06.03.1950
Neðri deild: 60. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

43. mál, jarðræktarlög

Frsm,. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það voru örfá atriði í ræðu þeirra hv. þm., sem hér töluðu um frv. fyrir helgina, sem ég vildi gera athugasemdir við. Hv. 5. landsk. þm. hefur borið fram á þskj. 389 nokkrar brtt., og mælti hann fyrir þeim. Það var vitað, að ekki var fullt samkomulag innan n. og voru öll þessi atriði rædd þar, en ég skal nú snúa mér að brtt., og er þá fyrst brtt. við 4. gr., sem er um starfssvæði og skipan héraðsráðunauta. Hv. þm. vill þar binda sig að öllu leyti við brtt. hinnar stjórnskipuðu mþn., sem lagði til, að öllu landinu skyldi skipt í ákveðin svæði, og hvika þar hvergi til, þannig að ráðunautarnir verði 10 og þar verði engu um breytt. Þetta var ýtarlega rætt á búnaðarþingi, sem komst að þeirri niðurstöðu, að þetta fyrirkomulag væri ekki heppilegt, og skal ég færa nokkur rök fyrir þeirri niðurstöðu. Búnaðarfélagsskapur okkar er byggður þannig upp, að innan Búnaðarfélags Íslands starfa búnaðarsambönd, sem eru geysimisjafnlega stór. Þessi þróun hefur orðið vegna þess, að látið hefur verið að óskum manna heima fyrir, þeirra sem samböndin hafa myndað á hverjum stað. Nú er það nauðsynlegt fyrir samböndin að hafa einhvern opinberan starfsmann, sem helzt sé bæði faglegur ráðunautur og sömuleiðis framkvæmdastjóri, sérstaklega hvað snertir jarðræktarframkvæmdir, og það er af þessu, að við, sem höfum áratuga reynslu í þessum efnum, teljum óheppilegt að fara inn á þá braut, sem mörkuð er í brtt. á þskj. 389. Við í Búnaðarfél. Íslands höfum raunar reynt að stemma stigu fyrir því, að samböndin skipti sér mikið, því að við teljum, að mjög lítil sambönd hafi ekki fjárhagslega nógu sterkan grundvöll, en við höfum þó ekki séð okkur fært að hindra slíkt með valdi, þar sem einlægur vilji hefur verið heima fyrir til að skipta samböndunum, því að búnaðarfélagsskapurinn er byggður upp á frjálsum grundvelli, og það frelsi höfum við ekki viljað skerða, en þannig hafa nú á síðustu árum klofnað bæði Búnaðarsamband Þingeyinga og Búnaðarsamband Dala- og Snæfellsnessýslu. Við teljum, að ekki sé bundið í lögum, hvert starfssvið ráðunautanna sé. T.d. teljum við heppilegt, að sami maður geti bæði verið jarðræktar- og búfjárræktarráðunautur, þótt gert sé ráð fyrir, að almennt séu þeir annaðhvort, en nú hefur hið háa ráðuneyti fallizt á að skipa mann, sem fær hálf laun samkv. búfjárræktarl. og mundi fá hálf laun eftir þessum lögum, ef frv. verður samþ. Ég tel miklu heppilegra að geta hreyft þetta til í vissum tilfellum, og því legg ég til, að þetta verði ekki bundið, eins og hv. 5. landsk. þm. leggur til. Hann taldi, að samkv. okkar till. væri of lítil bremsa sett á það, að jarðræktarráðunautarnir yrðu of margir. En ég held, að það sé engin hætta á því, því að í smærri samböndunum mundi ráðinn hálfur maður til hvors um sig, jarðræktar og búfjárræktar, og lækkar þetta tölu ráðunautanna, og ef starfssvæði ráðunauts er minna en meðalsýslufélag, þá fær hann ekki full laun. Það getur verið, að samböndin stækki aftur, og þá gæti skipulag hv. 5. landsk. passað í meginatriðum, en það er þó ekkert samræmi í því, að