20.03.1950
Neðri deild: 71. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

43. mál, jarðræktarlög

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Af því að ég var frsm. landbn. við 2. umr., langar mig til að segja örfá orð um þetta mál, áður en frv. fer út úr hv. d. Ég þarf í raun og veru engu við það að bæta, sem hv. 2. þm. Skagf., sem nú hefur mælt fyrir hönd landbn., hefur að segja um þessar till. En þó eru það viss atriði í þeim ummælum, sem hér hafa fallið, sem mér virðist ástæða til að nefna. — Hv. 2. þm. Rang. (IngJ) talaði hér nokkur orð um þetta mál. Mér fannst blærinn á ræðu hans vera sá, að hann teldi, að hér væri verið að stíga spor aftur á bak með þeim breyt. á jarðræktarl., sem hér eru gerðar, þannig að í raun og veru væri aðstaða ræktunarmanna, hvort sem væri bænda eða annarra, jafnvel —verri, ef frv. væri samþ., heldur en með því að búa við núgildandi lög í þessu efni. Ég veit, að það er nokkuð til í því, sem hv. þm. sagði um það, að það eru miklar hækkanir á ýmsu, verði framundan og ekki sízt í sam,bandi við byggingar, og má segja með sanni að nokkru leyti, að þar geti verið um afturför að ræða. En það er alls ekki rétt, að styrkurinn sé stórkostlega lækkaður, og í ýmsum mjög veigamiklum atriðum er styrkurinn stórhækkaður, og því megum við ekki gleyma. Með þessari breyt. á jarðræktarl. verður allveruleg stefnubreyt. frá því, sem áður hefur verið. Það hefur áður verið tíðkað að greiða styrk á sem flestar húsaumbætur á jörðum. Þetta hefur verið teygt út á allmikið af húsabótum, sem geta orkað tvímælis. Hins vegar var það megingallinn á jarðræktarl. frá upphafi, sem stafaði af því, að við vorum eiginlega börn í þessum efnum og höfðum ekki nóga yfirsýn yfir þessi mál til að ákveða á æskilegasta hátt styrkina, — megingallinn á þeim frá upphafi var sá, að við höfðum ekki hugmynd um, hvað það kostaði að ræsa fram jörð. Þess vegna varð styrkurinn fyrir framræslu hlægilega lítill. T.d. má taka, að einn bóndi hefur gnægð af þurrlendum þúfum og valllendismóum til ræktunar, en annar bóndi aðeins mýrlendi, og þá er auðvelt fyrir þann bóndann, sem valllendismóana á, að koma upp stóru túnflæmi á stuttum tíma með styrk jarðræktarl. En það væri fyrir hinn, sem aðeins hefur mýrlendið, verri aðstaða til ræktunar, vegna þess, hve styrkurinn til framræslu er lítill, eftir núgildandi l. Þessu hefur verið breytt til bóta gagnvart þeim, sem hafa þurft að ræsa fram mýrar, í öllum þeim breyt., sem gerðar hafa verið á jarðræktarl. til þessa. En nú á að taka stórt stökk í þessa sömu átt, og breytt hefur verið ákvæðum l. í þessu tilliti þannig, að hægt sé á tiltölulega stuttum tíma að ræsa fram meginhlutann af öllu mýrlendi landsins í helztu byggðum þess. Það hafa ekki verið möguleikar til þess fyrr en við fengum þær hraðvirku vélar, sem við nú loks höfum, en með þeim eygjum við það, að þetta sé mögulegt, og þess vegna tel ég þá breyt. mikilvægasta, að nú er þessu breytt. Og það er mikið gleðiefni, að þeir fulltrúar hér í hv. þd., sem eru, ekki fyrst og fremst tengdir landbúnaðinum, hafa sýnt fullan skilning á því að samþ. þessa hækkun til framræslunnar, þar sem nú er gert ráð fyrir, að helmingur verði greiddur af kostnaði skurðagerðar vélgrafinna skurða Þetta er vissulega réttarbót, ekki aðeins fyrir bændur, heldur og þjóðina alla, ef hægt er að halda þessu, því að þegar búið er að þurrka upp mikið af mýrlendinu í helztu byggðum landsins, þá er land okkar orðið allt annað til nota en það nú er. Og ég varð glaður yfir þeim góða skilningi, sem mér fannst við 2. umr. málsins sjást hér í hv. d. á því, að þetta væri rétt stefna. — Um leið hefur verið hækkaður mikið styrkur til handgrafinna skurða, og það var afleiðing af hinni till. um hækkun styrksins til vélgrafinna skurða, því að þau byggðarlög, sem ekki geta fengið til sín skurðgröfur, verða þá með ófullkomnum tækjum að vinna að framræslu fyrst um sinn og verða að geta fengið nokkurn styrk til þess.

