28.02.1950
Efri deild: 65. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

53. mál, eignakönnun

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef áður bent á orsakir fyrir brtt. minni á þskj. 372 og benti þá á, að eftir 17. gr. er gerður greinarmunur á því, hvort tekjuundandrátturinn hefur orsakað eignaraukningu fyrir eða eftir 1940. Eins og þetta frv. er nú á þskj. 365, gerir það Akki ráð fyrir, að þessi greinarmunur 17. gr. hafi nein áhrif á þá eignaraukningu, sem ekki hafa veríð gerð full skil á, heldur verði þeirri aukningu skipt jafnt á skattárin 1942–46. Þetta tel ég, að ekki nái nokkurri átt, og þess vegna er brtt. á þskj. 372 fram komin, en þar er lagt til, að sá eignarauki, sem til hefur orðið fyrir 1. jan. 1940, skuli skiptast á árin 1936–40. Ég var í vafa um, hvort ég ætti að láta þessa till. koma fram sem nýja grein, en taldi þó við nánari athugun, að rétt væri að hnýta henni aftan við gr. Ég er nú ekki mikið fyrir að hlífa þeim, sem dregið hafa undan skatti, en hins vegar tel ég ekki ná nokkurri átt að bæta tekjuauka, sem til hefur orðið fyrir 1940 og valdið þá eignarauka, við tekjur áranna eftir 1942 og reikna eignarauka þann sem viðbótartekjur þau ár. Mér finnst eðlilegt, að sá eignarauki, sem til hefur orðið fyrir 1940 á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, verði skattlagður sem viðbótartekjur áranna 1936–40, og við það er brtt. mín miðuð.