25.04.1950
Efri deild: 93. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki eyða tíma í að ræða frv. nú. Það kemur til n., sem ég á sæti í. Þó vil ég benda á, að það eru fleiri ákvæði, sem eru dálítið hæpin frá sjónarmiði almennings í landinu og þeirra þm., sem eru sæmílega sómakærir. Þar á ég við það, að samkv. eldri l. hafa verið samþykkt fjárskipti og framkvæmd fjárskipti, og eftir þeim l. áttu menn rétt á alveg ákveðnum bótum, en svo hefur verið komið aftan að mönnum og nú á að svipta þá bótum eftir l., semja ný l. og bæta eftir þeim. Þetta tel ég ekki vera hægt að samþykkja. Ef Alþ. er búið að lofa einhverju, á það að standa við það. Ég tel hæpið, að ég geti orðið með því að samþ. þetta ákvæði frv., þó að það sé réttmætt, því að ég tel ekki hægt að koma svona á bak við menn.