26.04.1950
Sameinað þing: 40. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

97. mál, fjáraukalög 1946

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég leyfi mér ásamt deildarforsetum Alþingis að bera fram brtt. við þetta frv. á þskj. 581 og vil taka fram, að brtt. fjallar um að strika úr þessum fjáraukalögum umframgreiðslu á alþingiskostnaði, vegna þess að það á aldrei að leita aukafjárveitingar fyrir þessum kostnaði. Fjáraukalögin eru í þetta sinn ekki samin af okkur yfirskoðunarmönnum landsreikninganna, heldur fjmrn., og eftir þeirra till. hefur fjárveitingin verið tekin upp í hverja gr. í heild sinni. Þetta hefur farið fram hjá okkur við 2. umr. og sömuleiðis fram hjá n., sem hafði þetta frv. til meðferðar. Til að sýna, hvernig þessu máli er varið, og jafnframt til gamans, skal ég lesa upp úr Alþt. frá 1917, hvernig litið var á þetta mál á þeim tíma, og svo hefur alltaf verið gert hingað til. Það er grg. frá þáverandi forsetum Alþingis, Kristni Daníelssyni, Guðmundi Björnssyni og Ólafi Briem. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Háttvirt fjárhagsnefnd Nd. hefur í dag leitað álits vors um það, hvort taka beri upp í fjáraukalög fyrir 1914 og 1915 kostnað við aukaþingið 1914.

Það er álit vort, að Alþingi beri aldrei að beiðast aukafjárveitingar fyrir aukaþingskostnaði eða yfirleitt neinum umframgreiðslum á alþingiskostnaði, enda hefur það ekki tíðkazt.

Er svo að sjá, sem yfirskoðunarmenn landsreikninganna 1914 hafi ekki gætt þess, að Alþingi er frjálst að verja svo miklu fé sem þörf krefur til þingkostnaðar; það er ekki háð neinu eftirliti af hálfu landsstjórnar; löggjafarvaldið lýtur ekki framkvæmdarvaldinu; ef þingkostnaður fer fram úr því, sem áætlað er í fjárlögum, þá leitar Alþingi aldrei samþykkis stjórnarinnar til umframgreiðslu, þarf þess ekki og á ekki að gera það. Þann umframkostnað ber að taka upp í lög um samþykkt á landsreikningnum, aldrei beiðast aukafjárveitingar; sjálft fjárveitingavaldið þarf ekki og á ekki að beiðast aukafjárveitingar til umframgreiðslu á starfskostnaði sínum.

Alþingi ber að vernda sjálfstæði sitt gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Alþingi þarf ekki og á ekki að gera landsstjórninni nein reikningsskil á starfskostnaði sínum og hefur aldrei gert það.

Yfirskoðunarmenn landsreikninga verða að gera sér ljóst, að þeir eiga við tvo reikningsaðila, annars vegar landsstjórnina, sem afhendir þeim þá eiginlegu landsreikninga, og hins vegar Alþingi, sem sendir þeim þingkostnaðarreikningana til yfirlits, annars vegar ráðherrana og skrifstofustjóra stjórnarráðsins, hins vegar alþingisforsetana og skrifstofustjóra þingsins. Hvorir tveggja þessara aðila, ráðherrarnir og forsetarnir, bera ábyrgð gagnvart Alþingi á reikningsskilum sínum. En komi til umframgreiðslu, er munurinn sá, að þar er landsstjórnin undir þingið gefin, verður að beiðast aukafjárveitingar, en þingið sjálfstætt, þarf þess ekki.

Oss er ljóst, að það er einungis vegna athugasemdar yfirskoðunarmanna, að hv. fjárhagsnefnd hefur borið upp brtt. sína á þskj. 388 (2). Og vér erum þess fullvissir, að hv. fjárhagsnefndarmenn munu, allir fallast á þessar röksemdir vorar, taka brtt. aftur og gera háttvirtri neðri deild, í eitt skipti fyrir öll, ljósa grein fyrir þessu fjárhagsmálefni.

Kristinn Daníelsson, G. Björnson,

Ólafur Briem.“

Af þessu sjá hv. þm., hversu stranglega þáverandi forsetar þingsins litu á þetta mál, og þarf ég ekki að gera frekari grein fyrir þessari brtt., sem við forsetar þingsins höfum flutt við þetta fjáraukalagafrv., og vænti ég, að hv. þm. geti fallizt á hana.