum viðurkennt, að af þessum þremur leiðum séu tvær orðnar lokaðar. Og þá er einungis sú þriðja eftir. Það er staðreynd, að hér á Alþ. er enginn, sem trúir á það, að lengur sé hægt að leggja á þegna þjóðfélagsins sívaxandi skatta, til þess með þeim að halda áfram útflutningsuppbótunum. Menn sannfærðust, þegar menn sáu framan í það, að nú þyrfti enn þá að leggja á margra milljónatuga skatta á þessu þingi, ef halda ætti þeirri leið áfram að bæta upp útflutningsvörurnar, — menn sannfærðust þá um það, ef menn gerðu það ekki fyrr, að slíkt var ekki hægt að halda áfram með. Það er einnig staðreynd, að við samanburð á hinum tveimur leiðunum, verðhjöðnunarleiðinni annars vegar og gengisbreytingarleiðinni hins vegar, þá kom í ljós, svo að ekki er hægt að bera brigður á, að verðhjöðnunarleiðin lagði miklu þyngri byrðar á almenning í landinu, sérstaklega launþega, heldur en gengisbreytingarleiðin. Þetta kom í ljós, svo að ekki varð um deilt, og enn fremur, að verðhjöðnunarleiðinni fylgdu aðrir slíkir annmarkar, að einir hefðu nægt til þess, að menn hefðu, hikað við að velja þá leið. Og þá var ekki annað eftir en að hverfa að gengislækkunarleiðinni, með hennar göllum og kostum. — Ég hef ekki fengizt til að trúa því, að nokkur maður meinti það fjórða, sem hér hefur verið orðað, að það mætti taka verzlunargróðann og leiðrétta þær misfellur, sem hér hafa á orðið, með honum, eða leysa þann vanda, sem fyrir hendi er, með honum. Ég hygg, að það liggi fyrir hagfræðilegar skýrslur um það, að gróðinn í verzluninni hafi verið um 30 millj. kr. Það er deilt um það, hve mikið eigi að færast til útvegsins með ákvæðum þeim, sem þetta frv. hefur inni að halda, hvort það sé 80 millj. kr. eða hvort það nái jafnvel 140 millj. En hvort sem það eru 80 millj. eða 140 millj. eða eitthvað þar á milli, þá læknar enginn þann vanda, sem fyrir hendi er, með 30 millj. kr. á ári, þó að þær væru lagðar á borðið. En ég hygg, að enginn haldi því fram, að þó að ríkisverzlun yrði tekin upp, þá yrði hún rekin kostnaðarlaust. Við höfum Innkaupastofnun ríkisins, og hún sýnir, að það er ekki hægt að reka landsverzlun ríkinu að kostnaðarlausu. Og það mundi verða aðeins eitthvert brot af þessum 30 milljónum, sem talið er, að sé gróðinn af innflutningsverzluninni, sem kæmi inn sem hreinn ágóði af landsverzlun. Og ég ætla, að hagnaðurinn yrði svo sem enginn af landsverzlun, sem mundi skapast við það, að nokkrir menn með takmarkaða hæfileika og takmarkaða þekkingu ættu að inna af hendi þau verzlunarstörf í þessum efnum, sem nú gera margir menn, reyndir með mikla viðskiptaþekkingu, ýmist sem forstöðumenn samvinnuhreyfingarinnar eða forstöðumenn kaupmannaverzlana, þeirra er við innflutning fást.

Ég held þess vegna, að það sé satt, að í hjarta sínu greini menn í raun og veru ekki á um það, að það sé þessi leið, sem fyrir hendi sé, sem kemur fram í frv., og engin önnur. Ég held, að það sé staðreynd. Og mér er ekki kunnugt um, að neinir hagfræðingar haldi öðru fram, í hvaða flokki sem þeir eru. Og það, sem ágreiningur er um, viðkomandi þessari leið hér á hæstv. Alþ., held ég að sé út af mismunandi trú manna á haldgæði þeirra ráðstafana, sem um er að ræða, þó að menn hins vegar játi, að engin önnur leið sé til betri.

