25.04.1950
Efri deild: 93. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Form. landbn. er ekki viðstaddur, en ég býst við, að þetta mál fari til landbn. — Ég hef sjaldan tafið þingið á því að tala við 1. umr. í máli, sem ég er ekki flm. að, en ég vil beina athygli hv. þd. að einu atriði í þessu máli. Það er nauðsynlegt, að þetta frv. gangi fram með hraða, ef það á að verða að l., en það er eitt atriði í 6. gr., sem ég vil sérstaklega benda á, og það er næstsíðasta málsgr., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skuldabréf þessi skulu vera fullgild til greiðslu vaxta og afborgana af fasteignaveðslánum þeirra aðila einna, sem hafa tekið þau upp í bótagreiðslur samkvæmt lögum þessum.“

Ég er hræddur um, að hér sé ákvæði, sem brýtur í bága við stjskr. okkar, og vil ég biðja hv. n. að athuga það. — Ég sé, að form. n. er kominn, og getur hann þá tekið til máls um önnur atriði, en ég vil strax beina því til n., að hún leiti álits kunnra lögfræðinga um þetta atriði, hvort það fer ekki í bága við stjskr.