17.03.1950
Efri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. n. skýrði frá, þá gat ég ekki átt samleið með meiri hl, og hef því gefið út sérstakt nál. Mér þykir þó rétt að geta þess, að ég leyfði mér að spyrjast fyrir um það í n., áður en ég ákvað að gefa út sérstakt nál., hvort nefndarmeirihl. væri tilleiðanlegur til þess að taka inn í frv. breyt. þess efnis, að launastéttunum yrði greidd kaupuppbót, sem nægði til þess að brúa það bil, sem er milli þeirra kauphækkana, sem orðið hafa síðan kauplagsvísitalan var fest í 300 stigum, og hinnar raunverulegu kauplagsvísitölu nú. Í öðru lagi spurðist ég fyrir um það, hvort n. vildi gera ráðstafanir til þess, að tekin yrðu upp í frv. ákvæði viðvíkjandi verzluninni, til þess að tryggja, að hún fengi ekki í sinn hluta meiri part af tekjum þjóðarinnar en nauðsynlegt væri til þess að standast eðlilegan kostnað af verzlunarstarfseminni, og átti ég þar við það, að tekin væri upp ríkisverzlun með mestan hluta af heildarinnflutningi til landsins og gjaldeyririnn bundinn við þá stofnun að verulegu leyti. Hv. meiri hl. gat ekki fallizt á að taka þessi atriði til athugunar í sambandi við afgreiðslu málsins, og hlutu því leiðir að skilja þá þegar. Að ég taldi ástæðu til að leita eftir þessu, stafar af því, að ég hygg að allir séu sammála um það, að gengislækkun ein út af fyrir sig leysi engan veginn þann vanda, sem hér er fyrir höndum. Til þess að hann megi verða leystur, þurfi að gera aðrar samhliða margvíslegar ráðstafanir, fleiri en þær, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sem hér liggur nú fyrir. Þó að leiðir skildu þann veg, þykir mér þó rétt að freista enn, hvort ekki er unnt að fá þessa hv. d. til þess að fallast á að gera nokkrar lagfæringar á frv. frá því, sem nú er. Ég hef því ásamt hv. 6. landsk. leyft mér að flytja nokkrar brtt. á þskj. 460. Þær hafa allar nema ein verið fluttar áður í hv. Nd., en ekki náð samþykki þar. Ég vildi þó freista þess, hvort ekki mundi fallizt á eitthvað af þeim hér í þessari hv. deild.

1. brtt. er um það að fella niður 2. gr., og vísa ég um það efni til minnar fyrri ræðu, en samkv. frv. nú á að taka valdið til gengisskráningar af Alþingi og fá það í hendur ríkisstj. í samráði við Landsbankann. Með tilliti til þess, hversu lítil trygging er fyrir því, að það gengi krónunnar, sem ákveðið er með þessu frv., haldist óbreytt, er það alveg ógerlegt, að þetta vald sé hjá ríkisstj., en ekki hjá Alþingi, því að ríkisstj., jafnvel minnihlutastjórn, getur eftir þessu ákveðið gengið eins og henni þóknast. Ef hún metur svo, að kaupgjald í landinu hafi hækkað, þá getur hún t.d. notað það sem ástæðu til gengisfellingar, en það er alltaf álitamál, hvort kaupgjaldsbreytingar hafi áhrif á gengi. Þegar við réðumst í að kaupa nýsköpunartækin, var í þau kaup ráðizt til þess að við ættum framleiðslutæki, sem væru notadrýgri og hentugri en áður, en af því átti að leiða, að þeir, sem með þeim störfuðu, fengju hærri laun en áður. Endanlegt takmark nýsköpunarinnar hefur alls ekki náðst enn, og allir vonum við að fá enn ný og betri atvinnutæki, til þess að hlutur hinna vinnandi stétta batni, en slíkt er álitamál, og ef frv. er samþ. óbreytt, getur ríkisstj. skorið niður kaupgjald með gengislækkun skv. 2. gr. frv. Þessi grein hefur að vonum vakið tortryggni hjá öllum almenningi, og ég vil ekki trúa því, fyrr en ég tek á, þar sem niðurfelling 2. gr. mundi engin áhrif hafa á framkvæmd laganna, að hv. meiri hl. geti ekki fallizt á þetta. Ég hef heyrt, að hæstv. ríkisstj. hafi þetta atriði til athugunar, og ef óskað er, að ég taki þessa brtt. aftur til 3. umr., þá get ég vel fallizt á það.

