18.03.1950
Efri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Við þessa umr. hefur meiri hl. fjhn. fallizt á að flytja 3 brtt. við frv. það, sem nú liggur hér fyrir til umr. Tvær af þessum brtt. eru fluttar samkv. ósk hæstv. ríkisstj., og skilst mér, að tilgangurinn með þeim, þ.e. 1. og 2. brtt. á þskj. 461, sé að ganga til móts við óskir, sem hafa komið fram í umr. hér í þinginu, um þau atriði, sem þær fjalla um. Það má deila um það, hvort rétt sé að fella niður 2. gr. frv., og telur meiri hl. n. það álitamál, en vildi ekki færast undan að flytja þessa till., úr því að hæstv. ríkisstj. fór þess á leit, enda kemur það í hennar hlut að framkvæma lögin. Enn fremur flytur meiri hl. n. till. á sama þskj. undir tölul. 3, um nýja grein, sem hljóðar eins og þar segir. Þetta er til þess flutt, að í þeim tilfellum, er samningar kunna að hafa verið gerðir um kaup eða sölu innanlands, þannig, að skuld skyldi hækka, ef gengi krónunnar lækkar, þá skuli slíkt samningsatriði vera ógilt. Er þessi brtt. flutt í því skyni. Verði þessi till. samþ., losnar skuldunautur undan slíkri kvöð, þó að hann hafi orðið að gangast inn á slíkt út úr neyð á sínum tíma í sambandi við lántöku út af slíkum kaupum. Ég tel svo ekki þörf að skýra þetta frekar.

Meiri hl. n. bárust till. um fleiri breytingar, sem hún taldi sér ekki fært að taka upp. Hitt tel ég að liggi ljóst fyrir, að einstakir menn í meiri hlutanum geti greitt öðrum till. atkv. eða flutt þær, án þess að það geti talizt ásökunarvert. Þar sem brtt. þær, sem fram eru komnar, hafa áður verið ræddar og þar sem getur verið, að fleiri brtt. komi fram, sem ég þarf að ræða, hef ég ekki fleira að segja nú og læt þetta nægja að sinni.