25.02.1950
Efri deild: 61. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

53. mál, eignakönnun

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins taka það fram út af því, sem hv. frsm. ræddi um í sambandi við till. mína í umr. í gær, að hún miðar ekki á neinn hátt að því að lækka byrðina hjá þeim, sem hafa dregið undan skatti; síður en svo. En ég vil aðeins láta það koma fram, að það er mjög óviðfelldið, þegar um svo fá tilfelli er að ræða sem hér er, að fara nú löngu síðar að raska því öllu, sem áður hefur verið samþ., og reikna með öðrum prósentum en upphaflega var ráð fyrir gert, og er till. mín byggð á þeirri skoðun. Þessi till. er um það, að í stað 20% á þskj. 350 komi 15% og í stað 25% komi 20%. (ÞÞ: Á hvaða þskj. er þessi till., eða er hún skrifleg?) Nei, till. er aðeins munnleg, ég beindi því til hv. frsm., að n. athugaði milli umr., hvort ekki væri rétt að breyta þessu þannig, að í stað 20% kæmi 15% og í stað 25% kæmi 20%, en annars er ég efnislega samþ. till. n. á þskj. 350 og að öðru leyti till. sjálfri. En mér finnst bara óviðfelldið að vera að setja núna aðra prósenttölu. — Hv. frsm. lagði á það megináherzlu, að með þessu væri verið að gera aðstæður skattþegnanna betri. En ég vil benda á það, að það var það, sem l. gerðu upphaflega. Það var þá viðurkennt, að skattalögin væru óviturleg, svo að menn neyddust til þess að gefa upp sóknina og fara inn á þá braut, sem þau gera ráð fyrir, og svo er þetta frv. aðeins áfram ald á þeim. Það var sem sagt viðurkennt af löggjafanum, að það hefði verið farið svo langt í skattal.; að það hefði orðið að viðurkenna það með því að fara inn á þessa braut, sem ég gat um, og ég sé ekki neina ástæðu fyrir frsm. fjhn. að fara að snúa af þeirri braut. Þetta er alls ekki sagt til þess að vernda þá, sem dregið hafa undan skatti, eins og hv. þm. geta sagt sér sjálfir. Ég get ekki sagt annað en kaldar staðreyndir. Að endingu vil ég svo vænta þess, að hv. n. sjái sér fært að breyta þessum tölum, sem ég gat um áðan, 20% í 15% og 25% í 20%, í samræmi við það samkomulag, sem varð á milli ríkisstj. og framtalsnefndar.