18.04.1950
Neðri deild: 85. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég vil með nokkrum orðum víkja að þeim ræðum, sem haldnar hafa verið siðan ég flutti framsöguræðu mína, og þeim brtt., sem fram hafa komið.

Fyrst vil ég minnast á brtt. hv. 2. þm. Rang. (IngJ) um, að vextir af bréfunum verði 6% í stað 4%. Það má auðvitað halda um það hjartnæmar ræður, að það sé ósanngjarnt, að bændur fái ekki nema 4% í vexti af bréfunum. Ég mundi líka geta gert það, ef ég vildi fara í föt hv. 2. þm. Rang. Hv. þm. þarf ekki að halda, að ég eða aðrir, sem vitum, að þessi þungi kemur fyrst og fremst niður á umbjóðendum okkar, séum að skera niður okkur til gamans. Við værum ánægðir, ef við gætum lagt til, að vextirnir skyldu vera 6 eða 8%. En við höfum séð okkur tilneydda, til þess að sjá heildarmálinu farborða, að binda þá við 4%. Ef málið strandar, þá verður það erfiðara fyrir bændur, en að taka við bréfum, sem gefa 4% vexti. Hv. þm. sagði, að bændur væru með þessu að lána ríkinu gegn lægri vöxtum en það gæti fengið annars staðar. Þetta er orðaleikur hjá hv. þm. Hér er um frest á greiðslu að ræða, og vextirnir eru nærri sparisjóðsvöxtum. Við töldum þetta bót frá því, sem áður var, er gert var ráð fyrir því, að bréfin yrðu vaxtalaus. Ég mundi glaður greiða atkv, með till. hv. þm., ef ég teldi, að ríkið hefði fullar hendur fjár til framkvæmda, en við höfum litið svo á, að ástandið væri þannig, að ekki væri fært að íþyngja því fram yfir það, sem nauðsynlegt væri.

Þá minntist hv. 1. þm. Árn. (JörB) á brtt. n. um að hækka hlutfall bréfanna frá því, sem upphaflega var ákveðið, og taldi, að með þessu væri þyngt á bændum fram yfir það, sem vert væri og æskilegt. Ég get sagt það sama við hann og hv. 2. þm. Rang. Það mundi gleðja mig, ef þess væri kostur að greiða allt í peningum, en eins og ég sagði áðan, verður að taka tillit til fjárhagsgetu ríkissjóðs, og það er hætta á því, að þessar framkvæmdir stöðvist, ef ekki er komið til móts við ríkið, og þess vegna höfum við mælt með skuldabréfunum. Ég vil ekki heldur viðurkenna, að till. n. feli í sér hækkun á bréfunum frá því, sem áður var. Við tókum allstóran hóp manna, sem fella má alveg frá skuldabréfaskyldunni. En til þess að mæta því, er lagt til, að bréfamóttakan verði þyngd á öðrum, sem betur eru færir um að taka á móti. Við vitum, að aðstaða manna er misjöfn á þessu svæði. Þetta er mjólkursvæði með stórum kúabúum og mjólkurframleiðslu, og margir búa mest að henni, þótt þeir eigi sauðfé. Það er enginn efi á því, að fjöldi manna á þessu svæði er fær um að taka allt í skuldabréfum, þó að þau verði ekki greidd fyrr, en eftir fimm ár. En þarna eru líka menn, sem aðeins hafa stundað sauðfjárrækt og hafa ekki neina möguleika á þessu. Það er því rétt að þoka til byrðunum, svo að þeir, sem bezt eru staddir, beri meira, en létt sé á þeim, sem erfiðara eiga. Ef litið er á heildina, verður þetta ekki hærra samkvæmt till. n., heldur er því skipt niður á annan hátt.

Þá vil ég minnast á brtt. á þskj. 529, sem hv. 2. þm. Skagf. (JS) hefur gert grein fyrir. Hann flutti mál sitt einvörðungu á grundvelli laga og réttar og taldi, að samningur sá, sem ríkið hefði gert við viðkomandi aðila, væri svo heilagur, að honum mætti ekki hagga. Það væri ekki sæmandi að fara að baki mönnum á þennan hátt, að skylda þá til að taka á móti skuldabréfum í stað peninga. Ég skal eigi fara út í lagahliðina á þessu máli. Er ég ekki lögfræðingur og skal ekkert segja um, hvort hægt er að hnekkja þessum ákvæðum með málaferlum. En þó vil ég benda á, að til er nokkuð, sem heitir neyðarréttur, þar sem annar réttur er stundum látinn víkja. Það má deila um, hvort sá réttur sé hér fyrir hendi, en ég hygg svo vera. Ódæðið við að skylda menn til að taka við greiðslum í skuldabréfum er það, að margir mundu fyrr hafa þakkað fyrir að fá 4% skuldabréf upp í greiðslur, og ég held, að bæði bændur og aðrir mættu oft þakka fyrir að fá 5 ára ríkisskuldabréf upp í kröfur sínar. En mér er sama, þó að bændur þeir, sem hér eiga hlut að máli, gætu sótt meira og minna vafasaman rétt sinn í hendur ríkisins með málaferlum. Vil ég það heldur en þeir séu settir skör hærra en hinir, sem hafa enga fortíðarsamninga. Hér er einmitt um þau svæði að ræða, þar sem fara eiga nú fram fjárskipti, bændur hafa lógað fé sínu og leggja á á þá þessar kvaðir, þ.e. Mýrasýsla, Borgarfjarðarsýsla og Suðurland, sem lengst hafa stunið undir pestinni og legið undir þessari möru í 15 ár, hálfan annan áratug. Ég verð að segja, að ég tók mér nærri, þegar ég sat í sæti landbrh., að þurfa að samþykkja, að fjárskipti færu fram milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar, þar sem meginhluti fjárstofnsins var heilbrigt fé, á undan skiptum í eigin héraði mínu, þar sem veikin var mest og lengst. En það var af öryggisástæðum fyrir heildina, að sérfróðum mönnum fannst nauðsynlegt að taka þetta svæði fyrst. Beygði ég mig fyrir því, að skiptin færu þarna fram einu ári á undan. En nú eiga þeir, sem þar búa, að fá bæturnar á undan þeim, sem hafa orðið að bíða fyrir þjóðarheildina. Það eru þeir, sem hinar auknu byrðar eiga að lenda á. Ég get eigi þolað slíkt óréttlæti og vil heldur eiga undir því, að norðlenzkir bændur sæki ríkið með l. til að fá þennan ímyndaða rétt sinn. Ég vil benda á, að þessir bændur hafa nær engan þunga borið af fjárskiptum. Það var bara af öryggisástæðum, að féð var skorið niður. Þeir hafa haft fullar nytjar fjár síns. Og svo á að fara að gera þeim hærra undir höfði sökum einhvers lagakróks.

Ég mæli því á móti þessari brtt. og tel, að bændur þessir geri sjálfum sér engan sóma með henni.