28.02.1950
Efri deild: 65. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

53. mál, eignakönnun

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég tel rétt, að ég upplýsi það vegna brtt. hv. þm. Barð. (GJ), sem hann flytur við þetta frv., að frásögn hans um það, hvernig þetta mál hefði borið að í fjmrn. á meðan ég var þar, er rétt. Það var ekki heldur einungis vegna þess, að þetta frv. var borið fram nú, heldur var frv., sem var samhljóða þessu, borið fram á síðasta þingi samkv. till. og með hliðsjón af till. eignakönnunarnefndarinnar, eða framtalsnefndarinnar, og tilgangurinn var sá, að fá Alþingi til þess að skera úr um framkvæmd 3. mgr. 17. gr. l. nr. 67 5. júní 1947. Þar er í l. ákvæði, sem óljóst er um, hvernig með skyldi fara, þegar upphæðin, sem undan væri dregin, næmi meir en 45 þús. kr. Ákvæðin eru skýr upp að því, en síðan eru þau óljós í l. Framtalsnefndin hélt þessu fram, en rn. féllst á þann skilning og lét framtalsnefndina framkvæma þetta í anda lagasetningarinnar, sem hér var um að ræða. Hins vegar mátti búast við því, að úrskurður rn. væri vefengdur og mál yrðu höfðuð út af honum, en þegar slík mál koma fyrir dómstólana, þá vill það oft verða tafsamt og kostnaðarsamt. Var því framkvæmdin á sandi byggð, nema úrskurðurinn yrði staðfestur með viðbótarlöggjöf, sem túlkaði þann skilning á ákvæðum l., en sá skilningur var eins og gr. er orðuð í stjfrv., þegar það var lagt fram. Þetta var gert á síðasta þingi, en málið fékk þá ekki betri hljómgrunn en svo, að það var fellt í hv. Nd., og einn helzti maður Framsfl. þar sagði eftir á, þegar honum var leitt fyrir sjónir, hvílíka skemmd þar var um að ræða, að hann hefði ekki fyllilega gert sér ljóst, hvað hér var um að ræða. Ég held, að svo hafi verið með fleiri, sem snerust andvígir gegn þessari breytingu, að þeir hafi ekki kynnt sér málið nógu ýtarlega til þess að geta fellt um það réttlátan úrskurð. Hefur því þetta mál orðið fórnardýr þessa misskilnings. Framtalsnefndin beið þar til Alþingi kæmi saman á ný, en vakti þá aftur máls á þessu og stuðlaði að því, að ég færi aftur með málið í þingið. Í þessu sambandi vil ég geta þess, er talað er um, að eignakönnunin hafi ekki komið neitt verr við þá ríku, sem svo eru kallaðir, en þá fátæku, að okkar hugmynd var, sem að þessari lagasetningu stóðum, eða fyrrv. ríkisstj., að hér væri ekki verið að refsa fólki, heldur að stuðla að því, að hægt væri að ná sanngirni í skattlagningu þess fjár, sem menn höfðu fellt undan af vangá eða ásetningi í framtölum sínum til skatts, og gera síðan fólki fært að standa á hreinu með skattauppgjör sín. Þetta var tekið fram um tilgang lagasetningarinnar, enda var það viðurkennd staðreynd, að ýmsir höfðu talið misjafnlega fram og oft dregið undan af athugaleysi. Þess vegna var hér verið að gefa mönnum tækifæri til leiðréttingar á villu sinni, án þess að þeir væru dæmdir sekir um skattsvík og straffað fyrir. Að vísu voru ekki allir með þessu, að þessi leið yrði valin, heldur héldu þeir menn í þann rauða þráð, að menn skyldu hýddir fyrir vanrækslu í framtali. Slíkur var ekki andi þessarar lagasetningar, heldur var það tekið sem aðalatriði þessa máls að gefa mönnum tækifæri til þess að leiðrétta mál sín og gefa þeim þannig tækifæri til þess að koma fram sem heiðarlegir menn í framtíðinni. En þegar til framkvæmda kom á málinu og síðustu kosningar nálguðust, þá kom það fram, að blöð sumra manna, sem höfðu viljað vera harðhentir, fóru að tala um málið í nýjum dúr. Þá voru það ofsóknirnar á gamla fólkið, sem gleymt hafði að gera grein fyrir sparifjárbókum sínum o.s.frv. En einmitt þetta fólk, gamla fólkið, ætlaði löggjafinn ekki að hirta. Á lögunum var þessi hængur, sem framtalsnefndin hafði rekið sig á og hafði leitt af sér deiluefni, málaferli og opinberan kostnað í sambandi við það. Hængurinn, sem hér er á, er sá, að ekki er greint frá með berum orðum, hvort sá, sem dregur undan yfir 45 þús. kr., fær sömu meðferð og sá, sem er á hámarkinu 45 þús. kr. Framtalsnefndin hafði tilhneigingu til þess:að gera ekki stóran mun á þessu. - Ég vildi vegna ágreinings hv. nefndar og hv. þm. Barð. um hundraðstöluna gera grein fyrir tildrögum þessa máls og rifja upp aðdragandann til þess, að þetta mál var hér flutt. Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta, en fullyrði það, að höfuðatriðið er, hvort till. framtalsnefndarinnar nái samþykki eða till. fjhn. Þau atriði, sem hér um ræðir, eru skýrt mörkuð, en ég vil undirstrika sérstaklega, að það, sem felst í brtt. hv. þm. Barð. á þskj. 369, felur að öllu leyti í sér till. framtalsnefndarinnar og er að þessu leyti samhljóða þeim, þegar til framkvæmdanna kemur, og gerir að því leyti framtalsnefndinni fært að halda áfram störfum sínum. En af þessu leiðir, þar sem samkomulag er ekki fyrir hendi, að framkvæmdin heldur áfram í þeim farvegi. Leiðir það af sér, að ef breytt verður um hundraðstölu, eins og lagt er til í till. fjhn., þá búa þeir, sem eiga að búa við hækkandi skattprósentu, við annan og verri rétt en fjmrn. og framtalsnefndin höfðu fyrirhugað. Ég geri ráð fyrir, að með það fólk, sem rn. og n. eru þegar búin að afgreiða, þá hafi það verið gert í anda laganna sjálfra. Ég held, að fólk fari að verða leitt á rukkunarseðlum hins opinbera, ef því hefur verið gert að greiða með lægri hundraðstölu, en svo sé úrskurðað að nýju og komið með silkislæðu ofan á það fé, sem fólkinu var áður gert að greiða fyrir vanrækslusyndir sínar. Ég mun því, með tilvísun til framkvæmdar rn. í þessu máli, greiða atkv. með brtt. hv. þm. Barð., því að með till. hans er verið að vinna að sömu framkvæmd á þessum lögum og Alþingi ætlaðist til á sínum tíma, þegar við var brugðið og lögin sett. Og ef það er ekki samkvæmt bókstafnum, þá er það í þeim anda, sem yfir vötnunum sveif, er lögin voru meðhöndluð og afgreidd frá Alþingi. Ég endurtek: Þessi löggjöf var aldrei af þeim, sem hana settu, hugsuð sem refsilög, heldur sem leið til þess að koma skattaframtölunum í betra horf og miða að því að hjálpa borgurunum til þess með því að kippa í lag, en skattleggja um leið sanngjarnlega undandregið fé, sem svo er nefnt.

