08.12.1949
Efri deild: 9. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

53. mál, eignakönnun

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég þakka hv. 1. þm. N-M. (PZ) fyrir þá kurteisi að undanskilja mig þeim, sem hann vændi um að vilja draga fjöður yfir skattsvik, enda hef ég ekkert gert, sem bendir á, að ég sé þess sinnis.

Það urðu allmiklar umr. um eignakönnunarlöggjöfina, þegar þau l. voru sett, og mér virðist, að það hafi orðið vart við tvær stefnur í því máli. Önnur var sú að ganga allhart fram og láta löggjöfina beinast a.m.k. ekki sízt að því að hegna mönnum fyrir slík skattsvik. Hin leiðin var sú að taka heldur vægilega á því, sem má kalla skattsvik eða undandrátt, og beina meira athyglinni að hinu, að gefa mönnum tækifæri til að koma skattamálum sínum á hreinan grundvöll og þá með það fyrir augum, að þeir ættu hægara með framvegis að telja rétt fram, en að liggja með eitthvað árum saman, sem væri þeim til trafala og gerði þeim ekki fært að hafa skattaframtöl sín í lagi.

Ég held, ef litið er hlutlaust á l., eins og þau eru, þó að ekki sé tekið tillit til umr., að þá komi í ljós, að löggjafinn hefur samið l. þannig, að það er ekki hægt að segja, að það sé hart fram gengið gagnvart þeim, sem hafa dregið undan. Þessi stig eru tilgreind þannig, að það er gert ráð fyrir, að menn borgi skatt, en þó ekki eiginlega refsiskatt. Andi löggjafans virtist mér vera sá að ganga meira í þá átt að fara ekki í of harðan reikning við menn fyrir smávægilegan undandrátt. Síðan l. hafa komið til framkvæmda, hefur því talsvert verið hreyft í ræðu og riti, og það hefur a.m.k. verið bent á það, að margir þeirra, sem hafa lagt til hliðar smávægilegar upphæðir, það hefur verið talað um gamalt fólk, sem hafi gleymt að telja fram lítils háttar upphæðir, þó að l. hafi verið mild, samanborið við þau skattalög, sem við eigum við að búa að öðru leyti og sérstaklega samanborið við vilja margra hv. þm., þegar þessi l. voru sett. Ég veit ekki, hve mikil brögð eru að því, að skattundandráttur minni en 45 þús. kr. hafi vitnazt, en þegar fram yfir það kemur, situr allt fast og skattanefndin veit ekki, í hvorn fótinn hún á að stíga, og vill hafa tryggan bókstaf um þetta. Skiptar skoðanir eru um það, hvort setja beri þetta allt á eitt ár, eins og hv. 1. þm. N-M. vill, eða jafna því á fleiri ár, eins og skattan. vill. Ég fyrir mitt leyti hallast að þeirri leiðinni, sem er öllu vægari í garð skattgreiðenda, þó að segja megi, að þetta sé þeirra eigin sök, og ekki vegna þess, áð ég hafi tilhneigingu til að breiða yfir skattsvik, en ég veit, að ekki er síður ástæða til að mæla með þessu, þar sem aðalskattheimtumaður ríkisins hefur tjáð mér, að nú beri mjög á því, hve menn eigi erfiðara með að greiða gjöld sín, en verið hefur undanfarið, og eru það sérstaklega atvinnurekendur, sem eiga nú erfiðara með slíkt en áður.

Það er ekki þörf langrar umr. um þetta mál, en ég hef nefnt ástæðuna fyrir því, að frv. er komið fram og að rn. hefur fallizt á það, og loks vil ég benda á það, að þrátt fyrir hörku hv. 1. þm. N-M. þá virðist innheimtuskoðun hans ekki falla saman við skoðun skattstjóra og framtalsnefndar. Ég mun kappkosta, að hv. n. fái í hendur frá rn. þau rök, sem ég minntist á áðan, frá skattstjóra, til þess að auðveldara verði að átta sig á málunum.