18.03.1950
Neðri deild: 70. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að ræða frv. almennt, aðeins minnast á eitt atriði, en það er í 11. gr., að 10% gjald á að taka af afla þeim, sem nýsköpunartogararnir leggja upp hér, öðrum en ísfiski. Ýmis útgerðarfélög, bæði einstaklinga og bæjarfélaga úti á landi, eru ný af nálinni og hafa orðið að taka lán til togarakaupanna, og þetta gjald er því mjög varhugavert vegna fjárhags þeirra, og væri hyggilegra að taka prósentugjald upp í skuldir þessara félaga, því að það verður ekki tekið út úr rekstri þeirra, en kæmi þeim að gagni til að tryggja reksturinn í framtiðinni. Ég hef fengið skeyti frá útgerðarfélagi míns kjördæmis með eindregnum tilmælum um það, að þetta 10% gjald verði fellt niður, ef um taprekstur er að ræða, og slík tilmæli munu fleiri hv. þm. hafa fengið úr sínum kjördæmum. Nú hafa komið fram í hv. Ed. yfirlýsingar frá hæstv. viðskmrh. og hæstv. utanrrh. um það, hvernig ríkisstj. ætlaði sér að innheimta þetta gjald, og bar hæstv. ráðh. ekki saman. Hæstv. viðskmrh. mun hafa sagt, að ekki væri meiningin að innheimta gjaldið í því tilfelli, að um taprekstur væri að ræða, en hæstv. utanrrh. mun hins vegar hafa sagt, að fella ætti niður gjaldið, ef um almennan taprekstur væri að ræða, en ekkert tillit yrði tekið til einstakra togara. Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., hver sé skoðun hæstv. ríkisstj. á þessu, og óska ég þess, að skýrt liggi fyrir, hvort ríkisstj. ætlar að innheimta gjaldið skv. skýringu hæstv. viðskmrh. eða skv. skýringu hæstv. utanrrh. Þetta skiptir miklu máli að fá strax að vita. Hins vegar tekur brtt. hv. 2. þm. Reykv. af öll tvímæli um þetta, enda er eðlilegast, að ákvæðin séu svo skýr, að þau þurfi ekki skýringar við, heldur viti allir, að hverju sé verið að ganga. Vil ég sérstaklega beina þessu til hæstv. forsrh. og vænti skýrra svara.