20.03.1950
Neðri deild: 71. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

43. mál, jarðræktarlög

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru nú ekki nema fáein orð, sem ég ætla mér að segja út af þessu. Ég vil þá fyrst snúa mér~ að hv. þm. A-Húnv. (JPálm). Hann flutti hér sitt mál eins og þegar þetta mál var hér til 2. umræðu. Þeir ræddust þá nokkuð við hann og núv. forsrh. um þessi atriði. Það hefur ekkert nýtt komið fram síðan í málinu. Og hann flytur hér aftur þær sömu till. og felldar voru við 2. umr.

Ég vil þá leiðrétta það, sem hann sagði. Hann sagði, að ætlazt væri hér til þess að skapa nýtt embætti með þessari löggjöf. Fyrst er því til að svara, að á síðasta búnaðarþingi var ákveðið, að Búnaðarfélag Íslands — og hefði átt að vera fyrir löngu — réði til sin hæfan mann sem verkfæraráðunaut. Þetta er að vísu ekki komið til framkvæmda, en mun hafa verið ákveðið í haust, að yrði gert næsta vor. Auk þess er það starf, sem er greitt að öllu leyti af Búnaðarfélagi Íslands og Alþ. þess vegna óviðkomandi. Það er þess vegna ekki um neitt nýtt embætti þarna að ræða, sem kosti ríkissjóð aukin útgjöld, en ætlun okkar með þessari breyt. er sú að spara nokkurt fé fyrir ríkissjóð, eins og frá frv. er gengið nú. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta atriði frekar. Ég tel, að það sé fullrætt og að hv. þdm. muni vera það nokkurn veginn ljóst.

Öðru máli gegnir um brtt. á þskj. 413. Ég skal taka það fram, að eins og hv. frsm. gerði svo rækilega grein fyrir við 2. umr., þá vakti það fyrir n., þegar hún færði niður ýmsa liði eða lækkaði styrkinn til ýmissa liða, að tryggja um leið það, sem n. taldi mestu máli skipta og að bæri að leggja höfuðáherzluna á í ræktunarmálunum, en það er framræslan. Í því trausti, að það yrði gert, þá lagði n. til, að það yrði veittur nokkru ríflegri styrkur til þeirra framkvæmda, en verið hefur, sem og þá kostar ríkissjóð allmikið fé. Til þess að mæta þessu lagði n. til, eins og ég sagði áðan, að færa niður ýmsa liði eða jafnvel fella alveg niður nokkra liði, sem hún taldi ekki eins nauðsynlega, og var það gert með það fyrir augum, sem hv. 2. þm. Rang. (IngJ) kom að í sinni ræðu, að fjárhagsástæður ríkisins væru þannig, að á byrðar ríkissjóðs mundi ekki vera bætandi, og að það yrði að taka fullt tillit til þeirra ástæðna. Það var með þetta fyrir augum, sem styrkurinn á votheyshlöður var lækkaður og sömuleiðis, að fellt var niður það ákvæði, sem búnaðarþing hafði sett inn, að styrkur til ýmissa húsabóta, sem styrktar eru, skyldi reiknaður með byggingarvísitölu. Og n. var sammála um þessi atriði og gekk að þessu vitandi vits, hvað hér var verið að gera. Að því er snertir votheyshlöður vil ég benda á, að styrkur, sem nú eru ákvæði um í frv. og n. lagði til, er nokkru hærri, en í gildandi l., þrátt fyrir það að n. lækkaði hann nokkuð frá því, sem var í frv. Í gildandi l. er styrkurinn á votheystóttir kr. 3.50 til 4.00, en er hér kr. 4.50 í frv., sem fyrir liggur. — N. heldur að sjálfsögðu fast við sínar till.

Þá er síðari liðurinn um að nota byggingarvísitölu við útreikning á styrknum til húsabóta, bæði súrheystótta og annarra. Ef sú leið yrði valin, þá mundi það kosta ríkissjóð allmikið fé. Ég get búizt við, að það mundi skipta hundruðum þúsunda, með því að byggingarvísitalan er 450, en almenna vísitalan 300, þannig að þarna munar mjög verulegu. Ég skal þó taka fram, að því er votheyshlöður snertir, að ég er þar alveg sammála hv. þm. N-Þ. (GG) um nauðsyn þeirra framkvæmda. Hins vegar hef ég ekki sannfæringu fyrir því, að þessi kr. 1.50, sem hér er deilt um, skipti nokkru máli í þessu sambandi. En ef það yrði lyftistöng í þessu tilliti, eins og sá hv. þm. virtist álita, til þess að kippa því máli áleiðis, þá mundi ekki standa á mínu fylgi við þessa hærri upphæð styrksins, en ég hef ekki trú á, að þessi mismunur breyti mjög miklu, þessum framkvæmdum viðkomandi, því að þessar byggingar eru tiltölulega ódýrar og oft hægt að gera þær með litlum kostnaði, t.d. með því að setja skilrúmsvegg í hlöðu eða þess háttar. Það hefur ekki hingað til strandað á þessu, það veit ég með vissu, heldur eru önnur atriði, sem torvelda þetta, sem nauðsynlega þarf að leysa, til þess að þessar framkvæmdir gætu orðið miklu almennari, en nú er.

Meiri hl. n. var sammála um það, að undanteknum hv. 5. landsk., að fella niður hámarkið, a.m.k. fyrst um sinn, og ég geri ráð fyrir, að n. muni halda sér við það. Ræði ég svo ekki um það meira.