Og ég fyrir mitt leyti skal játa, að ég tel, að það geti mjög orkað tvímælis, hvort ekki er of langt gengið í 7. gr. til móts við kröfur launþega. Þetta atriði var mjög til umr. í viðræðum við hagfræðingana, sem undirbjuggu þetta frv. En ákvæði 7. gr. miðuðu öll að því að ganga eins langt og auðið er til móts við kröfur launþega í landinu. Ég játa, að það kom þá mjög fram, og þá fyrst og fremst af hálfu hagfræðinganna, að það mundi geta talizt nokkur hætta á því, að þar væri of langt gengið, þannig að það orkaði nokkuð tvímælis, hvort sjálfri höfuðhugmynd frv. væri ekki teflt í voða með þeim ákvæðum. Hins vegar var það einlægur vilji fyrrv. ríkisstj. að reyna á allan hátt að koma til móts við óskir og kröfur launþeganna, og þess vegna var að þessu ráði hnigið.

Í öðru lagi hygg ég, að ágreiningur sá, sem er um þetta mál innan veggja Alþ., stafi frá þeirri tilhneigingu þeirra manna, sem í sannleika trúa því, að ekki sé um aðra leið að ræða út úr ógöngunum en þá, sem fram kemur í frv. þessu, að þeir vilji nota málið, ef þess yrði kostur, sér til pólitísks ávinnings, og að mínu viti meira en hyggilegt er, og kannske líka meira en þorandi er. Það kunna líka að vera þeir menn til, sem ekki óski þess, að hægt verði að verjast þeim glundroða, sem fram undan er, ef ekki verður að gert. Og það er náttúrlega ekki eðlilegt, að þeir kæri sig um réttar ráðstafanir.

Að öðru leyti vil ég um allt þetta vísa til álits hagfræðinganna, sem fylgir frv., og svo til þeirra ræðna, sem ég hef nefnt og fluttar hafa verið af hendi Sjálfstfl.

Varðandi minni háttar gagnrýni um þetta mál vil ég fyrir mitt leyti fúslega viðurkenna, að mér finnst hún að sumu leyti rétt. Mér finnst nauðsynlegt að rétta hag námsfólks, sem stundar nám erlendis. Og mér finnst ekki sanngjarnt að láta hæst launuðu mennina í landinu, yfirmennina á togurunum, hljóta stórkostlegar launahækkanir, sem þeir fengju að frv. breyttu. Og ég get kannske nefnt ýmislegt fleira, sem ég teldi, að vel mætti betur fara af minni háttar atriðum. Sumt af gagnrýni á frv. hefur verið tekið til greina. En ég veit það og allir hv. alþm., að þegar slíkt stórmál er á döfinni og þegar mynduð er ríkisstj., sem semur um slíkt mál í öllum höfuðatriðum, þá þýðir ekkert fyrir einn þm., eins og mig, að ætla að gera sig góðan og segja: Þetta vildi ég, en svo voru það hinir, sem vildu það bara ekki. — Og sama tel ég gilda um aðra hv. þm. Það þekkja allir þm., sem á þingi eru, að þetta er ekki hægt að gera. Og ef það væri svo, að einn þm. segðist vera með þessu og annar þm. með hinu o.s.frv., en hv. þm. vildu ekki semja sig að samkomulagi milli flokka, þá gæti það orðið til þess, að allt málið færi úr reipunum og allar tilraunir þeirra, sem að frv. standa, yrðu að engu gerðar.