Búnaðarsamband Suðurlands, sem nær yfir hér um bil heilan landsfjórðung, skuli skv. till. hans fá aðeins einn ráðunaut, eins og t.d. Búnaðarsamband Kjalarnesþings eða Skagafjarðar, svo að einhver dæmi séu tekin. Það er ekkert samræmi í þessu, en hv. 5. landsk. taldi, að þetta yrði stóru samböndunum bætt upp með því að láta þau hafa mælingamenn, en ég býst við, að t.d. Búnaðarsamband Suðurlands mundi gjarnan vilja fá tvo héraðsráðunauta, og mundi ég ekki standa gegn því, þegar um svo stórt samband er að ræða. Það er þessi ósveigjanleiki í brtt. hv. 5. landsk., sem ég get ekki fellt mig við og tel, að samrýmist ekki því frjálsræði, sem einkennir uppbyggingu búnaðarfélagsskaparins í landinu.. Ég gat þess áðan, að Búnaðarsamband Þingeyinga hefði klofnað, en þar er svo háttað, að héraðið skiptist um Reykjaheiði, og eru lítil samskipti, hvað atvinnu snertir, á milli sýsluhlutanna. Þar óskar hvort samband eftir einum manni, sem væri bæði jarðræktar- og búfjárræktarráðunautur, en samkv. till. hv. 5. landsk. yrðu þau að fá tvo hálfa menn. Það er og erfitt að sitja í einu sambandi og eiga að hafa á hendi framkvæmdastjórn í héraði, þar sem maður er ekki búsettur. — Hv. þm. talaði um það, að till. okkar eða skipulag það, sem búnaðarþing samþykkti, skapaði ósamræmi. Það má kannske segja, að ekki fáist með því fullt samræmi, en ekki fæst meira samræmi með brtt. hv. þm., og hann vill hafa kerfið ósveigjanlegt, en við teljum nægilegt, að landbrh. geti tekið í taumana, ef tala ráðunautanna ætlar að fara fram úr því, sem góðu hófi gegnir og svo að ofbjóði greiðslugetu ríkissjóðs. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa brtt. að svo stöddu, ég kem kannske að henni síðar í sambandi við annað, en þá kem ég að 2. brtt. á þskj. 389, sem er við 11. gr. og er um það, að á eftir 11. gr. komi ný gr. og þar sé tekið upp hámark á styrk, þannig að styrkurinn falli niður, þegar vissu flatarmáli ræktaðs lands og tilteknu rúmmáli hlaða og áburðarhúsa hefur verið náð. Þetta er í öðru formi, en það hámarksákvæði, sem sett var áður, þar sem miðað var við krónutölu, en ekki stærð ræktaðs lands. Ég gat þess í minni framsöguræðu, að samkomulag hefði orðið um það á búnaðarþingi að fella niður þetta hámarksákvæði, bæði árshámarkið frá 1928 og eins heildarhámarkið, sem síðar var sett. Ég tel mig bundinn af þessu samkomulagi, en viðurkenni, að það getur verið réttmætt, að nokkurt hámark sé sett, en tel það óhugsandi eins og lagt er til í brtt. hv. 5. landsk. Fyrst var hámarksákvæðið sett til að tryggja það, að styrkurinn yrði ekki ákveðinn hærri, en ríkissjóði væri fært að greiða, og ég er sammála hv. þm. um það, að svo er ástatt um fjölda býla, að þar þarf að lyfta undir ræktunina fremur en hjá þeim, sem lengra eru komnir, og ef það sýndi sig, að ríkisstjórn og Alþingi teldu nauðsynlegt að takmarka greiðslurnar, þá yrði að bremsa styrkinn til þeirra, sem lengst eru komnir, en ýta undir hina. Mundi ég þá leggja til, að farin yrði sú leið, að þeir, sem hafa tún, sem er minna en 10 ha, fái 1/3 hærri styrk á hvern ha, sem ræktaður er, og á þetta að koma í staðinn fyrir 30% hækkunina til þeirra, sem ekki höfðu fengið ákveðna krónutölu í styrk samkv. núgildandi lögum.