Að lokum skal ég svo bæta fáu einu við. Meðan ég var enn í fjmrn., sá ég nokkur bréf, sem borizt höfðu þangað frá fólki vegna þess, að skattkröfur höfðu borizt því. Margt af þessum bréfum var frá gömlu fólki, sem sýnilega hafði ekki áttað sig fyllilega eða gleymt að gefa rétt upp, þegar eignakönnunin fór fram. Margt af þessu fólki hafði sparað saman um tugi ára og eignazt þannig smám saman nokkrar upphæðir. Fólkið byrjaði sparnaðinn áður en Alþingi lagði á það hina gereyðandi skattalöggjöf, sem þjóðin hefur búið við á undanförnum árum. Ég segi og tek skýrt fram: gereyðandi skattalöggjöf, sem gereyðir sparnaðarvilja fólksins. Þessu fólki er vorkunn, þó að það hafi ekki talið allar þessar litlu reytur sínar fram, sem fólgnar voru í snjáðum og gömlum sparifjárbókum í kistuhandraðanum. Ég veit, að það eru ekki allir, sem geta fyllilega áttað sig á því, hvers lögin krefjast. Hér er alltaf verið að breyta lögum í mörgum efnum, og þó að það megi teljast viðkunnanlegra, að allt komi í dagsins ljós, þá er þessu fólki vorkunn, sem í hlut átti. Ég held því, að það sé fyllilega í anda l. og í anda almenns réttlætis yfirleitt og réttlætistilfinningar, að ekki séu þyngd skatt- eða refsiákvæðin frá því, sem upphaflega var sett í lögin um eignakönnun frá 5. júní 1947.