Um breyt., sem hafa orðið á frv. í sumum efnum og gerðar eru að undirlagi og fyrir atbeina Sjálfstfl. og Framsfl., vil ég segja fyrir mitt leyti, að ég get í sjálfu sér kannske vel unað þeim öllum. En ég vil ekki fara dult með það, að ég er dálítið hræddur við afleiðingarnar af breyt. á 3. gr. Við viðurkennum allir, að það er svo sem ekki áhyggjuefni út af fyrir sig, að svona upphæð, gjaldeyrishagnaðurinn, fari til jafnþarfra ráðstafana eins og um ræðir í 1., 2. og 3. tölul. 3. gr. En hið eina í þessu, sem ég a.m.k. persónulega — og ég veit ekki, nema ég segi það fyrir hönd sjálfstæðismanna allra í ríkisstj. og flokksins kannske að verulegu leyti, þó að ég hafi ekki umboð til að segja það — ber nokkurn kviðboga fyrir, er, að þessi ráðstöfun á gengishagnaðinum vinni á móti þeim megintilgangi, sem frv. byggist á, sem er, að fjárfesting verði á hverjum tíma jöfn sparifjármynduninni í þjóðfélaginu. Þetta er hyrningarsteinninn undir gildi þessara laga. Hér er kastað nokkurri fjárfúlgu umfram sparifjármyndunina til fjárfestingar. Því er ekki að leyna. En við höfum talið, að hér sé ekki um svo stóra fjárfúlgu að ræða, að af þessu þurfi að leiða hættu. Þeir, sem með þetta fé eiga að fara, eru kunnir að því að gæta varúðar í lánveitingum. Og að sjálfsögðu er sú hætta, sem kynni að vera færð yfir megintilgang þessara laga, sem frv. er um, með þessum ákvæðum, því minni því lengri tími sem liður, þar til lokið er ráðstöfun þessarar fjárfúlgu til þeirra framkvæmda, sem 3. gr. gerir ráð fyrir.

