17.04.1950
Neðri deild: 84. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég er samþykkur því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það sé brýn nauðsyn, að fjárskiptunum sé hraðað sem mest. Þess vegna get ég fallizt á það ákvæði, sem er í frv., að ríkissjóði sé heimilt að greiða hluta af fénu með ríkisskuldabréfum. Hins vegar er það ofætlun að ætlast til þess, að bændur láni ríkinu fé fyrir ekki hærri vexti, en felst í brtt. landbn. Þar er gert ráð fyrir, að vextir af þessum bréfum verði 4%. Að vísu er það framför frá því, sem fyrst var gert ráð fyrir í frv., því að þá var lagt til, að bréfin yrðu vaxtalaus. Síðan fjárskipti hófust, hafa bændur fengið greiðslur sínar í peningum, en bændur á Suðurlandi og allt vestur í Dali eiga að taka á sig að lána ríkissjóði bæturnar og með lægri vöxtum, en ríkissjóður hefur orðið að greiða annars staðar af lánum, og eins og vitað er, hefur hann orðið að greiða þjóðbankanum allt að 7% vexti. Ef þjóðbankinn getur ekki lánað ríkinu með lægri vaxtafæti, er ofætlun að ætla, að bændur geti lánað ríkinu með 4% vaxtafæti. Það er ekki heldur sanngjarnt eftir því, sem á undan er gengið.

Þeir, sem eftir eru með niðurskurð, verða verr úti en þeir, sem þegar hafa framkvæmt fjárskipti. Niðurskurðurinn er í þágu allra bænda og það verður að flýta honum, til þess að þau héruð verði ekki fyrir hættu, þar sem niðurskurður hefur farið fram. Ég held, að flestir geti orðið sammála um það, að fjárhagur bænda yfirleitt er orðinn það þröngur, að þeir verði undir flestum kringumstæðum að taka lán út á bréfin, en þá verða þeir að gefa með þeim allt að 3% vaxtamismun. Það er ekki óeðlilegt að ganga inn á það, að ríkisstj. borgi bæturnar með skuldabréfum, en það á ekki að vera á þann veg, að bændur þurfi að gefa með þeim 3% vaxtamismun, ef þeir taka lán út á þau. Þetta vil ég biðja hv. þm. að athuga, og ég veit, að hv. landbn. mun sjá, að ekki er sanngjarnt, að bændur láni ríkissjóði fé með þessum vöxtum, því að sýnilegt er, að margir munu þurfa að taka lán út á bréfin á þessu 5 ára tímabili, sem gert er ráð fyrir, að lánin vari. Af þessum sökum leyfi ég mér að flytja skriflega brtt. við brtt. landbn. á þskj. 528, tölul. 2, a, við 6. gr. frv., að í stað 4% komi 6%. Ég vænti þess, að hv. þm. taki þessari brtt. með velvild og samþykki hana.