Það skal viðurkennt, að n. slakaði á ýmsu öðru aftur á móti, af því að hún telur minni ástæðu til þess t.d. að byggja heyhlöður og safnþrær o.s.frv. í stórum stíl, þó að nauðsyn sé á þessum framkvæmdum. Hitt virtist okkur líka liggja í hlutarins eðli, að ekki væri óeðlilegt, þó að einhver ofurlítil lækkun væri á ræktunarstyrknum í sumum greinum, þar sem lækkun hefur orðið á ræktunarkostnaðinum vegna hinna hraðvirku véla, sem menn hafa notað nú á síðustu árum og væntanlega verða notaðar framvegis.

Það er rétt hjá hv. 2. þm. Rang., að áburðurinn verður dýrari, en hann hefur verið. Og hugmyndin með þeim lögum um gengisskráningu, sem samþ. hafa verið hér, er sú, að það fáist að einhverju leyti upp borið eftir á, eins og frá þeim l. er gengið. En hitt er rétt, að þarna koma kostnaðarliðir. — En mig langaði til þess að taka þessi atriði fram, áður en málið færi út úr hv. d. Mér finnst, að hv. alþm. megi ekki segja, að hér sé verið með þessum nýju jarðræktarl. að ganga aftur á bak, hvað þetta snertir. En það er um stefnubreyt. að ræða í frv. frá því, sem verið hefur. Styrkur er aukinn til stórra muna til vissra framkvæmda, og aftur á móti er dregið úr styrk á öðrum sviðum, vegna þess að við treystum okkur ekki til að leggja ríkissjóði það þungar byrðar á herðar, sem verða mundi, ef ekki væri þar dregið nokkuð úr.

Ég ætla ekki að tala hér um brtt. á þskj. 406. Við hv. þm. A-Húnv. og ég, meðan hann var landbrh., ræddum svolítið skipun verkfæranefndar við 2. umr. málsins. Ekkert nýtt hefur komið fram í því efni síðan, og hver verður að halda sinni skoðun í því efni. Skal ég ekkert inn á það koma nú. Hinu vil ég víkja til hæstv. forseta, að það virðist vera dálítið einkennilegt að bera fram brtt. við 3. umr. máls um að fella burt það úr frv., sem inn hefur verið sett í það við 2. umr. málsins. En hér er það gert. Þá var samþ. að setja upp þessa vélanefnd, og nú er lagt til við þessa 3. umr. málsins að fella þetta burt. Mér finnst dálitið hæpið, að hægt sé að samrýma þetta þingsköpum. Og sama verð ég að segja um brtt. á þskj. 413, sérstaklega um það, sem þar er lagt til, að á jarðabætur þær, sem taldar eru í I. og VII. lið 11. gr., skuli greiða styrk samkv. vísitölu byggingarkostnaðar í sveitum, — vegna þess að einmitt þetta var fellt út úr frv. við 2. umr. málsins. Ég tel því a.m.k. mikið vafamál, að hægt sé að bera fram þessar brtt., eins og á stendur. Ég geri þetta ekki að neinu sérstöku atriði, en vil benda á þetta, því að vitanlega dettur engum í hug, að hv. þd. breyti afstöðu sinni, sem hún er búin að taka ákvörðun um í þessu efni við 2. umr., þó að till. um sömu efnisatriði komi fram við 3. umr., svo að ég ætla að biðja hæstv. forseta og hv. þdm. að taka þetta ekki svo, að ég geri þetta að einhverju atriði. Ég get verið samþykkur hv. flm. till. á þskj. 413 um það, að mikil nauðsyn sé á aukinni votheysgerð, eins og líka kom fram hjá hv. 2. þm. Skagf. Hins vegar tel ég mig bundinn við samkomulag það, er varð í landbn. um þetta atriði, u,m að grunnstyrkurinn væri kr. 4.50, og sé ég mér því ekki fært að hverfa frá því. — Um 3. brtt. á þskj. 413 er það að segja, að ég er að nokkru sammála hv. 2. þm. Rang. um það, að hún sé tiltölulega meinlaus. Tilfellin eru svo fá, að fáir mundu reka sig upp undir. Hins vegar vil ég taka það fram, að samkomulag varð um það á búnaðarþingi, að þetta væri fellt niður. Ég var með í því samkomulagi og mun því greiða atkv. á móti till.