Hvað breyt. á 12. gr. viðkemur, vil ég segja það, að það er náttúrlega frá sjónarmiði okkar sjálfstæðismanna þannig, að það má náttúrlega alltaf deila um það, hvað eðlilegt sé, að við viljum ganga langt í því að leggja stórfellda skatta á þær eignir, sem sleppa í gegnum hinn þröngva möskva skattalaganna, því að enginn neitar því, að skattalögin íslenzku — ef þau eru haldin og þar sem þau eru haldin — þau sleppa tiltölulega litlum hluta af gróða yfir í hendur einstaklinga. Það er náttúrlega alltaf álitamál, hvað á að höggva djúpt í þann gróða, sem mönnum kann í hendur að berast. En ég vil, að mönnum sé það ljóst, að sú er ekki hugsun okkar sjálfstæðismanna, að þó að ekki sé tekinn allur gróði af mönnum, heldur fái menn að halda honum að nokkru, þá viljum við það vegna þess, að við óskum, að maður, sem á eina milljón kr., geti grætt aðra milljón, það er ekki hlutskipti okkar sjálfstæðismanna í stjórnmálunum að hlynna að auðsöfnun út frá því sjónarmiðl. En meðan við alhyllumst einstaklingsrekstur, þ.e. að atvinnureksturinn sé í höndum einstaklingsins, þá hljótum við að gjalda varhuga við ráðstöfunum, sem brjóta niður möguleikann fyrir einstaklinginn til að standa undir misæri og íslenzku hallærisárferði, og þá beinlínis í þeim megintilgangi að hindra það, að misærið skapi atvinnuleysi. Stjórnmálaflokkarnir í landinu kveðast berjast allir fyrir því að tryggja atvinnu fjöldans. Og ég vil ekki gera neinum getsakir um það, að við meinum það ekki allir jafneinlæglega. Við viljum gera þetta með ýmsum aðferðum. Sjálfstfl. byggir á einstaklingsframtakinu og segir: Ef við brjótum niður möguleika atvinnurekandans þegar illa árar til þess að halda uppi atvinnulífinu, þá erum við að brjóta niður atvinnu almennings í landinu. Og frá þessu sjónarmiði hljótum við eðlilega að skoða hug okkar, þegar þungur skattur skal lagður á þær eignir, sem sloppið hafa gegnum hinn þrönga möskva skattalaganna. — Ég held, að þetta, sem hér er farið fram á í 12. gr., ef það er gert í eitt skipti fyrir öll, þá sé það viðunandi. Framsfl. hefur þá líka jafnframt fallizt á, að niður falli eignaraukaskatturinn. Ég játa, að ég veit ekkert, hvað það gildir. Ég er ekki maður til að dæma um það. En ég er maður til að dæma um það, að flokkur, sem vill einstaklingsrekstur, getur ekki fallizt á, að rétt sé að leggja 25% eignarskatt ofan á 30% eignarskatt. Vegna einstaklingsins, sem á að borga þennan skatt, mundi þetta ekki valda mér neinum andvökum. En sjónarmið okkar sjálfstæðismanna hefur þá heldur ekki verið það, hvað einstaklinginn, sem greiðir skattinn, snertir fyrst og fremst, heldur hvað óhætt væri að gera vegna almennings, sem á atvinnu sína undir því, að einstaklingurinn guggni ekki. Ég geri ráð fyrir, að þessi skattur, sem nú er lagður á með 12. gr., sé nokkurt einsdæmi, þ.e. að svo þungur skattur sé lagður á eignir manna. En sem sagt, það voru ekki till. okkar. Okkar till. voru að fara í 12% mest með þennan skatt og að hann legðist á aðrar og minni eignir, en nú er ákveðið. Framsfl. beitti sér fyrir hinu, sem hér er komið inn í frv. Og mér finnst, að hans ráð í því hafi ekki verið óaðgengilegra en svo, að vel mætti fallast á það til samkomulags, enda var hér að mínu viti miklu meira í húfi en það, hvort þessi skattur væri nokkrum hundraðshlutum hærri eða lægri, og það einfaldlega vegna þess, að mín skoðun er það, og okkar sjálfstæðismanna, og ég hygg framsóknarmanna einnig, að ef ekkert samkomulag hefði náðst milli þessara flokka, heldur ríkt óeining, sem orðið hefði til þess að tefla okkur alþm. eins og peðum í refskák, þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum, þá hefði ekki náðst eining um neitt afgerandi í málinu. Það, sem er frumskilyrði þess, að eining náist um málið og að þetta frv. nái gildi, er að hægt sé að semja um málsatriðin. En ef ekki hefði náðst samkomulag um málið, og þá að sjálfsögðu ekki heldur um annað mál þessu tengt, og á ég þar við fjárl., þá hefði hér ríkt glundroði, til bölvunar fyrir þjóðfélagið og einstaklinga þess. — Það er því minn dómur, að í aðalatriðum sé frv., með þeim breyt., sem Framsfl. hefur barizt fyrir, mjög vel aðgengilegt, þó að það sé ekki í einu og öllu eins og við sjálfstæðismenn hefðum kosið, enda býst enginn við því, sem þekkir til samninga milli flokka, að þegar tveir flokkar, sem lengi hafa deilt og hafa ólík sjónarmið í ýmsum efnum, semja um stjórnarmyndun, þá geti annar flokkurinn risið upp og sagt um það, sem samið er loks um: Þetta er einmitt allt, sem ég vildi; nú er frv. orðið eins og ég óskaði eftir. — Það ætlast enginn til þess. Skal ég svo ekki orðlengja um þetta frekar.