Þá er brtt. við 3. gr., um það, hvernig ráðstafa skuli gengishagnaði bankanna. Því miður liggja ekki fyrir neinir útreikningar um það, hvað hann muni verða mikill, en gizkað hefur verið á, að hann komi til með að nema 20–35 millj. kr. Efni brtt. er það, að lánin skv. gr. skiptist eins og segir í brtt., þ.e.a.s., að helmingur fjárins sé lánaður til íbúðarhúsbygginga samkv. lögunum um byggingu verkamannabústaða, en hinn helmingurinn fari til byggingar- og ræktunarsjóða fyrir sveitirnar, en í frv., eins og það er nú, er gert ráð fyrir, að 1/3 fjárins sé lánaður til verkamannabústaða, en 2/3 til ræktunar- og byggingarframkvæmda í sveitum. Ég verð að segja, að með tilliti til íbúaskiptingar landsins, þá er það furðulegt, ef á að halda fast við þá skiptingu, sem nú er í frv. Í kauptúnum og kaupstöðum, sem lögin um byggingu verkamannabústaða taka til, búa 5/7 landsmanna, en aðeins 2/7 í öðrum landshlutum. Það er enginn vafi á því, að þörfin fyrir hina 5/7 hluta landsmanna til húsabóta, er ekki síður brýn en hjá þeim 2/7 til þeirra framkvæmda, sem gr. ræðir um. Við höfum þó ekki ætlazt til að skipta upphæðinni í hlutfallinu 5:2, sem þó væri réttmætt, heldur höfum við lagt til, að hún skiptist til helminga milli þeirra aðila, sem hlut eiga að máli, þannig að helmingurinn renni til verkamannabústaða og hinn helmingurinn til framkvæmda í sveitum. Um þetta fjalla liðirnir a, b og c í till., og vænti ég þess, að hv. d. geti fallizt á þessa hóflegu brtt. D-liðurinn í þessari brtt. á við næstsíðustu málsgr. 3. gr., en samkv. gr. nú á að lána til verkamannabústaðanna með 4% vöxtum, en lán, sem veita á til 20 ára til ræktunarframkvæmda, eiga að ávaxtast með 2%. Ég vil á engan hátt gera lítið úr nauðsyn þess, að ræktunin í landinu fái ódýr lán, en það er alveg jafnbrýn nauðsyn fyrir verkamenn að fá ódýr lán til bygginga, ekki sízt þegar byggingarefni stórhækkar í verði einmitt fyrir áhrif þessara laga, og það er ósanngirni, sem mest má verða, ef verkamenn eiga þarna að borga tvöfalt hærri vexti.

3. brtt. er við 4. gr., um það, að gr. falli niður, en efni gr. er, að inn í vísitöluna, sem nú er — en hana þyrfti mjög að lagfæra, en ekkert er um það í frv., heldur á að taka inn í hina nýju vísitölu húsaleigu í nýjum húsum, sem enginn veit, hvað er mikil, og enn fremur útsöluverð á kjöti. Þetta leiðir til þess, að sá hluti vísitölunnar, sem samsvarar innlendri verzlun og notaþörf hækkar, en hinn hlutinn, sem byggist á verði innfluttrar vöru, lækkar. Breytingar á verði erlendrar vöru verka því minna til hækkunar á vísitölunni, eftir að þessi lög yrðu samþ., en ella mundi. Hvergi er hjá hagfræðingum ríkisstj. gerð grein fyrir því, hverju þetta nemi, enda veit enginn, hvernig húsaleiga í nýjum húsum verður metin, en með þessari aðferð við útreikning vísitölunnar gætir hækkunar af erlendu vöruverði, minna en áður. Ég skal ekki gizka á, hversu miklu þetta munar, en það munar verulega.

