18.03.1950
Efri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil láta þess getið að gefnu tilefni, að stjórnin lítur svo á, að hvalkjöt, sem liggur hér í landinu og aflað var á s.l. ári, komi ekki undir það framleiðslugjald, sem frv. gerir ráð fyrir. Reynzt hefur nær ógerlegt að selja kjötið, og Hvalveiðifélagið hefur haft mjög óhagstæðan rekstur, og það er ekki tilgangur laganna að skattleggja taprekstur.

Út af fyrirspurnum frá hv. 4. landsk., sem hann beindi til mín, og tæpti jafnvel á, að mér kynni að vera kunnugt um það, að þeir verzlunarhættir, sem hann ræddi um, tíðkuðust í mínu eigin „firma“, þá vil ég taka fram, að mér er ókunnugt um það, sem hann fer með. (StgrÁ: Telur þá hæstv. ráðherra ekki ástæðu til að rannsaka, við hvað ummæli hagfræðinganna hafa að styðjast?) Ég tel ekki ástæðu til að svara því hér.