18.03.1950
Efri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þykist sjá fram á þær undirtektir hér í þessari hv. d. og sérstaklega hjá hv. meiri hl. fjhn., að engin von er til þess, að hann vilji hverfa frá að breyta grundvelli vísitölunnar, hann sé einráðinn í að taka með í hana húsaleigu í nýjum húsum og einnig hærra kjötverð, m.ö.o., auka hinn innlenda hluta vísitölunnar og draga þar með úr hækkun vísitölunnar vegna erlendra vörutegunda, lækka uppbæturnar frá því, sem orðið hefði, ef gamla vísitalan — hefði verið látin haldast. Ég harma þetta. En staðreynd er það engu að síður. Ég hef því leyft mér að semja skriflega brtt. við 7. gr. frv., og vil ég biðja hæstv. forseta að bera hana upp að felldum brtt. okkar hv. 6. landsk. á þskj. 460. En hún hljóðar svo:

„Við 7. gr. Fyrir orðin „desembermánuð 1950“, „janúar 1951“, „janúar 1951“, „júníloka 1951“, „júní 1951“, „júlí 1951“ og „1. ágúst 1951“ í 3.–5. málsgr. kemur í sömu röð: október 1950, nóvember 1950, nóvember 1950, aprílloka 1951, apríl 1951, maí 1951, 1. júní 1951.“

Ég býst við, að hv. þdm. skilji þetta ekki. Skal ég geta þess, að efni gr. er, hve langur tími skuli líða frá 1. júli þar til kaup hækkar næst samkv. vísitölu. Gert er ráð fyrir í frv., að það líði 6 mánuðir. Ekki er þó lengra gengið í brtt. minni en það, að launin séu greidd út fyrir nóvember 1950 í stað janúar 1951 skv. vísitölu fyrir októbermánuð 1950, en ekki desembermánuð. Breytast þá aðrar viðmiðanir skv. þessu. Ég hygg, að í ljós eigi að vera komið í júnímánuði, hver hækkunin verði á erlendum vörum. Fullvíst er, að í septembermánuði verði verðhækkun á innlendum varningi dunin yfir. Þá hækkun álít ég verða munu óbætta til janúarmánaðar 1951. En hér er gert ráð fyrir, að launabótin verði fyrst greidd fyrir nóvembermánuð þ. á. Verð ég að segja, ef hv. meiri hl. fjhn. sér, sér ekki fært að mæla með þessu, þá sýni hann óbilgirni. Það hefur ævinlega komið verðhækkun í ljós í septembermánuði. Þykir mér þá býsna langt gengið, ef svipta á launastéttirnar öllum tilsvarandi launahækkunum. Mælist ég því til, að hv. þdm. sjái, hver ósanngirni sé að ætla mönnum að bíða lengur hærri launagreiðslna, en til nóvembermánaðar sama haust. Ég geri því ráð fyrir, að hv. þdm. komi auga á, hvað hér er um að ræða. Till. er samin af skrifstofustjóra Alþ. Ég get fullvissað hv. þdm. um það, að meining till. er góð, en hún er sú, að hraða uppbótagreiðslunum um tvo mánuði.

Þras kom fram um það í umræðunum, og það var einnig rætt af fulltrúum verkalýðssamtakanna, að Dagsbrúnarkaupgjald, sem miðað er við í öllum till. og undirbúningi frv., gildir ekki alls staðar. Allvíða eru laun verkafólks talsvert lægri, en hér í Reykjavík. Skv. 7. gr. frv. eru skilyrði launahækkunar skv. þeirri gr., „að launagreiðslur hækki ekki af öðrum ástæðum, en lög þessi mæla, frá því sem þær voru 31. janúar 1950 eða samkvæmt síðasta gildum kjarasamningi fyrir þann dag.“ Ef því verkalýðsfélög knýja fram launahækkun eftir það, fellur niður sá réttur til uppbótargreiðslna, sem þeim er ákveðinn í frv., eins þótt í hlut eigi verkalýðsfélög, sem hafa lægra kaupgjald, en í frv. er miðað við, og hækkunin næmi ekki svo miklu, að kaupgjaldið næði því, sem nú er hér í Reykjavík. Hef ég því leyft mér að semja brtt. við þetta ákvæði 7. gr. frv., og hljóðar hún svo: „Aftan við greinina [þ.e. þá, sem bannar þessar launahækkanir] bætist nýr málsliður, þannig: Þetta ákvæði tekur þó ekki til verkalýðsfélaga, sem ekki hækka grunnkaup sitt meira en svo, að það nemi kr. 3.08 fyrir karla og kr. 2.20 fyrir konur“, m.ö.o.: kaupgjald þetta fer ekki fram úr því, sem nú er hér í Reykjavík og miðað hefur verið við í undirbúningi l. Færi svo, að hv. þdm. gætu ekki á þetta fallizt, hef ég leyft mér að setja upp til vara þessa till.: „Þetta ákvæði tekur þó ekki til verkalýðsfélaga, sem ekki hækka kaup sitt meir en svo, að það samsvari vegnu meðaltali af grunnkaupi allra félaga ófaglærðra verkamanna og verkakvenna í landinu.“ Það virðist svo ósanngjarnt, að svipta skuli félag uppbótum á laun af þeim sökum einum, að það hafi fengið kaupgjald sitt hækkað, þó að sú breyting á launum sé ef til vill aðeins gerð til að ná meðaltali af grunnkaupi verkalýðsfélaganna.

Vil ég þá leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessar brtt. báðar.