01.03.1950
Efri deild: 66. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

53. mál, eignakönnun

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég mun ekki deila við hv. 1. þm. N-M. (PZ) um stærð okkar né afrek, en hitt mun sönnu næst, að eftir þann hv. þm. liggja verk, sem eru stærri, en ég hef lagt út í. Og ef hann er stór af afskiptum sínum af sauðfjármálunum, þá kýs ég ekki slíka stærð eða frægð. Hitt veit hv. þm., að venjan er, að allir embættismenn í landinu eru skipaðir, svo að ekki hefði verið hægt að segja við þennan mann: Þú skalt vera tilraunadýr hérna hjá okkur í eitt ár, og svo skulum við sjá, hvað setur. Ég vildi, að starf þetta væri veitt á venjulegan hátt, en þessi hv. þm. spillti því, og svo komu aðrir í kjölfar hans, og það er gott, að hv. þm. hefur viðurkennt, að hann hafi spillt þessu máli.