18.03.1950
Efri deild: 78. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég gæti vel sætt mig við, að brtt. sú frá 4. landsk., sem hér hefur verið leitað afbrigða fyrir, næði fram að ganga, og tel, að hún stefni í rétta átt. Hins vegar heyrði ég eftir hæstv. atvmrh., að stj. hefði ekki kjark til þess að verða við slíkum óskum, jafnvel þó að hann viðurkenndi, að þær gengju í réttlætisátt. Við 4. þm. Reykv. höfum flutt till. um, að verkalýðsfélögum væri heimílt að hækka kaup sitt upp í vegið meðaltal, eins og það er hjá Alþýðusambandinu. Þessi réttlætistill. var felld. Ef eins færi nú um till. 4. landsk., þá vil ég leyfa mér að bera upp aðra till., sem fjallar að vísu um sama efni, en er afmarkaðri, og í sambandi við hana held ég að það sé óþarfi hjá hæstv. ríkisstj. að vera hrædd við að gera það, sem rétt er, og að mínu áliti er ríkisstj. nauðulega stödd, ef hún treystir sér ekki til að samþ. slíkt réttlætismál. Þessi till. mín er á þá leið, að við 6. gr. bætist ný mgr., þess efnis, að ákvæði greinarinnar nái ekki til þeirra félaga innan Alþýðusambandsins, sem hafa ekki kr. 2,90 í grunn fyrir karla og kr. 2,10 fyrir konur, þ.e.a.s., að þessi félög megi hækka kaup sitt í þetta hámark án þess að missa vísitöluuppbót. Ég tel, að þessu sé svo í hóf stillt, að hæstv. ríkisstj. ætti ekki að þurfa að hræðast þessa breytingu. Eins og kunnugt er, hafa nokkur félög innan Alþýðusambandsins ekki nema kr. 2,60 í grunn. Hins vegar er kaup Dagsbrúnarverkamanna nú kr. 3,08 í grunn, eða 9,24 kr. um klst., en aðeins 7,60 kr. hjá hinum. Þetta er allverulegur munur á kaupi, og hætt við, að þessu fólki gangi erfiðlega að bjargast, þegar verðhækkanir gengisbreytingarinnar skella á. Það eru heldur ekki nema tiltölulega fá félög, sem þannig stendur á um, og eru sennilega í þeim innan við 1.000 félagar. Ef hæstv. ríkisstj. getur ekki fallizt á þessa sanngirnistill., þá finnst mér hún veita litla viðurkenningu því fólki, sem hefur sýnt atvinnulífinu þá hollustu að heimta ekki hærri laun. Eða á að launa slíka hollustu við atvinnulífið með því að banna þessu fólki með lögum að fá leiðréttingu, miðað við annað launafólk, og skammta því á þann hátt um 400 kr. minni mánaðarlaun, en öllum öðrum launþegum, hvort sem mögulegt verður að lifa á slíkum launum eftir gengislækkunina eða ekki? Ég sé heldur ekki, að samþykkt þessarar till. þurfi að hafa í för með sér neinar frekari hækkanir, þar sem hún miðar aðeins við, að hækkunin megi nema því, að launin komist upp í 2,90 í grunn, á meðan t.d. Dagsbrún hefur 3,08 kr. í grunn. Það losar áreiðanlega ekki neinn stein í þeirri byggingu, sem heitir ríkissjóður.