3. brtt. hv. 5. landsk. þm. er við 17. gr. Hv. þm. leggur þar til, að það sé að öllu leyti farið eftir till. hinnar stjórnskipuðu, n., en till. hennar voru þess efnis, að verkfæranefndin skyldi áfram gegna hinu tvíþætta verkefni og starfa á sama grundvelli og áður. Hv. þm. talaði um það eins og það væri einhver goðgá að hvika nokkuð frá till. mþn., og vil ég segja, að mér finnst það nokkuð mikil undirgefni undir þá n., og þótt hún hafi unnið gott starf og ágætt, þá sé ég ekki minni ástæðu til að taka tillit til óska búnaðarþings og till. starfsmanna Búnaðarfélags Íslands, sem hafa haft betri ástæður til að dæma um, hvað hentar í þessum efnum, en þeir, sem sátu í mþn., því að það eru einmitt verkefni síðustu ára, sem verður að taka til athugunar í þessu sambandi.

Hv. 5. landsk. gekk fram hjá því atriði, sem ég lagði áherzlu á í sambandi við nauðsyn þess að kljúfa starfsemi verkfæranefndar, en það var, að annar hluti hennar hefði með höndum prófun á öllum þeim vélategundum, sem til landsins eru fluttar, til leiðbeiningar fyrir bændur og innflytjendur, þannig að ekki verði fluttar inn aðrar vélar en þær, sem góðar eru og heppilegar fyrir íslenzka staðhætti. Þetta er svo mikilvægt verkefni, að ég tel, að sú nefnd, sem hefði það með höndum, ætti ekki að hafa önnur störf. Það má líka segja, að sú verkfæranefnd, sem nú starfar, sé óeðlilega skipuð til að hafa slíka prófun, þar sem stærsti innflytjandinn á fulltrúa í þeirri nefnd, það er að segja S.Í.S. Enda þótt ég vilji gengi S.Í.S. sem mest, tel ég ekki rétt, að innflytjandi eigi fulltrúa í þeirri nefnd, heldur eigi hún að vera algerlega óháð og skipuð af viðkomandi ríkisstj., svo að engum þurfi að vantreysta. Auk þess tel ég ekki sjálfsagt, að B.F.Í. hafi eins mikil ítök í þessari nefnd og ráð er fyrir gert. Öðru máli gegnir um framkvæmd vélasjóðs, því að þótt segja megi, að bæði verkefnin snerti jarðrækt, þá eru þau algerlega óskyld. Rekstur skurðgrafna og slíkra véla er allt annað starf en prófun á nýjum tækjum, sem flutt kunna að vera inn í landið, og athugun á hæfni eða kostum þeirra fyrir íslenzkan landbúnað. Hv. 5. landsk. hélt því fram, að skipting þessara verkefna mundi hafa í för með sér aukinn kostnað. Það held ég, að sé alger misskilningur. Eins og þessu er nú háttað, hefur vélanefnd sérstaka skrifstofu, enda þótt hún hafi í rauninni ekki annað verkefni, en sjá um rekstur skurðgrafna. Að mínum dómi mætti leggja þetta starf undir B.F.Í., þannig að ekki þyrfti um það sérstaka skrifstofu. Hins vegar þyrfti n. sú, sem hefði með að gera prófun á vélum, að hafa sérstaka skrifstofu og aðstöðu til tilrauna í því sambandi. En ég geri ráð fyrir, að sá kostnaður fengist endurgreiddur, að minnsta kosti nokkur hluti hans, frá viðkomandi innflytjendum, og væri auðvelt að haga því þannig, að sérstakt gjald væri krafið, um leið og ný vél væri prófuð. Með þessu móti væri n. algerlega óháð, og ætti það að hafa víssa kosti í för með sér. Sú skipan mun vera á höfð í nágrannalöndum vorum, að minnsta kosti hinu mikla landbúnaðarlandi Danmörku, og þó að allt sé í smærri stíl hjá okkur, þá ætti þessi leið að vera fær. Þessar till. mínar miða ekki á nokkurn hátt að núverandi verkfæran. og mega því ekki skoðast sem hnútur til hennar, nema síður sé, því að hún hefur leyst starf sitt vel af hendi, svo langt sem það nær.