Ég vil aðeins segja það að lokum, að ég lít enn svo á, að okkar þjóð sé betur fær um að mæta lífsbaráttunni nú en nokkur önnur kynslóð í þessu landi hefur verið, allt frá landnámstíð, og það svo ósambærilega miklu betur sett í því efni en nokkur önnur kynslóð allt frá landnámstíð, og að okkur stafi langmest hætta af sjálfskaparvítunum, enda þótt ég viðurkenni, að verðfallið á erlendum markaði geti valdið okkur margvíslegum örðugleikum. En það er ekki meira en svo, að okkur á að vera í lófa lagið að sigrast á þeim örðugleikum, ef við erum sammála og samtaka. Og þær eru áreiðanlega teljandi þær þjóðir í veröldinni, sem hafa átt við eins góðan kost að búa eins og Íslendingar á síðustu árunum, meðan aðrir fórnuðu lífi sínu og eignum. Við urðum að vísu af styrjaldarástæðum að sjá af lífi margra okkar vöskustu sjómanna. En við hinir — og það gildir ekki sérstaklega um mig og aðra slíka, sem græddum peninga á þeim tíma, þó að þeir séu mikið farnir aftur, það gildir almenning í landinu — við lifðum miklu betra lífi, en nokkur önnur kynslóð hefur lifað í þessu landi áður. Og enn stendur þetta þannig, að með þeim miklu tækjum, sem við höfum í höndum til atvinnurekstrar og ef við forðumst sjálfskaparvitin, þá er okkur að minni hyggju í lófa lagið að hafa betri lífsafkomu en margar og kannske flestar nágrannaþjóðir okkar geta veitt sínum þegnum. En það er skoðun okkar, sem í ríkisstj. erum, að þessir möguleikar renni þó út í sandinn, ef ekki eru gerðar ráðstafanir nú til þess að hindra þá verðbólgu, sem ógnar þjóðinni. Og það er okkar skoðun, að frv. það, sem hér er borið fram, sé í raun og veru eina ráðið til þess að bægja frá dyrum íslenzks almennings hinum forna höfuðfjanda fólksins, atvinnuleysinu, ásamt því böli, er því fylgir. Ef okkur mistekst þetta, ef við missum tökin og út um þúfur fara þær ráðstafanir til öryggis, sem frv. er ætlað að veita þjóðinni, og ef okkur tekst ekki að tryggja það, sem tryggja þarf í sambandi við þetta frv., þá er að mínu viti ekkert fram undan nema rúst í atvinnu- og viðskiptalífi þjóðarinnar og almennt atvinnuleysi og eymd í landinu. — Mér er sagt, að hv. form. Alþfl. hafi aðvarað stjórnarfl. í gær með allskeleggum orðum. Ég skal nú líka ljúka þessum orðum mínum með því að aðvara hann og hans flokk um að taka ekki á sig þunga þeirrar ábyrgðar, sem leiðir af því, ef þessar tilraunir, sem hér er komið fram með, mistakast. Ég beini máli mínu sérstaklega til þeirra, vegna þess að ég veit, að þeir vilja af góðum hug standa að því að verja almenning í landinu fyrir atvinnuleysisbölinu og verja þetta þjóðfélag hruni. Ég beini mínum aðvörunum til hans með ekki minni þunga en hann beindi sínum aðvörunum til okkar í gær. Hann gerði það í nafni alþýðunnar. Ég beini mínum aðvörunarorðum í nafni íslenzkrar alþýðu til hans og hans flokks.

Ég vil svo leyfa mér að vona, að þetta frv. fái nú eins fljóta afgreiðslu og auðið er í þessari hv. d., vegna þess, hversu mjög það er rætt í hv. Nd. og hversu mjög það er rætt innbyrðis milli flokkanna, og ekki sízt vegna þess, að það er nú svo komið í þjóðfélaginu, að margvíslegur vandi steðjar að daglega og bíður sinnar lausnar, þar til frv. hefur náð fram að ganga. Frv. er tryggt fylgi Alþ. Ég bið alla góða menn að reyna að tryggja því fylgi með þjóðinni og reyna að hindra, að almenningur af misskilningi rísi gegn ráðstöfunum þess, sem fyrst og fremst eru fyrirhugaðar og gerðar til þess að vernda hagsmuni almennings í landinu.