Á sama hátt legg ég til í 4. brtt. minni, að 5. gr. verði felld niður. Ég skal þó geta þess, að ef ekki verður fallizt á mína till. og ef kaupgjaldsvísitalan verður útreiknuð samkv. 5. gr., þá er sjálfsagt, að samhliða verði gerður útreikningur fyrir þjóðartekjurnar í heild, svo að séð verði hlutfallið milli kaupgjaldsins og þjóðarteknanna. Annars er þessi vísitala einskis virði og segir nauðalítið.

7. gr. frv. fjallar um vísitölu framfærslukostnaðar og hvernig uppbætur skuli greiða samkv. henni. Hér er um stórfellda breytingu að ræða frá því, sem nú er. Það á að miða við þessa nýju kauplagsvísitölu og breytingar, sem hún kann að sýna frá 1. marz til 1. apríl. Síðan á að greiða uppbætur samkvæmt henni á kaup t maí, þó því aðeins, að hækkun framfærslukostnaðar nemi minnst 5%, en það svarar til 17–18 stiga í vísitölu. En mánaðarlega á aðeins að greiða uppbótina til 1. júní, en þá eiga 6 mánuðir að líða þar til kaup verður leiðrétt næst, og svo aftur 6 mánuðir, unz ákvæðin um uppbótargreiðslur falla úr gildi. Ég álít hér svo langt gengið og harkalega á hlut launþega, að ekki sé þess að vænta, að við verði unað. — Í brtt. okkar á þskj. 460 er gert ráð fyrir, að grundvallarvísitalan, sem miðuð sé við 1. september 1949, verði 330 stig, og er með því bætt fyrir vísitölubindinguna, sem sett var 1947. Síðan greiðist við hver mánaðamót uppbót samkv. hækkandi vísitölu, eins og var, áður en vísitalan var bundin. Því hefur mjög verið haldið á loft af forsvarsmönnum þessa frv., að með uppbótarákvæðum þess væri séð fyrir hag launþeganna, en ef frv. er óbreytt, þá er það alveg ófullnægjandi. En með því að samþ. brtt. okkar er aðeins verið að gera þau orð forsvarsmanna frv. að sannmæli, að launþegum sé bætt upp verðhækkunin, sem stafar af gengislækkuninni. Þá ætlumst við einnig til, að vísitalan verði endurskoðuð fyrir 1. júní, svo að hún fengist sem allra réttust, enda var þetta verk hafið fyrir forgöngu stjórnar þeirrar, er hv. núv. 8 landsk. veitti forstöðu.

Ég vil nú aðeins leyfa mér að vekja athygli hv. meiri hl. á því, hvernig árangur þessarar löggjafar kemur fram í reynd, ef frv. verður samþ., án þess að tillit sé tekið til brtt. okkar á þskj. 460. Um leið og frv. hefur verið samþ. og gjaldeyrisverzlun hefst að nýju, þá fara vörurnar, sem legið hafa á hafnarbakkanum, í búðirnar, tollaðar samkv. þessum nýju lögum. Hver verðhækkunin rekur aðra. Matvörur, kol, fatnaður, allt, sem nöfnum tjáir að nefna, hækkar í verði út marz, út allan apríl, en á sama tíma verður engin breyting á kaupi. Heldur nú hv. meiri hl., að þetta sé leiðin til þess að fá launþegana til þess að láta vera að nota sinn viðurkennda rétt til kauphækkana? Ég held, að hv. meiri hl. ætti að athuga það, hvort hann getur ekki gengið eitthvað til móts við óskir launþeganna, þannig að kauphækkanir verði þegar í apríl og svo áfram mánaðarlega til að mæta þeim verðhækkunum á lífsnauðsynjum, sem koma munu daglega.

6. brtt. okkar er við 10. gr. og er þess efnis, að verðtollsviðaukinn, sem nú er 65%, en á samkv. frv. að verða 45%, hann verði 25%. Það er leitt að þurfa að segja frá því, að engar tölur eru í álitsgerð frv., sem sýni, hverju þessi verðtollsviðauki muni nema, enda forðast hæstv. ríkisstj. allar upplýsingar í tölum um atriði, sem máli skipta í sambandi við þetta frv. Verðtollurinn er raunverulega hækkaður um 70% frá því, sem nú er. Verðtollurinn í heild ásamt viðauka er nú áætlaður 66 millj. kr., og skilst mér, ef 70% hækkun kemur á þetta, að þá geti hann orðið allt að 100 millj. kr. Sé ég ekki þörf á því í sambandi við þetta frv. að auka svo mjög tolltekjur, og þó að brtt. okkar verði samþ., sýnist mér, að tolltekjurnar verði nær 70 millj. kr. en 66 millj. kr., sem þær eru áætlaðar nú. — Þá vil ég beina því til hæstv. ríkisstj., hvort hún ætlar ekki, þegar heimild til að innheimta söluskattinn rennur út, að fella þann skatt niður.

