18.04.1950
Neðri deild: 85. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að blanda mér í þau lögfræðilegu atriði, sem hér er deilt um. En ég vil taka það fram, sem ég sagði í vetur, að það má ekki eyðileggja þetta verk, sem búið er að verja tugum milljóna í, vegna þess, að ekki er hægt að halda áfram á núverandi braut, eins og allir eru sammála um. Það hefði verið bezt, ef ekki hefði þurft að breyta l., en öllum er ljóst, að ekki verður hjá því komizt. Þegar fjárskipti fóru fram í Dalasýslu 1947 og 48, var ekki hægt að standa við greiðslurnar fyrr en 1949, og það er ekki verra að greiða með skuldabréfum eftir nokkur ár, en að hafa hitt í l. og geta svo ekki staðið við það. Mér finnst mjög áríðandi, að þetta mál sé tekið þeim tökum, að aðgerðir þessar komi að fullu gagni. Ég gef lítið fyrir bændastéttina, ef þessi tilraun mistekst, og væri þá til lítils unnið. Ég vil því styðja brtt. n., ekki vegna þess, að ég telji þær ákjósanlegar, heldur vegna þess, að ég tel ekki á öðru betra völ, og þá tel ég, að frekast verði hægt að standa við það, sem gera þarf og lofað er.