02.05.1950
Efri deild: 99. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er nú svo, að hv. 4. þm. Reykv. (HG) fékk lánað hjá mér frv. sjálft, svo að ég hafði það ekki fyrir framan mig og gat ekki fylgzt með, hvað hann sagði, hvort hann fór rétt með það, sem hann las úr grg. þess. Býst ég ekki við, að hann hafi farið rangt með það. En út af því, hver kostnaðurinn muni verða í sambandi við sauðfjárskiptin á því svæði, sem eftir er að framkvæma þau á, þá hygg ég, að hv. 4. þm. Reykv. hafi tekið munninn nokkuð fullan. En eftir því sem mér skilst, að muni verða, ef tekið er svæðið alla leið suður til Hvalfjarðar og ef gert er ráð fyrir, að sauðfé verði látið inn á svæðið sama ár sem gamla fjárstofninum er lógað þar, þá mun það vera nálægt 4 millj. kr., sem það mundi kosta ríkið að hafa fjárskipti á svæðinu, en ef gert er ráð fyrir, að svæðið sé sauðlaust eitt ár, þá hygg ég, að megi bæta 11/2 millj. kr. við þá upphæð frá ríkissjóði. En eins og við vitum, hvernig hag ríkissjóðs er nú komið, þá sjáum við það, að honum er um megn að bæta því á sig, ásamt öðrum greiðslum, sem hann hefur skuldbundið síg til að greiða út af þessu máli, og þess vegna verður að grípa til þess ráðs, sem gert er ráð fyrir í frv., og það var talið eina ráðið, sem og hv. 4. þm. Reykv. ætti að vera kunnugt um, hafi hann mætt á sameiginlegum fundum nefndanna í hv. Ed. og hv. Nd. Og við sáum engin ráð til þess að taka svo stórt svæði fyrir með því að ætla peningagreiðslur úr ríkissjóði til þess, og þess vegna var álitið, að það yrði að grípa til skuldabréfafyrirkomulagsins, sem ég þó játa, að er að mörgu leyti hvimleitt. Við erum ekki að leika okkur að því að gera þetta, en þegar þarf að framkvæma þessi fjárskipti og það ber bráðan að með það, verður að gera fleira en það, sem maður telur það heppilegasta og maður er ánægðastur með. Og ég veit, eins tillögugóður og hv. 4. þm. Reykv. er að mörgu leyti, þá mun hann, þegar á reynir, vilja gera eitt af tvennu, annað hvort að vera með þessu skuldabréfafyrirkomulagi eða þá hjálpa ríkinu um lán úr þeim digra og mikla sjóði, sem hann hefur til umráða, með kannske 4% vöxtum. Og ef þetta fé fengist þannig úr sjóði hjá Tryggingastofnun ríkisins, þá væri það eins gott og betra, en að vera með skuldabréfafyrirkomulagið. Og þá losnuðum við líka við öll ónot frá hv. 1. þm. Eyf. og öll vandamál þeirra Norðlendinganna út af þessum málum. Ég hef ekki athugað þetta atriði, en ég vænti, að hv. form. n. haldi fund um það milli 2. og 3. umr., og þá mætti einnig taka fyrir þar, hverju hægt væri að koma til leiðar í þessa átt.

Út af því, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, er það að segja, að það var margt rétt athugað hjá honum um þetta mál. Og ég mundi treysta honum til alls skörungsskapar um að koma á samstarfi meðal bænda um að taka við skuldabréfum sem greiðslu á þessu fé frá ríkissjóði, sem hér er um rætt, sérstaklega ef þeir hafa ekki fengið loforð fyrir greiðslunni. En það mun nú vera svo, bæði í Eyjafirði og víðar, að þegar menn eru búnir að koma sæmílega ár sinni fyrir borð og búnir að losa sig við fjárpestirnar, en ekki búnir að fá fullar greiðslur sem bætur vegna fjárskipta, að þá verði þeim kannske eitthvað áfátt um náunganskærleikann til hinna, sem eiga það eftir, svo að þeir vilji ekki taka við neinum bréfum sem greiðslum, ef þeir treysta sér til að ná peningum í greiðslurnar. Og jafnvel þó að veikin væri kennd við Borgarfjörð um eitt skeið, má ekki refsa Borgfirðingum eða bændum á Suðvestur- eða Suðurlandi fyrir það, því að enginn gerir það að gamni sínu að breiða slíkar pestir út um landið.

Ég skal ekki orðlengja um þetta frekar. En ég talaði um það við hæstv. landbrh., að við tækjum einmitt till. hv. 1. þm. Eyf. til athugunar. Sá hv. þm. er tillögugóður, þegar hann vill það við hafa, að manni virðist, — og kannske alltaf, ég skal ekki þræta um það, — og vorum við að tala um það, hvort hv. 1. þm. Eyf. mundi ekki vilja sýna þá til hliðrun í þessu máli, að hann tæki till. aftur til 3. umr., svo að n. gæti athugað hana og borið sig saman við hæstv. landbrh. um málið og um það, hvernig þetta yrði leyst. Mætti þá vel vera, að þetta félli allt í ljúfa löð hjá okkur. Ég minntist á það við hv. þm. Mýr., að hann ætti tal við stjórnendur sparisjóðs Mýrasýslu, að hann tæki á móti þessum bréfum, til þess að gera þeim greiðara fyrir, sem fátækir eru, um að geta keypt sér fé í staðinn fyrir gamla stofninn. Sama hef ég minnzt á við hv. þm. Borgf. viðkomandi sparisjóðnum á Akranesi. Ég er við riðinn sparisjóð í Dalasýslu, og við mundum gera þetta eins og hægt væri. Og ef nokkur bréf bærust í Eyjafjarðarsýslu af þeim, sem í frv. er gert ráð fyrir, þá hygg ég, að það stæði ekki á hv. þm. héraðsins með að sýna velvilja í því að taka við bréfunum og leysa þau út, eftir því sem mögulegt væri fyrir hann, sér að skaðlitlu.

Þetta var nokkuð fljótlega mælt, sem ég sagði við hv. 4. þm. Reykv. í sambandi við kostnaðinn. Ég vil athuga þetta með kostnaðinn dálítið betur milli umr., en ég hygg, að hann sé mjög nærri þessu. Sömuleiðis mælist ég til þess við hv. þm. Eyf., að hann taki brtt. sína aftur, svo að n. geti athugað þetta betur.

Ég tel víst, að formaður vilji kalla saman fund, svo að hægt verði að athuga þetta betur.