7. brtt. er við 11. gr., um framleiðslugjaldið, og er gr. þess efnis, að af afla þeim, sem nýju togararnir leggja hér upp, öðrum en síld, skuli taka 10% gjald samkv. ákvæðum gr., en í brtt. okkar er gert ráð fyrir, að þetta gjald verði því aðeins innheimt, ef viðkomandi togari hefur haft rekstrarhagnað. Mér skildist á hv. frsm. meiri hl. fjhn., að meiri hl. hefði til athugunar að mæta fram komnum óskum um þetta efni og mundi e.t.v. flytja um þetta brtt. við 3. umr. Sé svo, get ég tekið þessa brtt. aftur til. 3. umr.

8. brtt. er við 12. gr., þ.e.a.s. stóreignaskattinn, sem leggja skal á samkv. frv. 1. liður fjallar um það, hverjar reglur skuli hafa um mat fasteigna til skatts, en samkv. frv. er gert ráð fyrir, að fasteignir í Reykjavík séu metnar með 6-földu fasteignamatsverði, fasteignir í öðrum kaupstöðum með yfir 4.000 íbúa með 5földu fasteignamatsverði, fasteignir í bæjum með yfir 2000 íbúa með 4-földu fasteignamatsverði, enn annars staðar er reiknað með því 3-földu. Enginn vafi er á því, að með þessu móti yrði verðið að verulegu leyti undir sannvirði og sennilega langt undir því. Þá verður því ekki neitað, að þessi skipting eftir landshlutum er af handahófi. Ég sé ekki t.d., af hverju fasteign hér í Reykjavík á að margfaldast 6 sinnum, en aðeins 3 sinnum, ef hún er í Kópavogi eða úti á Seltjarnarnesi. Ég skal viðurkenna, að um þetta er erfitt að setja reglur, svo að vel fari, en ég tel, að miklu nær sönnu fari matsreglurnar í brtt. minni, en þær reglur, sem eru í frv., eins og það er nú. — Í b-lið brtt. við 12. gr. er gert ráð fyrir, að eignaraukaskatturinn hækki nokkuð, eða verði 35% af eign, sem fer yfir 2 millj., í stað 25% eins og frv. gerir ráð fyrir. Sömuleiðis gerir brtt. ráð fyrir, að skattstiginn verði nokkur annar eða fari meira stighækkandi, en áður var gert ráð fyrir. Ég held, ef ætlunin er, eins og látið hefur verið í veðri vaka, að þeir ættu að bera þyngstar byrðarnar, sem breiðust hefðu bökin, þá sé fjarri, að það markmið náist eins og ákvæði 12. gr. nú eru. Það má líka segja, að það markmið náist ekki heldur, þó að brtt. á þskj. 460 sé samþ., en það stendur þó sýnu nær. Ég vil benda á, að eftir þessum skattstiga á sá, sem er eigandi að 1 millj. kr. skattskyldri, að greiða 11% í skatt, og þessi skattur skiptist á 20 ár. Sé skattskylda eignin 1.400 þúsund, þá á eigandinn að greiða 204 þús. kr. í skatt, eða 15%. Sé eignin 2 millj., á eigandinn að greiða 388 þús. kr., eða 19,4%, sem er tæpur fimmti hluti af eigninni. Ég hygg, að sé það alvara að leggja þyngstu byrðarnar á breiðustu bökin, þá sé ekki hægt að ganga skemmra, en hér er lagt til. Þess ber líka að gæta, að verulegur hluti af þessum skatti kemur aftur til eigendanna vegna hækkunar, sem verður á fasteignum, þegar l. þessi taka gildi.