Hæstv. landbrh. fór viðurkenningarorðum um afgreiðslu n. í ræðu sinni um þetta mál, en þó virtist hann vera sammála 5. landsk., eða að minnsta kosti 1. og 3. brtt. hans. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri þýðingarlaust að setja nýja nefnd, því að annaðhvort ættu þessi mál öll að heyra undir B.F.Í. eða ekki. Ég er þessu sammála, en tel það hins vegar ekki gefa neinn úrskurð um það, hvort þessum störfum skuli skipt milli tveggja nefnda. Þó svo að B. F. Í. hafi þetta hvort tveggja innan sinna vébanda, þá taldi n. heppilegra, að ráðh. tilnefndi menn til þessara starfa, og vegna þess, hvernig þessum störfum er háttað, einkum þó prófuninni á nýjum vélum, gerðum við í meiri hl. n. ráð fyrir, að bezta lausnin á því máli væri sú, að til þess væru kvaddir sérstakir kunnáttumenn af ráðh., til að komizt yrði hjá öllum deilum um hlutdrægni, og þótt þessir menn væru trúnaðarmenn ríkisstj., þá gætu þeir eins fyrir það verið starfsmenn B.F.Í. Hins vegar skildist mér á hæstv. ráðh., að hann vildi láta verkfæran. taka við verkfæraráðunautsstarfi, en því fyrirkomulagi er ég algerlega andvígur og teldi þá betra að taka hreinlega alla ráðunauta í jarðrækt út úr B.F.Í. Ég tel alveg ófært, að allar leiðbeiningar í jarðrækt séu ekki undir sömu stofnun, og þar af leiðandi ekki fært að skilja í sundur leiðbeiningarnar um jarðræktina sjálfa og leiðbeiningar um vélanotkunina, enda gæti slíkt valdið erfiðleikum og glundroða, ef þessum aðilum bæri t.d. ekki saman. Þess vegna er ég á þeirri skoðun, að þetta verði allt að heyra undir B.F.Í. eða þá, að jarðræktin öll yrði sett undir verkfæran., en ekki geri ég ráð fyrir, að neinn sparnaður yrði að slíkri breytingu.

Eitt atriði, sem hv. 5. landsk. minntist á, var það, að ekki ættu að vera nein óþægindi að því, þó að aðrir aðilar hefðu með mælingar að gera en þeir, sem annast rekstur skurðgrafnanna, þar sem mælingarnar væru framkvæmdar sumrinu áður. Svo þyrfti þetta að vera, en því miður þá er nú framkvæmdin ekki sú. Mælingamennirnir eru ekki fleiri en það, að þeir verða að vera á spreng á undan skurðgröfunum, en það stafar líka af því, að þegar mælingamennirnir eru ef til vill búnir að mæla út það, sem þeir álíta að minnsta kosti tveggja mánaða verk fyrir gröfurnar, þá er allt í einu breytt um stað og ákveðið að grafa annars staðar og úr þessu verður svo oft flækja, sem erfitt er að greiða úr með þeim fáu mælingamönnum, sem B.F.Í. hefur á að skipa, en þannig vill það fara, þegar tveir tígulkóngar eru í sömu spilunum. Meðal annars af þessum ástæðum tel ég nauðsynlegt, að þessi mál séu hjá einum aðila, svo að hægt sé að skipuleggja starfið.

Ég held ég hafi nú minnzt á flest af því, sem máll skiptir, og fjölyrði því ekki frekar um málið við þessa umr., nema tilefni gefist. Hæstv. landbrh. óskaði eftir því, að n. athugaði tvær till. nánar, en önnur er um skipan héraðsráðunauta og hin um vélanefndina. Ég er fús að verða við óskum ráðh. í þessu efni og vil gjarnan, að n. fái tækifæri til að ræða við hann um þessar till. Hins vegar tel ég ekki ástæðu til að taka þessar till. aftur til 3. umr. og held, að heppilegra sé að fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann fresti atkvgr. um málið, unz n. hefur rætt þessar till. nánar og þá væntanlega við hæstv. landbrh.