18.03.1950
Efri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég hef ekki tekið þátt í umr. um þetta mál til þessa, en tel rétt að segja nokkur orð um frv., áður en það verður afgreitt að fullu hér í þinginu, en það mun fara nærri því, að komið sé til úrslita með það hér í Alþ. Ég skal taka það fram almennt um málið, að ég hef um langt skeið verið þeirrar trúar, að ekki væri um aðra leið út úr öngþveitinu að ræða en leiðrétta skráningu ísl. krónunnar, eins og gert er í þessu frv. Það þarf ekki frá því að segja, að varla muni nokkrum þm. eða þegni þjóðarinnar vera ljúft að fara þessa leið, en þetta er neyðarúrræði, sem ekki er farið inn á nema nauðsyn krefji. Ég hef sannfærzt um það í umr. í báðum d. þingsins, að allir þm. eru sammála um, að ekki sé um aðra leið að ræða. Og þó að brtt. hafi verið bornar fram við frv. og ágreiningur hafi orðið um það, hvað í frv. ætti að standa, þá hefur stjórnarandstaðan ekki getað bent á neina færa leið, ef skráningu gengisins yrði ekki breytt. Þó að stjórnarandstaðan tali um opnun nýrra markaða, þá hefði verið hægt að losna við þessa breytingu á skráningu gengisins, ef nógu hátt verð hefði fengizt, en slíkt er ekki hægt, eins og nú er ástatt. Það hefur verið bent á fleira, eins og t.d. landsverzlun af Alþýðuflokksmönnum. Það má auðvitað deila um fyrirkomulag á verzluninni, sumir vilja, að einstaklingar hafi hana með höndum, aðrir félög og enn aðrir að ríkið reki hana. Um þetta hafa oft orðið háværar deilur hér í Alþ., en það snertir ekki kjarna þessa máls, því að við björgum ekki útflutningsverzluninni með því eingöngu. Ég vildi aðeins taka þetta fram um málið almennt við þessa umr. En ég vildi einnig segja örfá orð af hálfu ríkisstj. um brtt. þær, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. hefur nú lýst.

Stjórn Alþýðusambands Íslands hefur rætt þetta mál við ríkisstj. undanfarna þrjá daga í fullri vinsemd, þó að andstæðar skoðanir hafi komið fram og báðir aðilar hafi haldið á sínu máli af fullri festu. Það var tekið fram, þegar ríkisstj. tók við völdum, að hún vildi hafa sem bezt samkomulag við verkalýðssamtökin í landinu, og hefur ríkisstj. nú rætt þetta mál allýtarlega við Alþýðusambandið, til að kynna sér kröfur verkalýðsins í þessum efnum. En niðurstaðan varð sú, að ríkisstj. sá sér ekki fært að ganga til móts við kröfur A.S.Í. sem bar fram kröfur, sem höfðu verið samþ. á nýafstöðnum fundi þess, nema að nokkru leyti. En með 1. og 2. brtt. á þskj. 461 telur ríkisstj. sig ganga nokkuð til móts við þann vilja, sem kom fram hjá Alþýðusambandinu. Það kom í ljós, að það var allmikill þyrnir í augum verkamanna, ef 2. gr. frv. stæði svo áfram. Mörgum innan ríkisstj. var óljúft að breyta því ákvæði, sem í henni felst, svo sem nú er gert, en þó var það gert til samkomulags, en svo virtist sem A.S.Í. teldi, að í henni fælist kaupbinding.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þessar brtt. frekar, þar sem það hefur þegar verið gert, en vil geta þess, að stjórn A.S.Í. óskaði eindregið eftir því, að lækkaðir yrðu skattar á lægstu tekjunum, en ríkisstj. sá sér ekki fært að taka ákvæði um það inn í þetta frv. Hins vegar vil ég lýsa því yfir fyrir hönd ríkisstj., að hún mun athuga þetta með velvilja, hvort ekki sé hægt að koma til móts við fulltrúa A.S.Í. í þessum efnum. Ég vil taka það fram, að hér er ekki um neitt loforð að ræða í þessum efnum frá minni hálfu eða ríkisstj., en það er vilji fyrir hendi til að athuga, hvað hægt er að gera í þessum efnum. Ég skal taka það fram, að ríkisstj. hefur gert þessar breyt. á frv., sem hér um ræðir, í því trausti, að þá verði sýnd meiri viðleitni af verkalýðnum til að gera ekki róttækar ráðstafanir fyrr en séð er, hvernig þessar ráðstafanir, sem hér eru gerðar, gefast.

Ríkisstj. vill hafa sem bezta samvinnu við launastéttirnar í landinu og fulltrúa þeirra, og ég er sannfærður um það, að það er heppilegast fyrir hvern þjóðfélagsborgara, að sem mest ró sé um þetta mál nú fyrst um sinn a.m.k., því að það er augljóst, að ef stöðvun verður í verzlunar- og atvinnumálum, þá orsakar það atvinnuleysi og minnkandi tekjur, sem kemur ekki hvað sízt hart niður á verkalýðnum. — Þá get ég tekið það fram út af kjörum námsmanna erlendis, að í Nd. a.m.k. hefur komið fram till. um að verja nokkru af gengishagnaðinum til að standa undir með þeim. Ríkisstj. taldi ekki rétt að setja ákvæði um þetta inn í frv., en ég get lýst því yfir fyrir hennar hönd, að það þarf að gera eitthvað fyrir þetta fólk, sem tekur á sig miklar byrðar með þessu. Ríkisstj. mun því gera eitthvað fyrir þetta fólk, þó að það sé ekki ákveðið í frv. Ég mun svo ekki ræða þetta frekar í bili.