24.03.1950
Efri deild: 80. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

43. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Mér finnst rétt nú við 1. umr. þessa máls að fylgja því úr hlaði með fáeinum orðum, en geri þó ráð fyrir, að umr. fari ekki fram um það fyrr en við 2. umr. þess. Þetta frv. hefur verið undirbúið af sérstakri n., sem til þess var kjörin. Eftir að hún hafði gengið frá frv., var það tekið til meðferðar af búnaðarþingi, sem lagði á það síðustu hönd. Eins og gefur að skilja, var brýn nauðsyn til þess, að jarðræktarl. væri breytt vegna breyttra viðhorfa til jarðræktar síðan hin stórvirku vélatæki fluttust til landsins og voru tekin til notkunar við jarðræktarframkvæmdir. Jarðræktarstyrkurinn hefur verið miðaður við aðrar vinnuaðferðir og eru þau ákvæði nú úrelt orðin, og því er nú talið nauðsynlegt að setja í lögin ný ákvæði í samræmi við ný vinnubrögð. Þetta sjónarmið var lagt til grundvallar, þegar till. voru gerðar um breyt. á lögunum. Hins vegar orkar það ekki tvímælis, að um þessi ákvæði mætti lengi deila, því að erfitt er um vik að ákveða, hvar skuli draga markalínuna um styrki til hverrar framkvæmdar fyrir sig. Þó hefur þetta mál gengið í gegnum slíkan hreinsunareld, að reikna má með því, að ákvæði þess séu yfirleitt í samræmi við það, sem eðlilegt má teljast.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja um þetta á þessu stigi, og eins og ég sagði áðan, býst ég við, að umr. fari fram um málið við 2. umr. þess. Að lokum vil ég óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn., en það mun hafa verið í þeirri n. í hv. Nd.