17.03.1950
Efri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. skýrði frá, þá hefur n., eins og vænta mátti, klofnað um þetta mál. Fulltrúar stjórnarflokkanna, Framsfl. og Sjálfstfl., leggja til, að frv. verði samþ. Ég legg aftur á móti til, að frv. verði fellt, og sömuleiðis hv. 4. þm. Reykv. Ég gerði við 1. umr. nokkuð ýtarlega grein fyrir ástæðunum fyrir, að ég er andvígur frv. og tel það ekki eingöngu ranglátt, heldur beinlínis glapræði, og tel ég enga þörf að endurtaka það nú.

Í Nd. báru flokksmenn mínir fram mjög margar brtt. við frv., sem allar voru felldar. Í fjhn. þessarar d. kom í ljós, að flokkar þeir, sem standa að núv. ríkisstj., eru ráðnir í því að samþ. frv. án breytinga, eða samþykkja a.m.k. ekki neinar breyt., sem nokkru máli skipta. Mér skildist nú að vísu á hv. frsm. meiri hl., að komið gæti til mála, að meiri hl. gæti fallizt á einhverjar breyt. við 3. umr. málsins, en hins vegar snerta þær breyt. ekki meginatriði málsins og eru meira um framkvæmdaratriði. Meiri hl. n. var á þessu stigi málsins ófáanlegur til að ræða við minni hl. um nokkrar brtt. Hins vegar nefndi hv. frsm. a.m.k. eitt atriði, sem hann eða meiri hl. mundi vilja ræða við n. í heild. Það er þess vegna auðséð, bæði af því, sem gerzt hefur í hv. Nd., og afstöðu meiri hl. í fjhn. þessarar hv. d., að örlög frv. eru þegar ráðin af meiri hl., og það virðist hafa verið ákveðið að drepa hér allar brtt. minni hl. n. og að þm. stjórnarflokkanna séu bundnir í því efni. Ég tel þess vegna tilgangslaust að bera allar þessar brtt., sem flokksmenn mínir hafa borið fram í Nd., aftur fram í þessari deild. Ég hef þó ákveðið að bera fram till. um það atriði. sem skiptir meginmáli og sker úr um það, hvort byrðarnar af þessum ráðstöfunum skuli lagðar einhliða á verkalýðsstéttina, en það er spurningin um það, hvernig launin skuli breytast í samræmi við breytingar á verðlagi í landinu. Ég ber þess vegna fram brtt. á þskj. 458, þess efnis, að launin skuli breytast mánaðarlega samkv. vísitölu kauplagsnefndar og fullar uppbætur greiddar, eins og vísitalan segir til um, mánaðarlega. Þetta eru aðalkröfur verkalýðsráðstefnu Alþýðusambandsins, sem nýlega hefur verið haldin, kröfur, sem þar voru samþykktar einróma, og afstaða verkalýðshreyfingarinnar mun algerlega mótast af því, hvort þessi till. verður samþ. eða ekki. Fulltrúi frá verkalýðsráðstefnunni, sem talaði í umboði ráðstefnunnar, hefur nú átt tal við ríkisstj. og flutt henni kröfur sínar. Þegar nú hv. alþm. greiða atkvæði um þessa till., sem skiptir meginmáli, þá kemur í ljós, hvort þeir vilja taka nokkurt tillit til verkalýðsráðstefnunnar og samþykkta hennar, sem í þessum efnum er fulltrúi allra launasamtaka í landinu. Það sker úr um það, hvort ríkisstj. og flokkar hennar eru ráðnir í að samþykkja þetta frv. í fullum fjandskap við verkalýðshreyfinguna. Fjhn., sem hefur fjallað um málið, hefur borizt nokkrar tillögur og athugasemdir við frv., eins og hv. frsm. meiri hl. skýrði frá í ræðu sinni. Ein af þessum till. var tilkynning frá Félagi íslenzkra botnvörpuskipaeigenda og Bæjarútgerð Reykjavíkur, sem frsm. gat um, þar sem tilkynnt er, að þessir aðilar treysti sér ekki til að gera togarana út á saltfisk, ef 10% samkv. 11. gr. verði lögð á án tillits til þess, hvort reksturinn ber sig eða ekki. Þetta eru heldur kaldar viðtökur, sem bjargráðafrv. fær hjá þeim, sem það á að hjálpa, að því skuli vera haldið fram, að ákvæði þess verði til þess, að framleiðslutækin stöðvist. Ef Alþ. skellir skolleyrum við þeirri málaleitun, sem hér kemur fram, fer áhugi ríkisstj. fyrir framleiðslunni að verða harla torkennilegur. Ég geri ráð fyrir, að sams konar málaleitun hafi borizt frá öllum bæjarútgerðum á landinu og verið send þm. viðkomandi kjördæma. T.d. skýrði hv. frsm. meiri hl. frá því, að hann hefði fengið slíka málaleitun frá sínu kjördæmi, og hér er ég með símskeyti, sem hv. þm. Siglf. (ÁkJ) hefur borizt frá bæjarútgerðinni á Siglufirði og hljóðar svo:

„Skorum á yður, að þér beitið yður fyrir breytingum við 11. gr. frv. um gengisskráningu o.fl., þannig, að 10% tollurinn af sjávarafurðum nýsköpunartogaranna, öðrum en ísfiski, verði ekki innheimtur af taprekstri.“

Hv. þm. Siglf. óskaði, að þessari málaleitun yrði komið á framfæri við n.

Ég hef einnig freistað þess að bera fram þegar við þessa umr. brtt. þess efnis, að þessi skattur verði innheimtur árlega eftir á og því aðeins, að rekstur viðkomandi togara sýni, að hagnaður hafi verið af rekstrinum umfram löglegar afskriftir. Hv. frsm. meiri hl. gat þess, að n., eða meiri hl. hennar, vildi taka þetta mál til athugunar við 3. umr. En mér sýnist d. ekkert að vanbúnaði að taka afstöðu til þessa máls nú þegar, enda liggur þessi till. nú fyrir og kemur þá til atkvæða, og mér þykir fróðlegt að sjá afstöðu meiri hl. einmitt til þessarar till. En sé þess óskað, að till. verði tekin aftur til 3. umr., mun ég að sjálfsögðu verða við því.