24.02.1950
Efri deild: 60. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

53. mál, eignakönnun

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Fjhn. leggur til, að þetta frv. verði samþ., þó þannig, að 1. gr. orðist um, eins og segir á þskj. 350.

Samkvæmt lögum um eignakönnun er ætlazt til, að eignaraukning umfram 45 þús. kr. skuli lögð við tekjur á því ári, sem hún myndaðist. Nú er í flestum tilfellum nær ókleift að komast að raun um, á hvaða ári tímabilsins undandregin eignaraukning hafi myndazt, og er því lagt til í frv., að henni sé skipt niður á 5 ár, 1942–1946. Skatturinn skal aðeins nema 15% af hinni undandregnu eign fyrir allt tímabilið.

N. hefur kynnt sér, að það muni vera rétt, að oft sé nær ómögulegt að ákveða, á hverju þessara fimm skattára undandregin eignaraukning hafi myndazt. Hún telur lágmarkið, 15%, sem er hið sama og í l. skal greiða af 35–45 þús. kr. undandreginni eign, hún telur það lágmark of lágt og aðeins hugsað sem ívilnun til þeirra, sem lítið hafa dregið undan. N. hefur því lagt til, að lágmarkið verði hækkað upp í 20%, ef undandreginn eignarauki er 45–60 þús. kr., og upp í 25% af því, sem þar er umfram.

Jafnframt vill n. breyta öðru, og það er, að ekki skuli ákveðin sú regla að jafna undandreginni eignaraukningu niður á 5 ár, nema ekki sé hægt að segja um það, á hvaða ári hún hefur myndazt.

N. er þá sammála um að mæla með því, að þetta frv. verði samþykkt með þeim brtt., sem hún ber fram á þskj. 350. Á þann hátt telur hún, að við megi una. Rétt þykir þó að taka fram, að búið mun að reikna út skattinn utan Reykjavíkur samkvæmt þeirri reglu, sem lagt er til í frv., að upp verði tekin. Mun henni hafa verið fylgt við álagningu skattsins, og má því búast við, að leggja þurfi á að nýju.