Í þessu sambandi vil ég drepa aftur á atriði, sem ég minntist á í dag, en það er, að eignaraukaskatturinn skyldi vera felldur niður í sambandi við þetta frv., og það án þess að nokkrar skýringar fengjust á því, hvort slík breyting hefði í för með sér hækkun eða lækkun á eignarskattinum. Ég er ekki fær um að gera mér grein fyrir, hvort hækkun sú, sem gerð var á eignarskattsákvæðum frv., nemur meiru til hækkunar, en eignaraukaskatturinn hefði orðið. Hitt er þó vitað, að sá skattur átti að vera 25 þús. kr. af 400 þús. kr. eignarauka og 15% af afganginum. Að vísu var þessi skattur ekki af öllum eignum, heldur aðeins þeim, sem til hafa orðið eftir 1940. Af 1 millj. átti að greiða 145 þús. kr., eða nokkru hærra en skv. till. okkar á þskj. 460, og væri eignaraukinn meiri en 1 millj., átti að greiða af honum 30%, en samkv. frv. er hæsti skatturinn 25%, og það af upphæð, sem er yfir 1,5 millj. Ég get ekki sagt um, hvað mikill hluti af eignum manna mundi hafa fallið undir ákvæði eignaraukaskattsins, en hitt er víst, að á síðustu 10 árum hefur mikill auður dregizt til einstakra manna, og áreiðanlega er það stór hluti af eignum margra: Ég verð því enn að lýsa undrun minni á því, að svo veigamikil breyting skuli hafa verið gerð á frv. sem niðurfelling eignaraukaskattsins er, án þess að nokkrar skýringar, hvað þá tölfræðilegar niðurstöður, hafi verið gefnar um þá breytingu, sem þetta hefur í för með sér. Ég skal að vísu fúslega játa, að það er ekki skemmtilegt að innheimta tvenns konar eignarskatt í einu, en með því að miða við visst hámark, sem báðir skattarnir fylgdu, hefði mátt sníða mestu vankantana af þeirri innheimtu. Ég get ekki gefið upplýsingar, hvað þessi breyting á skattinum í Nd. hefur í för með sér, en þrátt fyrir það tel ég mikla ástæðu til að gagnrýna þá málsmeðferð, þar sem ekki hefur verið gerð nein tilraun til að skýra, hvað sú breyting þýddi.

C-liður 8. brtt. okkar er við síðustu mgr. 12. gr. og fjallar um, hvernig skipta skuli því fé, sem skatturinn nemur. Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að öðrum helmingnum verði varið til að greiða lausaskuldir ríkissjóðs, en hinum helmingnum til byggingarsjóðs verkamanna og byggingar- og landnámssjóðs, í sömu hlutföllu,m og bráðabirgðaákvæði um gengishagnaðinn gera ráð fyrir. Brtt. okkar fjallar um, að 2/3 af þessum helmingi renni til byggingarsjóðs verkamanna, en 1/3 til bygginga í sveitum. Það þarf ekki að endurtaka rökin fyrir þessari brtt. Þau eru hin sömu og um bráðabirgðaákvæðið um ráðstöfun á gengishagnaðinum. En til viðbótar má geta þess, að enda þótt 2/3 hlutar þessa fjár renni til kaupstaða og kauptúna, þá er samt betur séð fyrir hlut sveitanna, miðað við fólksfjölda.

9. brtt. á þskj. 460 er sú, að aftan við 14. gr. komi ný ákvæði um persónufrádrátt. Hér er lagt til, að í stað 900 kr. frádráttar frá tekjum, áður en skattur er lagður á, komi 1.500 kr. fyrir einstakling. Í stað 1.800 kr. fyrir hjón komi 3.000 kr., og heimilað verði að draga 1.200 kr. frá fyrir hvert barn. Þessi breyting svarar til, að frádrátturinn svari lágmarkslífeyri eftir almannatryggingal., eða því sem næst. Lífeyririnn er nú 1.200 kr. á fyrsta verðlagssvæði, en verði heimild sú, sem nú hefur verið gert ráð fyrir að lögfesta, samþ., hækkar hann um 20%, eða upp í 1.440 kr., en hér er gert ráð fyrir 1.500 kr., og samsvarandi er um hjón og börn. — Ég skal svo láta máli mínu lokið, en vil leyfa mér að vona, að þessar brtt. verði samþ. og þannig gengið til móts við launþegasamtökin.