18.03.1950
Efri deild: 78. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skil það, að heimilisástæður ríkisstj. hæstv. eru ekki vel góðar, þar sem hún er ekki við því búin að hafa fund í sameinuðu þingi, og vil ég því taka þetta fram:

Þessi skriflega brtt. mín var borin hér fram án nokkurs samráðs við stjórn Alþýðusambands Íslands, og hún er að efni til fyrir neðan það lágmark, sem Alþýðusambandið hafði fallizt á. Ég bar því fram þessa till. að föllnum þeim kröfum, ef með því móti fengist einhver leiðrétting handa þeim félögum, sem eiga við lægst kaup að búa. Ég vil því taka það fram, að ég lít svo á, að í loforðum hæstv. forsrh. fellst ákveðið loforð um það, að stj. muni ekki fara skemur í leiðréttingu sinni en felst í till. minni. Hæstv. forsrh. sagði, að með þessu væri ekki verið að gefa nein loforð af sinni hálfu um meira, en farið er fram á í þessum lágmarkskröfum. Ég vænti þess, að niðurstaðan verði sú, að leiðréttingin verði að minnsta kosti eins mikil og felst í þessari brtt., og að því leyti komið til móts við kröfur Alþýðusambands Íslands. Ef treysta má því, að í orðum hæstv. forsrh. felist loforð um leiðréttingu, er jafngildi því, sem í till. minni felst, get ég tekið brtt. mína aftur.